Við áttum huggulega stund fyrir framan sjónvarpið í kvöld. "Kósíkvöld" felur í sér að Signý og Hugrún mega horfa á sjónvarpið og kúra þar þangað til þær sofna (sem er iðulega fyrir klukkan níu). Mánudagskvöldin eru tilvalin í þetta því þá er svo notalegt sjónvarp strax eftir fréttir - yfirleitt náttúrulífsþættir. Þeir virka róandi á stelpurnar en eru líka áhugaverðir útgangspunktar í alls konar spjall og vangaveltur.
Í kvöld var horft á ferðir Stephens Fry um Cortez-haf í leit að Steypireiði. Signý vissi að í þetta skiptið ætlaði hann að leita að hval (síðast var það páfagaukur). Hún spurði hvort það væri Hnúfubakur. Hún kannast við hann úr Dóruþáttunum og virðist muna sérstaklega vel eftir honum. Framburðurinn á heitinu vafðist eitthvað fyrir henni. Yfirleitt segir hún "hnúðubakur" en sagði í kvöld hálf-syfjuð, "lúðubakur". Hún var auðvitað fljót að leiðrétta það. Svo horfðum við áfram og sáum merkileg dýr - smokkfiska í stórri torfu með sína sogblöðkuarma. Þetta var heldur ókræsileg sjón og ég sá að Signýju leist eiginlega ekkert á þetta og spurði mig virkilega hvort þetta væri "plokkfiskur".
Ég held hún hafi verið svolítið fegin þegar ég leiðrétti misskilninginn :-)
mánudagur, september 27, 2010
miðvikudagur, september 22, 2010
Pæling: Í sparnaðarskyni
Mig dreymdi sérkennilega í nótt. Ég var staddur í verslun og bauðst að kaupa gallabuxur á 300 þúsund krónur og fannst boðið mjög girnilegt af því buxurnar höfðu áður kostað 1.3 milljónir. Ég var sem sagt að græða heila milljón á kaupunum. Ég var um það bil að rétta fram kortið þegar rofaði til í höfðinu og ég mundi eftir því að gallabuxur ættu ekki að kosta nema um 10 þúsund kall.
Þegar ég vaknaði tók ég þessu eins og hverri annarri dæmisögu. Dags daglega stendur maður frammi fyrir tilboðum og heldur að maður sé að spara með því að kaupa vöru á niðursettu verði en yfirleitt er maður bara að kaupa eitthvað sem maður hefði annars ekki keypt (kaupmaðurinn græðir). Það á líka við um magnafslátt. Stundum er betra að kaupa smærri umbúðir þó þær séu hlutfallslega dýrari vegna þess að umframmagnið nýtist ekki eða að það kallar á óþarfa umframneyslu. Klassískt dæmi er tveggja lítra gos sem hefur í för með sér meiri sykurneyslu en menn hafa gott af (og kostar að auki meiri pening) eða skemmist í meðförum þeirra sem kunna sér hóf (og kostar samt meiri pening).
Um daginn keypti ég, einu sinni sem oftar, kassa af íspinnum handa Signýju og Hugrúnu. Þetta eru tuttugu grænir íspinnar í bland við vanillu rjómaíspinna á um það bil 600 krónur. Mér reiknast til að pinninn kosti þá 30 krónur stykkið! Frábært að eiga heima í sparnaðarskyni. Málið er hins vegar að þær vita af þessu í frystinum og eiga það til að biðja um ís strax eftir heimkomu úr leikskóla. Ég spyr sjálfan mig að því hvort þetta sé þá ekki bara óþarfa sykurneysla plús peningaeyðsla. Ég var því mjög ánægður einn daginn þegar ég fann áþreifanlega fyrir sparnaði gegnum þessi kaup. Þá stóð beinlínis til að fara út í ísbúð en Signý óskaði eftir því að fá íspinna heima frekar - og Hugrún samsinnti. Samanlagt hefði ísinn úr ísbúðinni kostað jafn mikið og 20 íspinnar í pakka. Þarna borguðu kaupin sig upp á einu bretti! Ef þetta væri nú bara alltaf svona :-)
Þegar ég vaknaði tók ég þessu eins og hverri annarri dæmisögu. Dags daglega stendur maður frammi fyrir tilboðum og heldur að maður sé að spara með því að kaupa vöru á niðursettu verði en yfirleitt er maður bara að kaupa eitthvað sem maður hefði annars ekki keypt (kaupmaðurinn græðir). Það á líka við um magnafslátt. Stundum er betra að kaupa smærri umbúðir þó þær séu hlutfallslega dýrari vegna þess að umframmagnið nýtist ekki eða að það kallar á óþarfa umframneyslu. Klassískt dæmi er tveggja lítra gos sem hefur í för með sér meiri sykurneyslu en menn hafa gott af (og kostar að auki meiri pening) eða skemmist í meðförum þeirra sem kunna sér hóf (og kostar samt meiri pening).
