laugardagur, mars 11, 2006

Fréttnæmt: Þroskasaga - 1. hluti

Nú er ekki nema vika í skírn hjá okkur og því tímabært að staldra við. Litla daman hefur nefnilega tekið miklum framförum undanfarnar vikur. Sjónin hefur til að mynda snarbatnað, sem fyrirsjáanlegt var. Hún er ekki lengur með þetta þrönga sjónsvið sem nýburar búa yfir og getur nú orðið fylgst með okkur í nokkurra metra fjarlægð. Það er því hægt að eiga við hana stöðug samskipti þó maður sé ekki endilega með hana í fanginu, eins og áður var. Samskiptin eru líka miklu tilþrifameiri en áður. Hún brosir oft að fyrra bragði og lyftir augabrúnunum markvisst, eins og til að ná betra sambandi. Tungan er jafnvel farin að leika sitt hlutverk og flakkar á milli munnvikjanna þegar samskiptaglampinn er sem mestur í augunum. Hún nýtur óspart athyglinnar sem hún fær, og það er auðvitað mjög góðs viti. Hún greinilega þekkir okkur vel í sjón og er komin á það stig að bregða við þegar hún sér ókunnugt andlit. Hún er þó ekki mikil mannafæla, að minnsta kosti enn þá, og er alltaf mjög forvitin þegar sér eitthvað nýtt. Hins vegar höfum við Vigdís tekið eftir því að dóttir okkar er ákaflega viðbrigðin og á það helst til að bregða ef einhver heilsar henni óvænt. Það má ekkert gerast of skyndilega. Ef hún heyrir hvellt hljóð sem hún átti ekki von á, jafnvel þó það sé lágvært, eins og smellur eða hnuss úr nös, þá hrekkur hún í kút og hágrætur í smástund. Hún róast hins vegar tiltölulega fljótt í fanginu á okkur. Þó er viðkvæmnin breytileg eftir tíma dagsins. Hún virðist vera morgunhani. Hún vaknar venjulega brosandi og glöð og lætur lítið á sig fá fyrripartinn en er þeim mun viðkvæmari fyrir nætursvefninn. Á milli átta til tíu á kvöldin á maður því stundum von á smá grátköstum. En sem betur fer er komin góð regla á svefninn. Hún sofnar iðulega um tíuleytið og sefur vel alla nóttina (og er vakin kannski tvisvar til að drekka). Þeir sem vilja sjá breiða brosið ættu því að huga að tímasetningunni þegar þeir heimsækja okkur því fyrir kvöldmat ræður hjalið ríkjum. Stundum finnst okkur eins og það vanti bara herslumuninn upp á að hún tjái sig með orðum. Þangað til deilum við með okkur mildilegu tónfalli og tilþrifamiklum svipbrigðum.

Engin ummæli: