þriðjudagur, mars 21, 2006

Fréttnæmt: Skírnin

Skírnin á laugardaginn gekk mjög vel og lagðist vel í veislugesti. Skírt var í litlum en afar huggulegum 40 manna sal þannig að það var rúmt um alla. Salurinn er smekklega hannaður með litlum sólskála sem skagar út úr byggingunni. Gaman hefði verið að hafa sól en þokan umhverfis var hins vegar bara við hæfi því í vatni "skírist" maður best. Við mættum auðvitað mjög snemma til að undirbúa ásamt Séra Braga Skúlasyni og guðforeldrum Signýjar, þeim Ásdísi og Þorgeiri (Togga). Ekki var það þó tímafrekt enda eru skírnir látlausar og einfaldar athafnir.

Margir fjölskyldumeðlima okkar Vigdísar hittust þarna í fyrsta skipti og ekki að sjá annað en vel færi á með þeim. Við nutum fulltingis Bjarts Loga við heimilisleg en jafnframt virðuleg organistastörf og fór vel á því. Fyrir vikið gátu veislugestir tekið markvisst undir sálmasöng fyrir og eftir skírn ("Ó blíði Jesú blessa þú" og "Ó faðir gjör mig lítið ljós"). Það var nú svo að sumir vissu nafnið á Signýju fyrirfram á meðan aðrir vildu markvisst upplifa spennuna allt til enda. Sem guðmóðir fékk Ásdís það hlutverk að opinbera nafnið en allan tímann mátti þó sjá glitta í "Signý" undir þunnri marsipanhulu á skírnartertunni, fyrir þá allra forvitnustu. Reyndar var móðir mín svo snjöll að setja bleikan konfektmola á mitt nafnið, svona sem frekari tálma þeim sem ekki vissu.

Daginn eftir var mjög gestkvæmt heima hjá okkur, frá morgni til kvölds. Við dunduðum okkur með gestum við að skoða skírnargjafir og njóta afslappaðrar samveru innan um kræsingar frá deginum á undan. Ekki var laust við að við fyndum fyrir spennufalli eftir þennan stóra dag þegar stórfjölskylda Signýjar litlu hittist í fyrsta skipti.

Engin ummæli: