Þá eru jólin strangt til tekið að baki - svona alheilögustu dagarnir að minnsta kosti. Erillinn í aðdragandanum hélt mér alveg frá blogginu um tíma svo ég stekk núna nokkra daga aftur, til þess tíma er jólin voru um það bil að bresta á. Þá var ég í bíltúr með Birki ásamt Signýju og Hugrúnu.
Við vorum orðin vonlítil um að finna stæði í miðbænum örfáum dögum fyrir jól þegar skyndilega opnaðist eitt neðarlega á Hverfisgötunni, akkúrat fyrir neðan "Jólaþorpið". Líklega besta stæðið í bænum þá stundina. Það var ískalt úti, líklega um 5 gráðu frost og næðingur í ofanálag. En þarna var flott jólastemning í frostköldu loftinu og lúðrasveit á planinu í jólaskapi. Við örkuðum kappklædd inn á svæðið og fórum undir eins inn í fyrsta tjaldið vegna kuldans. Við blöstu jólatré af öllum stærðum og gerðum. "Má ekki bjóða ykkur jólatré?" kom óhjákvæmileg spurningin. Það var Edda Heiðrún Bachman sem ávarpaði mig kurteislega. Ég leit kringum mig og sá að þarna voru saman komnir nokkrir valinkunnir leikarar frá ýmsum tímum. Líklega var þetta sölubás Þjóðleikhússins. "Nei, ég er eiginlega bara að flýja kuldann" sagði ég, "við búum svo þröngt að við gætum ekki komið jólatré fyrir þó við vildum". Þá benti hún kollega sínum á að finna "litla blágrenið þarna fyrir aftan" sem fannst eftir örsutta leit. "Þetta er svona horntré" útskýrði hún og benti á hversu gisið það var öðrum megin. Hún vildi meina að þetta væri sannarlega betra en ekkert - bara stilla því út í horn ofan í ílát með vatni. Það átti að kosta þúsundkall, sem er svo sem ekkert, en ég ætlaði mér samt ekki að kaupa mér tré. Diplómatískur hallaði ég Hugrúnu hins vegar að trénu og leyfði henni að þefa. Þetta var auðvitað liður í því að sýna áhuga samt sem áður. Hugrún snusaði, fann lyktina af jólunum, og bræddi líklega hjartaði í Eddu því hún sagði að bragði: "Veistu hvað, ég ætla bara að gefa ykkur tréð" og fyrirskipaði svo Benedikt Erlings að rúlla því upp fyrir mig. Þá gat ég ekki annað en þegið tréð og kvaddi með virktum fyrir örlætið.
Þannig eignuðumst við fyrsta lifandi jólatréð okkar! En nú voru góð ráð dýr. Við þurftum að eignast almennilegan fót fyrir tréð til að Signý og Hugrún veltu því ekki um koll. Ég sá fyrir mér hvernig ég gæti henst í vinnuna og nýtt mér smiðaaðstöðuna þar til að setja eitthvað saman til málamynda og fór að skissa einhverjar hugmyndir á blað. Það voru bara þrír dagar til jóla og varla neinn tími til stefnu. Mér fannst hins vegar ótækt að kaupa 5-10 þúsund króna fót fyrir ókeypis tré!!! Tréð skapaði svo sannarlega vandamál sem þurfti að leysa, einmitt þegar enginn tími var til stefnu. Það var á tímabili litið hálfgerðu hornauga, eins og það væri boðflenna á ögurstundu. En sem betur fer komumst við að því, bara á meðan við vorum að deila út pökkum daginn fyrir Þorláksmessu, að einn fótur var á lausu innan fjölskyldunnar. Málum reddað fyrir horn. Að svo búnu var trénu stillt upp vandlega í stofunni, en þá tók seríuvandinn við? Við áttum eina tæpa. Hún var hins vegar mjög tæp. Nokkur kerti voru sprungin og hin sem eftir voru reyndust skuggalega heit þegar á reyndi. Við settum hana á og á Þorláksmessu og Aðfangadag leyfðum við seríunni að loga stutt í einu, bara til málamynda, og drógum í leiðinni slökkvitækið inn í stofu, bara til vonar og vara (svona gamlar seríur geta verið stórhættulegar, skilst manni). En okkur barst á ný hjálp. Sirrý, mamma Vigdísar, hafði fullan skilning á alvarleika málsins og gaukaði að okkur í jólaboði á Jóladag glæsilegri rauðri seríu sem hún átti aflögu. Þetta virkaði að sjálfsögðu sem hvatning og í kjölfarið fór Vigdís að gramsa enn betur í kössum og fann nett jólaskraut sem hæfði rauði seríunni. Núna logar því í stofunni myndarlegt tré, til þess að gera, þangað sem það komst svo sannarlega með herkjum.
sunnudagur, desember 27, 2009
þriðjudagur, desember 15, 2009
Upplifun: Leikur að orðum
Um daginn fylgdist ég með sérkennilegum samræðum Signýjar og Hugrúnar. Þær sátu andspænis hvorri annarri við hátt borð og voru eitthvað að dunda sér (að lita, minnir mig). Ég gaf orðum þeirra ekkert sérstakan gaum fyrr en ég tók eftir því að Signý var farin að segja "fyrirgefðu", mjög varlega, í áföngum, með skýru erri eins og hún væri beinlínis að æfa sig í framburðinum. Þá hermdi Hugrún eftir henni og sagði þetta eitthvað kæruleysislegar. "Nei", leiðrétti Signý hana og endurtók sérlega skýrt: "Fyrir-gefðu!". Þá sagði Hugrún, með smá prakkarsvip: "Fjóla Gerður"? Þær brostu báðar því þetta eru nöfn á tveimur starfsmönnum leikskólans og því mjög nærtækt. Signý flissaði jafnvel svolítið og bætti svo um betur: "Maríu-erla"!! Svo hlógu þær báðar. Ég fylgdist hins vegar hissa með og velti fyrir mér hvort þær væru meðvitaðar um orðaleikinn í þessu öllu saman.
Daglegt líf: Jólaerill
Nú eru aðeins nokkrir dagar í jólafrí, með tilheyrandi uppákomum, jólamat í vinnunni, litlu jólum og þvíumlíku. Í dag fór ég til dæmis með Signýju og Hugrúnu í vinnuna seinni partinn til að baka piparkökuhús og skreyta. Þær einskorðuðu sig reyndar við venjulegar piparkökur og komu stoltar með þær heim - skreyttar með glassúr og "smarties". En þetta var ekki í fyrsta skipti sem þær skreyttu piparkökur þessi jólin: í leikskólanum var þetta gert fyrir rúmri viku og nú síðast á sunnudaginn fórum við til Beggu systur að dunda okkur á sama hátt. Ég held að þær systur séu ekkert að fá leið á þessu jólaamstri. Reyndar er af mörgu að taka. Þær eru spenntar fyrir jóladagatalinu (einn moli á dag - strax eftir leikskóla) og nú nýlega er skórinn farinn að luma á ýmsu. Signý er orðin mjög meðvituð um þetta allt saman og spyr strax um skóinn um leið og hún rumskar að morgni.
þriðjudagur, desember 08, 2009
Fréttnæmt: Afmæli Signýjar
Signý hélt upp á afmælið sitt um helgina (sem er strangt til tekið ekki fyrr en þann þrettánda). Hún er búin að vera með þetta í maganum lengi enda er desembermánuður hennar hátíð út í eitt. Undanfarna daga hafði hún spurt mig reglulega út í jólin og afmælið. Hún áttaði sig ekki alveg á muninum, fannst mér, svo ég skissaði upp eins konar dagatal á strimil. Þar merkti ég inn dagarununa frá fyrsta desember og til aðfangadags með skýrum reitum, daganúmerum og öðrum viðeigandi merkingum. Með þessu gat ég einfaldlega sýnt henni dagafjöldann og talið dagana með henni jafnóðum og ég strikaði út dagana sem voru að baki.
Svo kom helgin. Í heimkeyrslunni spurði Signý mig strax: "Hvað eru margir dagar þangað til ég á afmæli?". Hún vissi það reyndar en vildi fá staðfestingu á því að þeir væru bara tveir og sagði svo: "Ó, hvað ég er spennt!"
Afmælið gekk ljómandi vel þrátt fyrir meiri forföll en oft áður. Einhverjir mættu daginn fyrir og aðrir eiga eftir að kíkja óformlega seinna. Svo er barnaafmælið líka eftir - á laugardaginn kemur! Það verður einfalt og óformlegt, eins konar opið hús fyrir börn og aðstandendur þeirra. Maður vonar bara að Signý verði ekki ringluð eftir þetta allt saman því leikskólinn verður líka með smá uppákomu í vikunni fyrir hana og önnur afmælisbörn mánaðarins. Ef svo er tekur maður bara upp strimilinn góða.
