miðvikudagur, mars 08, 2006

Netið: Heimasíðan tekur stökk

Heimasíðan hefur nú loksins verið uppfærð eftir langt hlé. Hún lítur í stórum dráttum eins út og áður þannig að viðbrigðin verða í fyrstu mjög lítil. Hins vegar hafa litirnir breyst aðeins og sumir "tengiliðir" hafa verið felldir út en aðrir komið í staðinn. Til dæmis er nú komin bein vísun á "myndasíðuna" og sömuleiðis bein tenging við "dagbókina" og annað í þeim dúr. Þessi síða er því kjörinn byrjunarreitur fyrir þá sem skoða bæði bloggið og myndasíðuna reglulega því hún býður líka upp á margar aðrar tengingar við fjölbreytt efni á vefsvæðinu sem ég hef smám saman sett inn gegnum tíðina. Ástæða er hins vegar til að benda sérstaklega á bláa "dregilinn" í miðju síðunnar. Hann er nýmæli. Þar hef ég raðað niður skipulega (en samt í belg og biðu) þeim tengingum út á "ytra" netið sem ég held mest upp á sjálfur. Þetta eru síður sem staðist hafa endurteknar heimsóknir mínar á löngum tíma og eru allar nýlega yfirfarðar. Hugsunin að baki þessu er sú að nú geti ég nýtt mér síðuna sem tenglasafn við þá áningarstaði sem ég vildi helst kíkja reglulega á. Þetta er áminning um að nota tímann á netinu skynsamlega og hvatning í senn um að netið sé annað og meira en innantóm hringiða. Þeir sem luma á áhugaverðum tengingum í anda þeirra sem hér birtast mega gjarnan koma þeim á framfæri.

Engin ummæli: