Ég ákvað að halda upp á barnaafmæli Hugrúnar í gær. Þetta er "hitt" afmælið sem svo oft fylgir fjölskylduafmælinu (þar sem foreldrar okkar Vigdísar og systkini og aðrir aðstandendur fylla hólf og gólf í okkar knöppu en huggulegu húsakynnum). Til að gefa vinkonum Hugrúnar svigrúm til að leika sér varð að bjóða þeim sér. Það var í gær.
Hugrún fékk að bjóða sjö vinkonum sínum og fimm þeirra komust. Það var alveg nógu líflegt. Þetta eru afar ljúfar stelpur sem kunna að dunda sér svo það var mjög auðvelt að halda utan um afmælið. Vigdís var því miður upptekin annars staðar svo ég hóaði í Beggu systur sem kom ásamt Guðnýju frænku. Það er nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti eina auka manneskju til að sinna tilfallandi hlutum, eins og að sækja pitsu og svoleiðis, og grípa inni í ef einhver meiðir sig eða vill fara út að leika.
Þær reyndust betri en engin og það vakti talsverða athygli meðal þeirra foreldra sem stöldruðu við hvað Guðný var dugleg að leika sér með börnunum. Hún breytti sér í tröllskessu eins og ekkert væri og hrelldi þær duglega í bakgarðinum og leyfði þeim að hlaupa um bæði hlæjandi og öskrandi af geðshræringu. Þetta var mjög skemmtilegt. Enda var það fyrsta sem ég heyrði í dag, þegar ég kom í leikskólann að sækja Hugrúnu, að það hefði verið "gaman í afmælinu í gær".
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Guðný skemmti sér líka rosalega vel og fannst gaman að leika við
þær.
Takk fyrir okkur !!
kv.Begga
Skrifa ummæli