fimmtudagur, febrúar 17, 2011
Uppákoma: 75 ára afmæli pabba
Í dag var merkilegur dagur í fjölskyldunni. Pabbi varð 75 ára gamall. Við héldum upp á daginn í Blikanesinu, þar sem Bryndís systir ásamt manni sínum, Ásbergi. Mamma var með ekta "mömmumat" og bauð á þriðja tug ættingja í huggulega kvöldmáltíð. Þetta var allt mjög afslappað og enginn átti von á neinni óvæntri uppákomu. Pakkarnir sátu þægir úti í horni og fólk spjallaði saman rólega þegar stórsöngvararnir Davíð og Stefán mættu á svæðið. Þeir vinna við það að koma fram af minnsta tilefni, tveir saman, hvort sem það eru tónleikar, þorrablót, afmæli eða aðrar uppákomur. Með sínar hljómmiklu raddir vöktu þeir mikla lukku og brugðu auðvitað á leik inni á milli, eins og þeim er einum lagið. Lögin snertu öll pabba, sem talaði um það eftir á að þetta hefðu allt verið "uppáhalds lögin sín". Sérstaklega var hann hrifinn af uppklappslaginu, sem var titlað sem "óskalag". Það var "Day-o", sem sló í gegn á heimsvísu í flutningi Harry Belafonte árið 1960. Óskalagið hitti í vel í mark í afslöppuðum flutningi þeirra félaga, og svo kvöddu þeir kurteislega og héldu út í myrkrið. Gestirnir sátu eftir með bros á vör enda magnað að heyra þessar raddir í frábærum hljómburði hússins í Blikanesi. Dagurinn endaði svo á rólegu nótunum með úrvals ís og öðrum eftirréttum úr smiðju mömmu. Þegar við loks tygjuðum okkur heim um níuleytið voru allir sammála um að veislan hefði heppnast vel í alla staði. Hún var bæði heimilisleg og afslöppuð í bland við hið óvænta.
þriðjudagur, febrúar 15, 2011
Þroskaferli: Grunnskólaval
Við Vigdís fórum með Signýju í gær í heimsókn í Grandaskóla. Já, hún er um það bil komin á grunnskólaaldur, ótrúlegt að hugsa sér það! Við fórum á eigin vegum um skólann vegna þess að leikskólinn hennar er á öðru þjónustusvæði og hefur verið að fara með krakkana í Melaskóla. Við erum hins vegar búsett nær Grandaskóla. Skólinn er að mörgu leyti fýsilegri en Melaskóli. Hann er talsvert minni (um það bil 250 nemendur, samanborið við tæplega 500, líklegast) og því auðeldara að halda utan um skipulagið. Mér finnst þetta talsvert stórt atriði því ég er þeirrar skoðunar að grunnskólar Reykjavíkur séu upp til hópa óttaleg bákn og stirðbusalegar rekstrareiningar. Því smærri sem skólinn er því meiri líkur eru á að hægt sé að koma til móts við þarfir einstaklinganna. Byggingin er að minnsta kosti snotur og vinaleg og hefur ýmsa kosti smæðarinnar umfram Melaskóla, sem reyndar er einn fallegasti skóli landsins (að minnsta kosti séð að innan). Stóri kosturinn er hins vegar sá að Signý þarf ekki að fara yfir fjölfarna umferðargötu á leiðinni í skólann og tvær af hennar bestu vinkonum fara sömuleiðis þangað. Svo hef ég hlerað það frá ýmsum aðstandendum og sjálfum fóstrunum í leikskólanum að það fari sérlega gott orð af Grandaskóla. Tónlistarkennslan er óvenju vegleg og skólastjórinn er sjálfur myndlistarmaður að upplagi og er líklegur til að standa vörð um verkmenntir skólans á niðurskurðartímum. Ég hef því tröllatrú á þessu næsta skrefi okkar, sem við reyndar tökum með semingi. Það er óskaplega þægilegt að vera áfram með börnin í öryggishjúpi leikskólans. En allt fram streymir...
laugardagur, febrúar 12, 2011
Sjónvarpið: Vísindakirkjan
Nú er verið að endursýna eftirminnilegar heimildamyndir í sjónvarpinu, á þessum vinda- og votviðrasama laugardegi. Myndirnar fjalla um frækilegt björgunarafrekið í Chile frá í fyrra annars vegar og svo franska heimildamyndin um Vísindakirkjuna. Hana sá ég um daginn, þegar hún var frumsýnd, og var ansi sjokkeraður. Ég hélt að þessi samtök væru byggð á vísindalegum grunni og myndi höfða til skynseminnar að einhverju leyti en annað kom ný í ljós. Samkvæmt myndinni eru þetta þaulhugsuð glæpasamtök, byggð á gróðabraski, skipulögðum heilaþvotti, sálrænni og andlegri niðurrifsstarfssemi og miskunnarlausri kúgun. Ótrúlega merkileg mynd (og samtök, ef út í það er farið).
þriðjudagur, febrúar 01, 2011
Upplifun: Ónotaleg kvöldstund - seinni hluti
Við ókum sem leið lá upp Hverfisgötuna eftir upplifunina óþægilegu í Hafnarstrætinu (sjá síðustu færslu) grunlaus um að hún myndi hafa einhvern eftirmála. Við vorum hins vegar ekki komin nema hálfa leið upp götuna þegar heyrðist í bílflautu að baki. "Er eitthvað athugavert við bílinn okkar?" spurði ég Vigdísi. Við ákváðum að gefa ökumanninum svigrúm til að komast fram hjá okkur, upp Hverfisgötuna, og fórum því inn hliðargötu til hægri í átt að Laugavegi. En þá tókum eftir því að bíllinn fylgdi okkur eftir - og flautaði aftur! það var eins og hann vildi að við stöðvuðum bílinn. Um leið og við komum upp á Laugaveginn fannst okkur rétt að athuga hvað væri á seyði og fundum skásett stæði á hægri hönd og vonuðum auðvitað að hinn héldi áfram sína leið. En hann fór rakleiðis í þarnæsta stæði (einn bíll á milli). Þá sá Vigdís bílnúmerið: "Þetta er sami bíllinn! Hann er kominn til að ná í okkur!". Ég leit um öxl og sá að ég hafði sem betur fer pláss til að bakka hið snarasta. Á sama tíma gekk hinn ökumaðurinn í áttina til okkar með sviplaust andlit fyrir utan hatursfullt augnaráð sem maður sér ekki nema í bíómyndum. Hann var yfirvegaður eins og hann teldi sig hafa okkur í sigtinu. Það virtist hlakka í honum. Hann átti ekki von að við sæjum við honum og var örlítið undrandi á að sjá okkur bakka út en lét það ekki slá sig út af laginu, gekk sallarólega út á miðja götuna og þannig í áttina að bílnum. Það var ekkert nema ísköld heift í andlitinu. Hann var dökkur yfirlitum, grannleitur en með ljóst hörund og minnti mig á Litháa. Augun voru djúpt sokkin og virkuðu sljó en fókuseruð. Við komumst ekkert fram hjá honum en hann gat ekki gert okkur neitt nema með því að komast upp að hlið bílsins og þegar hann var kominn þangað renndi ég bílnum fram hjá honum og niður Laugaveginn. Við horfðum ekki einu sinni í baksýnisspegilinn til að athuga hvort hann ætlaði að elta okkur. Ég var kominn með ágæta "flugbraut" eftir töfina á götunni og gat skotist inn Þingholtin, fór krókaleið gegnum þyrpinguna og svo beina leið heim. Við hringdum að sjálfsögðu á lögregluna á leiðinni og vorum í talsverðu sjokki þegar við komum inn. Öryggisleysið var algjört. Kvöldið var náttúrulega ónýtt og satt best að segja var maður hálf sérkennilegur næsta dag líka, hugsandi stöðugt um allt það sem hefði getað komið fyrir.
Hvað ef ég hefði ekki getað bakkað úr stæðinu í tæka tíð?
Hvað ef ég hefði álpast til að opna gluggann til að eiga orðastað við náungann?
Hvað ef Vigdís hefði ekki séð bílnúmerið og verið svona eldsnögg að átta sig?
Hvað ef við hefðum lent í árekstrinum í upphafi?
Þetta hefði orðið ójafn leikur. Jafnvel þó ég kynni að verja mig hefði það ekki haft mikið upp á sig. Þá kallar það bara á hefnd seinna meir. Það sem er kannski skuggalegast er það að lögreglan getur heldur ekki getað verndað mann, jafnvel þó maður hefði sigað henni á náungann. Hún hefði í mesta lagi getað haldið honum yfir nótt (ef þeir standa hann að verki) og í kjölfarið myndi hann líklega herja á mann af meiri heift - hugsanlega með fleiri gaura með sér. Þannig að... þegar upp er staðið gerðum við allt rétt. Og vorum heppin.
Hvað ef ég hefði ekki getað bakkað úr stæðinu í tæka tíð?
Hvað ef ég hefði álpast til að opna gluggann til að eiga orðastað við náungann?
Hvað ef Vigdís hefði ekki séð bílnúmerið og verið svona eldsnögg að átta sig?
Hvað ef við hefðum lent í árekstrinum í upphafi?
Þetta hefði orðið ójafn leikur. Jafnvel þó ég kynni að verja mig hefði það ekki haft mikið upp á sig. Þá kallar það bara á hefnd seinna meir. Það sem er kannski skuggalegast er það að lögreglan getur heldur ekki getað verndað mann, jafnvel þó maður hefði sigað henni á náungann. Hún hefði í mesta lagi getað haldið honum yfir nótt (ef þeir standa hann að verki) og í kjölfarið myndi hann líklega herja á mann af meiri heift - hugsanlega með fleiri gaura með sér. Þannig að... þegar upp er staðið gerðum við allt rétt. Og vorum heppin.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)