laugardagur, mars 25, 2006

Daglegt líf: Aukreitis erill

Ég bið lesendur bloggsins afsökunar á þeirri viðvarandi þögn sem hefur verið í gangi. Það er búið að vera mikið að gera. Við annasömum dögum var reyndar að búast fyrir skírn og sjálfa skírnarhelgina en eftir hana bættist hins vegar við óvænt törn úr tveimur óskyldum áttum. Fyrst biðu mín kóræfingar bæði á mánudags- og þriðjudagskvöld. Ég er að æfa stykki með Seltjarnarneskirkjukórnum sem er gríðarlega erfitt en alveg mergjað. Það gerir okkur erfitt fyrir að tónlistin hefur aldrei verið hljóðrituð opinberlega. Oftast nýti mér stafrænar upptökur til að glöggva mig á tónlistinni en nú er því ekki til að dreifa. Fyrir vikið hefur tónlistin verið eins og frumskógur mönnum eins og mér (sem ekki geta spilað reiprennandi á neitt hljóðfæri heima hjá sér). En tónlistin er grípandi, svipmikil og ákaflega sérkennileg fyrir sinn tíma. Þetta er barokktónlistarmaður frá Ítalíu, Caldara að nafni. Hann var uppi um svipað leyti og Bach og hafði víst talsverð áhrif á hann og menn eins og Zelenka. Þetta er náungi sem var mikið spilaður á sínum tíma (enda gríðarlega afkastamikið tónskáld) en bíður hins vegar þessi árin stórtækrar enduruppgötvunar. Það má segja að við séum liður í því.

Þegar ég var rétt búinn að blása út eftir tvær vel heppnaðar en krefjandi kóræfingar tók við sérlega langur dagur í vinnunni. Við hefðbundinn starfsdag var nefnilega hnýtt ferðalagi út á land. Ferðin gekk út á að við kynntum okkur starfsemi athyglisverðs skóla rétt utan Selfoss sem starfar á svipuðum forsendum og við. Að sjálfsögðu var einnig snætt áður en við ókum heim. Það var gert innan um birkiskóg í glæsilega endurnýjuðum húsakynnum Þrastarlunds. Þrjú kvöld í röð kom ég því heim seint, um níuleytið, en það er einmitt þá sem Signý litla sofnar (nokkuð stundvíslega). Yfirleitt fer Vigdís að hægja á sér upp úr því og er líka sofnuð snemma kvölds. Það var því engan veginn við hæfi að pikka á tölvu upp undir miðnættið (tölvan rétt hinum megin við svefnherbergisvegginn). Þetta segir sig nú allt sjálft.

Engin ummæli: