Stundum vill það gleymast hvað það er hollt fyrir börn að sjá foreldra sína kyssast og knúsast. Það virkar eins og næring fyrir þau og vellíðanin sprettur fram í andlitunum. Þegar verr stendur á, og foreldrarnir hafa áhyggjur af einhverjum aðsteðjandi vanda, er þetta eins og mótefni fyrir börnin, svo að þau taki ekki inn á sig áhyggjur foreldranna. Ekkert skiptir þau meira máli en hlýja á heimilinu, bæði gagnvart þeim og ekki síður á milli foreldranna.
Undanfarið höfum við Vigdís verið óvenju meðvituð um þennan "sýnileika" og þegar við kyssumst er eins og hríslist ánægjan í Signýju og Hugrúnu. "Þetta er annað skiptið í dag!" hrópaði Hugrún einu sinni af einskærri ánægju. Þær taka vel eftir. Núna síðast skríkti í henni þegar við Vigdís kysstumst við matarborðið (enda var frábær matur á boðstólum og sannkölluð veitingahúsastemning í stofunni, með framandi tónum í bakgrunni). Þegar Hugrún var búin að láta út úr sér ánægjutóna sagði Signý: "Það má aldrei segja "oj" þegar einhver er að kyssast". Hún var dreymin á svipinn og bætti við: "Kossar eru fallegir".
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þær eru yndi!!! Krúttlurnar.
kossar og knús á ykkur ÖLL !!
kv.Begga frænka
Skrifa ummæli