föstudagur, mars 03, 2006

Pæling: Afreksfólk

Ég las nýlega í Fréttablaðinu grein um merkustu núlifandi Íslendinga, samkvæmt víðtækri skoðanakönnun. Í efstu sætin röðuðu sér, í þessari röð: Vigdís Finnbogadóttir, Davíð Oddsson, Björk Guðmundsdóttir, Eiður Smári Guðjohnssen og Ólafur Ragnar Grímsson. Ósjálfrátt fór ég að hugsa út í það hvern ég myndi nefna ef ég hefði sjálfur staðið fyrir svörum. Kannski einhvern hér að ofan. Mér varð samt hugsað til áhrifaminni spámanna sem ég ber engu að síður geysimikla virðingu fyrir.

Af þeim sem hafa verið virkir í nokkra áratugi (en lifa þó enn) kom Megas fyrstur í hugann. Hann situr við hægri hönd Halldórs Laxness álmáttugs (og mun þar halda áfram að dæma lifendur og dauða). Af stallbræðrum hans frá sama tíma myndi ég hiklaust vilja nefna Valgeir Guðjónsson sem að mínu mati er vanmetnasti lagahöfundur þjóðarinnar, en hann er einnig grínist af guðs náð. Ómar Ragnarsson er líka ótrúlegur afreksmaður á mörgum sviðum samtímis sem hvað best allra hefur náð að beisla eigin ofvirkni. Hugsjónastarf hans er ómetanlegt innan um öll önnur uppátæki. Einnig mætti nefna stjórnmálamanninn Steingrím Joð sem stendur alltaf upp úr rykinu sem þyrlað er upp á hinu háa Alþingi og nær enn að halda trúverðugleika sínum þrátt fyrir látlausa andstöðu sína. Einnig getur maður ekki annað en dáðst að höfundi Latabæjar, Magnúsi Scheving, sem er ekki aðeins baráttumaður fyrir þessari langsóttu hugsjón, heldur einnig gríðarlegur afreksmaður á sviði íþrótta. Jón Gnarr er líka algjörlega sér á parti sem afreksmaður á sviði gríns. Hann nær að nýta sér til framdráttar að vera utangarðs og óframfærinn og notar það sem brodd í eigin gríni. Starfar þar fyrir utan sem alvarlega þenkjandi pistlahöfundur. Fjölmargir aðrir koma upp í hugan, margir hverjir á uppleið þessi árin á hinum ýmsu sviðum: Tónlistarmenn (Sigur Rós), leikstjórar (Dagur Kári), rithöfundar (Andri Snær) eða stjórnmálamenn (Dagur B.), - sumir hverjir afreksmenn á mörgum sviðum samtímis. Á meðan við flest velkjumst um í hvunndagsstríðinu virðast allir þeir sem hér hafa verið taldir upp geta knúið fram sitt besta með einhvers konar óskiljanlegri ósérhlifni.

En fyrst maður er að minnast á þetta þá rakst ég á áhugaverða heimasíðu undir flaggi Time-magazine sem fjallar einmitt um afreksfólk á ýmsum sviðum. Skemmtileg lesning, svona til samanburðar.

Engin ummæli: