Ég bið lesendur bloggsins afsökunar á þeirri viðvarandi þögn sem hefur verið í gangi. Það er búið að vera mikið að gera. Við annasömum dögum var reyndar að búast fyrir skírn og sjálfa skírnarhelgina en eftir hana bættist hins vegar við óvænt törn úr tveimur óskyldum áttum. Fyrst biðu mín kóræfingar bæði á mánudags- og þriðjudagskvöld. Ég er að æfa stykki með Seltjarnarneskirkjukórnum sem er gríðarlega erfitt en alveg mergjað. Það gerir okkur erfitt fyrir að tónlistin hefur aldrei verið hljóðrituð opinberlega. Oftast nýti mér stafrænar upptökur til að glöggva mig á tónlistinni en nú er því ekki til að dreifa. Fyrir vikið hefur tónlistin verið eins og frumskógur mönnum eins og mér (sem ekki geta spilað reiprennandi á neitt hljóðfæri heima hjá sér). En tónlistin er grípandi, svipmikil og ákaflega sérkennileg fyrir sinn tíma. Þetta er barokktónlistarmaður frá Ítalíu, Caldara að nafni. Hann var uppi um svipað leyti og Bach og hafði víst talsverð áhrif á hann og menn eins og Zelenka. Þetta er náungi sem var mikið spilaður á sínum tíma (enda gríðarlega afkastamikið tónskáld) en bíður hins vegar þessi árin stórtækrar enduruppgötvunar. Það má segja að við séum liður í því.
Þegar ég var rétt búinn að blása út eftir tvær vel heppnaðar en krefjandi kóræfingar tók við sérlega langur dagur í vinnunni. Við hefðbundinn starfsdag var nefnilega hnýtt ferðalagi út á land. Ferðin gekk út á að við kynntum okkur starfsemi athyglisverðs skóla rétt utan Selfoss sem starfar á svipuðum forsendum og við. Að sjálfsögðu var einnig snætt áður en við ókum heim. Það var gert innan um birkiskóg í glæsilega endurnýjuðum húsakynnum Þrastarlunds. Þrjú kvöld í röð kom ég því heim seint, um níuleytið, en það er einmitt þá sem Signý litla sofnar (nokkuð stundvíslega). Yfirleitt fer Vigdís að hægja á sér upp úr því og er líka sofnuð snemma kvölds. Það var því engan veginn við hæfi að pikka á tölvu upp undir miðnættið (tölvan rétt hinum megin við svefnherbergisvegginn). Þetta segir sig nú allt sjálft.
laugardagur, mars 25, 2006
þriðjudagur, mars 21, 2006
Fréttnæmt: Skírnin
Skírnin á laugardaginn gekk mjög vel og lagðist vel í veislugesti. Skírt var í litlum en afar huggulegum 40 manna sal þannig að það var rúmt um alla. Salurinn er smekklega hannaður með litlum sólskála sem skagar út úr byggingunni. Gaman hefði verið að hafa sól en þokan umhverfis var hins vegar bara við hæfi því í vatni "skírist" maður best. Við mættum auðvitað mjög snemma til að undirbúa ásamt Séra Braga Skúlasyni og guðforeldrum Signýjar, þeim Ásdísi og Þorgeiri (Togga). Ekki var það þó tímafrekt enda eru skírnir látlausar og einfaldar athafnir.
Margir fjölskyldumeðlima okkar Vigdísar hittust þarna í fyrsta skipti og ekki að sjá annað en vel færi á með þeim. Við nutum fulltingis Bjarts Loga við heimilisleg en jafnframt virðuleg organistastörf og fór vel á því. Fyrir vikið gátu veislugestir tekið markvisst undir sálmasöng fyrir og eftir skírn ("Ó blíði Jesú blessa þú" og "Ó faðir gjör mig lítið ljós"). Það var nú svo að sumir vissu nafnið á Signýju fyrirfram á meðan aðrir vildu markvisst upplifa spennuna allt til enda. Sem guðmóðir fékk Ásdís það hlutverk að opinbera nafnið en allan tímann mátti þó sjá glitta í "Signý" undir þunnri marsipanhulu á skírnartertunni, fyrir þá allra forvitnustu. Reyndar var móðir mín svo snjöll að setja bleikan konfektmola á mitt nafnið, svona sem frekari tálma þeim sem ekki vissu.
Daginn eftir var mjög gestkvæmt heima hjá okkur, frá morgni til kvölds. Við dunduðum okkur með gestum við að skoða skírnargjafir og njóta afslappaðrar samveru innan um kræsingar frá deginum á undan. Ekki var laust við að við fyndum fyrir spennufalli eftir þennan stóra dag þegar stórfjölskylda Signýjar litlu hittist í fyrsta skipti.
Margir fjölskyldumeðlima okkar Vigdísar hittust þarna í fyrsta skipti og ekki að sjá annað en vel færi á með þeim. Við nutum fulltingis Bjarts Loga við heimilisleg en jafnframt virðuleg organistastörf og fór vel á því. Fyrir vikið gátu veislugestir tekið markvisst undir sálmasöng fyrir og eftir skírn ("Ó blíði Jesú blessa þú" og "Ó faðir gjör mig lítið ljós"). Það var nú svo að sumir vissu nafnið á Signýju fyrirfram á meðan aðrir vildu markvisst upplifa spennuna allt til enda. Sem guðmóðir fékk Ásdís það hlutverk að opinbera nafnið en allan tímann mátti þó sjá glitta í "Signý" undir þunnri marsipanhulu á skírnartertunni, fyrir þá allra forvitnustu. Reyndar var móðir mín svo snjöll að setja bleikan konfektmola á mitt nafnið, svona sem frekari tálma þeim sem ekki vissu.
Daginn eftir var mjög gestkvæmt heima hjá okkur, frá morgni til kvölds. Við dunduðum okkur með gestum við að skoða skírnargjafir og njóta afslappaðrar samveru innan um kræsingar frá deginum á undan. Ekki var laust við að við fyndum fyrir spennufalli eftir þennan stóra dag þegar stórfjölskylda Signýjar litlu hittist í fyrsta skipti.
föstudagur, mars 17, 2006
Fréttnæmt: Skírn á morgun
Lítið hef ég skrifað síðustu daga enda höfum við Vigdís verið mjög upptekin við að undirbúa skírnina nk. laugardag (á morgun). Dóttir okkar hefur bara notið bara góðs af erlinum og fengið í fyrsta skipti á ævinni að kíkja í verslunarmiðstöð (Kringlan í gær) og farið út fyrir borgarmörkin (í eins konar rósaleiðangur í Mosfellsbæinn). Þessi eiginlegi erill er þó ekki það sem helst hefur hvílt á okkur Vigdísi heldur hefur nafngiftin reynst okkur erfið, miklu erfiðari en okkur óraði fyrir. Við vorum alltaf að vonast til að nafnið kæmi nokkurn veginn af sjálfu sér, en það gerðist ekki. Þetta reyndist talsverð vinna. Þrír til fjórir möguleikar voru að púslast saman í huganum á okkur allar þessar vikur og mánuði. Möguleikunum fækkaði eftir því sem á leið en samt sem áður vafðist nafngiftin fyrir okkur allt fram á næst síðasta dag. Nú er okkur hins vegar mikið létt og við erum afar sátt við niðurstöðuna. Bráðlega þurfum við ekki lengur minnast á dóttur okkar "undir rós", eins og við höfum alla tíð gert. Hún mun frá og með morgundeginum heita eitthvað annað og meira en "litla daman", "prinsessan" eða "dúllan okkar" (þó hún haldi áfram að vera allt þetta og miklu meira áfram). En í þetta skiptið ríkir þó ekki nafnleysi, eins og áður var, heldur nafnleynd, og á því er stór munur.
laugardagur, mars 11, 2006
Fréttnæmt: Þroskasaga - 1. hluti
Nú er ekki nema vika í skírn hjá okkur og því tímabært að staldra við. Litla daman hefur nefnilega tekið miklum framförum undanfarnar vikur. Sjónin hefur til að mynda snarbatnað, sem fyrirsjáanlegt var. Hún er ekki lengur með þetta þrönga sjónsvið sem nýburar búa yfir og getur nú orðið fylgst með okkur í nokkurra metra fjarlægð. Það er því hægt að eiga við hana stöðug samskipti þó maður sé ekki endilega með hana í fanginu, eins og áður var. Samskiptin eru líka miklu tilþrifameiri en áður. Hún brosir oft að fyrra bragði og lyftir augabrúnunum markvisst, eins og til að ná betra sambandi. Tungan er jafnvel farin að leika sitt hlutverk og flakkar á milli munnvikjanna þegar samskiptaglampinn er sem mestur í augunum. Hún nýtur óspart athyglinnar sem hún fær, og það er auðvitað mjög góðs viti. Hún greinilega þekkir okkur vel í sjón og er komin á það stig að bregða við þegar hún sér ókunnugt andlit. Hún er þó ekki mikil mannafæla, að minnsta kosti enn þá, og er alltaf mjög forvitin þegar sér eitthvað nýtt. Hins vegar höfum við Vigdís tekið eftir því að dóttir okkar er ákaflega viðbrigðin og á það helst til að bregða ef einhver heilsar henni óvænt. Það má ekkert gerast of skyndilega. Ef hún heyrir hvellt hljóð sem hún átti ekki von á, jafnvel þó það sé lágvært, eins og smellur eða hnuss úr nös, þá hrekkur hún í kút og hágrætur í smástund. Hún róast hins vegar tiltölulega fljótt í fanginu á okkur. Þó er viðkvæmnin breytileg eftir tíma dagsins. Hún virðist vera morgunhani. Hún vaknar venjulega brosandi og glöð og lætur lítið á sig fá fyrripartinn en er þeim mun viðkvæmari fyrir nætursvefninn. Á milli átta til tíu á kvöldin á maður því stundum von á smá grátköstum. En sem betur fer er komin góð regla á svefninn. Hún sofnar iðulega um tíuleytið og sefur vel alla nóttina (og er vakin kannski tvisvar til að drekka). Þeir sem vilja sjá breiða brosið ættu því að huga að tímasetningunni þegar þeir heimsækja okkur því fyrir kvöldmat ræður hjalið ríkjum. Stundum finnst okkur eins og það vanti bara herslumuninn upp á að hún tjái sig með orðum. Þangað til deilum við með okkur mildilegu tónfalli og tilþrifamiklum svipbrigðum.
miðvikudagur, mars 08, 2006
Netið: Heimasíðan tekur stökk
Heimasíðan hefur nú loksins verið uppfærð eftir langt hlé. Hún lítur í stórum dráttum eins út og áður þannig að viðbrigðin verða í fyrstu mjög lítil. Hins vegar hafa litirnir breyst aðeins og sumir "tengiliðir" hafa verið felldir út en aðrir komið í staðinn. Til dæmis er nú komin bein vísun á "myndasíðuna" og sömuleiðis bein tenging við "dagbókina" og annað í þeim dúr. Þessi síða er því kjörinn byrjunarreitur fyrir þá sem skoða bæði bloggið og myndasíðuna reglulega því hún býður líka upp á margar aðrar tengingar við fjölbreytt efni á vefsvæðinu sem ég hef smám saman sett inn gegnum tíðina. Ástæða er hins vegar til að benda sérstaklega á bláa "dregilinn" í miðju síðunnar. Hann er nýmæli. Þar hef ég raðað niður skipulega (en samt í belg og biðu) þeim tengingum út á "ytra" netið sem ég held mest upp á sjálfur. Þetta eru síður sem staðist hafa endurteknar heimsóknir mínar á löngum tíma og eru allar nýlega yfirfarðar. Hugsunin að baki þessu er sú að nú geti ég nýtt mér síðuna sem tenglasafn við þá áningarstaði sem ég vildi helst kíkja reglulega á. Þetta er áminning um að nota tímann á netinu skynsamlega og hvatning í senn um að netið sé annað og meira en innantóm hringiða. Þeir sem luma á áhugaverðum tengingum í anda þeirra sem hér birtast mega gjarnan koma þeim á framfæri.
föstudagur, mars 03, 2006
Pæling: Afreksfólk
Ég las nýlega í Fréttablaðinu grein um merkustu núlifandi Íslendinga, samkvæmt víðtækri skoðanakönnun. Í efstu sætin röðuðu sér, í þessari röð: Vigdís Finnbogadóttir, Davíð Oddsson, Björk Guðmundsdóttir, Eiður Smári Guðjohnssen og Ólafur Ragnar Grímsson. Ósjálfrátt fór ég að hugsa út í það hvern ég myndi nefna ef ég hefði sjálfur staðið fyrir svörum. Kannski einhvern hér að ofan. Mér varð samt hugsað til áhrifaminni spámanna sem ég ber engu að síður geysimikla virðingu fyrir.
Af þeim sem hafa verið virkir í nokkra áratugi (en lifa þó enn) kom Megas fyrstur í hugann. Hann situr við hægri hönd Halldórs Laxness álmáttugs (og mun þar halda áfram að dæma lifendur og dauða). Af stallbræðrum hans frá sama tíma myndi ég hiklaust vilja nefna Valgeir Guðjónsson sem að mínu mati er vanmetnasti lagahöfundur þjóðarinnar, en hann er einnig grínist af guðs náð. Ómar Ragnarsson er líka ótrúlegur afreksmaður á mörgum sviðum samtímis sem hvað best allra hefur náð að beisla eigin ofvirkni. Hugsjónastarf hans er ómetanlegt innan um öll önnur uppátæki. Einnig mætti nefna stjórnmálamanninn Steingrím Joð sem stendur alltaf upp úr rykinu sem þyrlað er upp á hinu háa Alþingi og nær enn að halda trúverðugleika sínum þrátt fyrir látlausa andstöðu sína. Einnig getur maður ekki annað en dáðst að höfundi Latabæjar, Magnúsi Scheving, sem er ekki aðeins baráttumaður fyrir þessari langsóttu hugsjón, heldur einnig gríðarlegur afreksmaður á sviði íþrótta. Jón Gnarr er líka algjörlega sér á parti sem afreksmaður á sviði gríns. Hann nær að nýta sér til framdráttar að vera utangarðs og óframfærinn og notar það sem brodd í eigin gríni. Starfar þar fyrir utan sem alvarlega þenkjandi pistlahöfundur. Fjölmargir aðrir koma upp í hugan, margir hverjir á uppleið þessi árin á hinum ýmsu sviðum: Tónlistarmenn (Sigur Rós), leikstjórar (Dagur Kári), rithöfundar (Andri Snær) eða stjórnmálamenn (Dagur B.), - sumir hverjir afreksmenn á mörgum sviðum samtímis. Á meðan við flest velkjumst um í hvunndagsstríðinu virðast allir þeir sem hér hafa verið taldir upp geta knúið fram sitt besta með einhvers konar óskiljanlegri ósérhlifni.
En fyrst maður er að minnast á þetta þá rakst ég á áhugaverða heimasíðu undir flaggi Time-magazine sem fjallar einmitt um afreksfólk á ýmsum sviðum. Skemmtileg lesning, svona til samanburðar.
Af þeim sem hafa verið virkir í nokkra áratugi (en lifa þó enn) kom Megas fyrstur í hugann. Hann situr við hægri hönd Halldórs Laxness álmáttugs (og mun þar halda áfram að dæma lifendur og dauða). Af stallbræðrum hans frá sama tíma myndi ég hiklaust vilja nefna Valgeir Guðjónsson sem að mínu mati er vanmetnasti lagahöfundur þjóðarinnar, en hann er einnig grínist af guðs náð. Ómar Ragnarsson er líka ótrúlegur afreksmaður á mörgum sviðum samtímis sem hvað best allra hefur náð að beisla eigin ofvirkni. Hugsjónastarf hans er ómetanlegt innan um öll önnur uppátæki. Einnig mætti nefna stjórnmálamanninn Steingrím Joð sem stendur alltaf upp úr rykinu sem þyrlað er upp á hinu háa Alþingi og nær enn að halda trúverðugleika sínum þrátt fyrir látlausa andstöðu sína. Einnig getur maður ekki annað en dáðst að höfundi Latabæjar, Magnúsi Scheving, sem er ekki aðeins baráttumaður fyrir þessari langsóttu hugsjón, heldur einnig gríðarlegur afreksmaður á sviði íþrótta. Jón Gnarr er líka algjörlega sér á parti sem afreksmaður á sviði gríns. Hann nær að nýta sér til framdráttar að vera utangarðs og óframfærinn og notar það sem brodd í eigin gríni. Starfar þar fyrir utan sem alvarlega þenkjandi pistlahöfundur. Fjölmargir aðrir koma upp í hugan, margir hverjir á uppleið þessi árin á hinum ýmsu sviðum: Tónlistarmenn (Sigur Rós), leikstjórar (Dagur Kári), rithöfundar (Andri Snær) eða stjórnmálamenn (Dagur B.), - sumir hverjir afreksmenn á mörgum sviðum samtímis. Á meðan við flest velkjumst um í hvunndagsstríðinu virðast allir þeir sem hér hafa verið taldir upp geta knúið fram sitt besta með einhvers konar óskiljanlegri ósérhlifni.
En fyrst maður er að minnast á þetta þá rakst ég á áhugaverða heimasíðu undir flaggi Time-magazine sem fjallar einmitt um afreksfólk á ýmsum sviðum. Skemmtileg lesning, svona til samanburðar.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)