Um daginn keypti ég, einu sinni sem oftar, kassa af íspinnum handa Signýju og Hugrúnu. Þetta eru tuttugu grænir íspinnar í bland við vanillu rjómaíspinna á um það bil 600 krónur. Mér reiknast til að pinninn kosti þá 30 krónur stykkið! Frábært að eiga heima í sparnaðarskyni. Málið er hins vegar að þær vita af þessu í frystinum og eiga það til að biðja um ís strax eftir heimkomu úr leikskóla. Ég spyr sjálfan mig að því hvort þetta sé þá ekki bara óþarfa sykurneysla plús peningaeyðsla. Ég var því mjög ánægður einn daginn þegar ég fann áþreifanlega fyrir sparnaði gegnum þessi kaup. Þá stóð beinlínis til að fara út í ísbúð en Signý óskaði eftir því að fá íspinna heima frekar - og Hugrún samsinnti. Samanlagt hefði ísinn úr ísbúðinni kostað jafn mikið og 20 íspinnar í pakka. Þarna borguðu kaupin sig upp á einu bretti! Ef þetta væri nú bara alltaf svona :-)
þriðjudagur, september 21, 2010
Myndir: Ferðalag í Elliðaárdalnum
Ég setti nokkrar myndir á myndasíðuna í gær. Þær segja frá ævintýraferð okkar Signýjar og Hugrúnar með Beggu og börnum í Elliðaárdalinn þar sem við leituðum uppi kanínur. Við gerðum svolítið meira úr ferðinni en ætla mætti, lögðum bílnum í Bústaðahverfinu og röltum sem leið lá undirgöngin og þaðan í átt að Mjóddinni. Þar eru kanínurnar einmitt staðsettar, í grenndi við bæinn og stóra hólinn (sem við kölluðum alltaf "kanínuhól"). Smellið á myndina hér fyrir neðan til að fá alla söguna :-)
þriðjudagur, september 07, 2010
Upplifun: Leynilegir tónleikar
Ég fór á afar sérstaka tónleika í gærkvöldi. Ég fékk "leynilegar" upplýsingar um að til stæði að halda tónleika að Gljúfrasteini. Þröstur, fyrrv. mágur, var svo almennilegur að hvísla þessu að mér símleiðis. Hann hefur starfað þarna í fjölmörg ár og setið marga tónleikana sem þarna hafa verið haldnir gegnum tíðina. En þessir voru óvenjulegir fyrir það að vera ekkert auglýstir og voru þess vegna aðeins fáeinir útvaldir á staðnum. Þarna var hins vegar saman komið einvalalið djassista (Eyþór Gunnars og fleiri góðir) að taka upp plötu. Þeir voru búnir að nota daginn í upptökur og fylgdu því ferli svo eftir með tónleikum, sem einnig voru teknir upp. Þetta var afar heimilislegt - enda er heimili Nóbelskáldsins notalegt í alla staði. Laxness var mikill smekkmaður, það er ljóst, og það var nánast eins og að stíga nokkra áratugi aftur í tímann að koma þarna inn. Ég kippti auðvitað Jóni Má með á þessa tónleika og nutum við þess að stíga þarna inn í þetta virðulega hús af þessu tilefni.
miðvikudagur, september 01, 2010
Matur: Krækiber
Ég er orðinn krækiberjaóður. Við fórum í berjatínslu við Hafravatn í síðustu viku og komum heim með hauga af risastórum og ferskum berjum (sprettan er rosaleg í ár). Bláberin hurfu fljótt því enginn vill krækiber, - nema ég. Þau eru hins vegar svo stór og safarík í ár að ég nýt þess að tyggja þau og finna hvernig þau springa í munninum - með rjóma og sykri, að sjálfsögðu. Ekki er verra að hafa bláberjaskyr með. Hins vegar eru krásirnar svo miklar að ég er farinn að borða þetta á ýmsa vegu, bæði kvölds og morgna - fyrst með morgunmatnum (AB mjólk með rúsínum og krækiberjum - sem er merkilega góð blanda) og svo sem eftirrétt eftir kvöldmatinn (ber og rjómi - þetta klassíska). Ég veit í raun ekkert betra en að "bryðja" krækiber nú þegar myrkrið skellur á. Það er eins og að taka inn í eins konar örvæntingu síðustu leifarnar af uppsafnaðri sólarorku sumarsins til að geta stefnt svo ótrauður inn í myrkrið, útblásinn af andoxunarefnum.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)