Svo kom helgin. Í heimkeyrslunni spurði Signý mig strax: "Hvað eru margir dagar þangað til ég á afmæli?". Hún vissi það reyndar en vildi fá staðfestingu á því að þeir væru bara tveir og sagði svo: "Ó, hvað ég er spennt!"
Afmælið gekk ljómandi vel þrátt fyrir meiri forföll en oft áður. Einhverjir mættu daginn fyrir og aðrir eiga eftir að kíkja óformlega seinna. Svo er barnaafmælið líka eftir - á laugardaginn kemur! Það verður einfalt og óformlegt, eins konar opið hús fyrir börn og aðstandendur þeirra. Maður vonar bara að Signý verði ekki ringluð eftir þetta allt saman því leikskólinn verður líka með smá uppákomu í vikunni fyrir hana og önnur afmælisbörn mánaðarins. Ef svo er tekur maður bara upp strimilinn góða.
Upplifun: "Beinverkir" í vöðvum
Eftir svokallaða "dugnaðarviku" nýlega er eins og allur vindur hafi farið úr manni. Ég veiktist og varð hálf skrýtinn í nokkra daga. Það lýsti sér sem lágur morgunhiti, 38 gráður, sem runnu af mér á hádegi - tvo daga í röð. Vægast sagt sérkennilegt mynstur það. Önnur einkenni voru líka óheðfbundin - ekki neitt í hálsi, né hausverkur eða beinverkir. Hins vegar var ég alsettur verkjum í vöðvum eins og um allsherjar harðsperrur væri að ræða. Ég reyndi að setja þetta í samband við duglegt skokk sem ég einhenti mér í á dögunum en sú skýring hefði þó aðeins náð upp í kálfa. Ég hafði enga skýringu á því hvers vegna ég var með vöðvaverki í öxlum, baki,lærvöðvum og upphandlegg auk þess að vera með verulega skertar fínhreyfingar í fingrum.
Þetta hafði þau áhrif að ég var frá vinnu á miðvikudaginn var (fyrir viku) og á fimmtudaginn líka. Á föstudaginn var kíkti ég í vinnu og lagði mig fram um að vinna eins og maður (eins og heill maður). Svo til læknis, á læknavaktina. Bráðabirgðaniðurstaða hans var sú að ég hefði fengið einhvern vírus (þeir eru víst ólíkindatól og hegða sér oft undarlega) sem hefði fengið útrás með þessum viðvarandi slappleika á eftir. Verkirnir voru hins vegar "beinverkir", sagði læknirinn. Svokallaðir "beinverkir" eru nefnilega "vöðvaverkir" sem okkur finnst koma innan úr beinum. Í þessu tilviki var tilfinningin bara önnur. En niðurstaðan var sú að mér ætti að batna á nokkrum dögum - ellegar skyldi ég koma aftur og láta taka blóðprufu.
Þetta stóð heima hjá lækninum. Verkirnir dvínuðu reyndar hægar en ég hafði vonast til en í dag, þriðjudag, er ég hins vegar orðinn nokkuð góður. Það lýsir sér meðal annars í því að ég get "pikkað" á lyklaborð án þess að finna fyrir áreynsluþreytu í upphandleggg og verkjum í fingrum. Þetta er allt að koma.
Þetta hafði þau áhrif að ég var frá vinnu á miðvikudaginn var (fyrir viku) og á fimmtudaginn líka. Á föstudaginn var kíkti ég í vinnu og lagði mig fram um að vinna eins og maður (eins og heill maður). Svo til læknis, á læknavaktina. Bráðabirgðaniðurstaða hans var sú að ég hefði fengið einhvern vírus (þeir eru víst ólíkindatól og hegða sér oft undarlega) sem hefði fengið útrás með þessum viðvarandi slappleika á eftir. Verkirnir voru hins vegar "beinverkir", sagði læknirinn. Svokallaðir "beinverkir" eru nefnilega "vöðvaverkir" sem okkur finnst koma innan úr beinum. Í þessu tilviki var tilfinningin bara önnur. En niðurstaðan var sú að mér ætti að batna á nokkrum dögum - ellegar skyldi ég koma aftur og láta taka blóðprufu.
Þetta stóð heima hjá lækninum. Verkirnir dvínuðu reyndar hægar en ég hafði vonast til en í dag, þriðjudag, er ég hins vegar orðinn nokkuð góður. Það lýsir sér meðal annars í því að ég get "pikkað" á lyklaborð án þess að finna fyrir áreynsluþreytu í upphandleggg og verkjum í fingrum. Þetta er allt að koma.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)