Þegar kom að kvöldmatnum í kvöld sagði Hugrún: "ég er ekki svangur". Hún á það til að nota lýsingarorð svona um sjálfa sig, í karlkyni. Það liggur svo sem engin merking að baki því önnur en sú að hún sé ekki meðvituð um muninn. Hún er það góð í málnotkun almennt að ég hef engar áhyggjur haft af þessu og ekki áréttað það neitt markvisst nema með því að endurtaka setninguna í réttri beygingu. En í þetta skiptið gerði Signý athugasemd við þetta og ég sá mér leik á borði og langaði að gera úr þessu smá endurtekningarleik.
Þegar strákarnir segja: "Ég er þreytt-UR" þá segja stelpurnar "Ég er þreytt"
Þegar strákarnir segja: "Ég er syfjað-UR" þá segja stelpurnar "Ég er syfjuð".
Og svo leyfði ég þeim að botna. Þær höfðu mjög gaman af því og lögðu sig fram um að vera á undan mér að klára setningarnar. Eftir nokkar endurtekningar sneri ég þessu við þannig að ég byrjaði á stelpunum og leyfði þeim að botna með strákunum.
Þegar stelpurnar segja: "Ég er þyrst" þá segja strákarnir "Ég er þyrst-UR"
og svo framvegis. Smám saman langaði mig að stríða þeim pínulítið og notaði orð sem virkar sérkennilega hjá strákunum:
Þegar stelpurnar segja: Ég er sæt" þá segja strákarnir "Ég er sæt-UR". Þeim fannst ekkert undarlegt við að ímynda sér strákana tala svona um sjálfa sig þó mér þætti það kannski heldur óvenjulegt (yfirleitt er því haldið að strákunum að þeir séu stórir og sterkir en ekki "sætir", en þær bara vissu það greinilega ekki, sem er náttúrulega bara gott).
En næsta tilraun fór á annan veg. Þá ögraði ég þeim með lýsingarorðinu "bleikur":
Þegar stelpurnar segja: "Ég er bleik" þá segja strákarnir.....
Hugrún var ekki lengi að botna þessa línu:
....þá segja strákarnir: "Ég er SVARTUR".
Hún var ekkert að leiðrétta mig eða útskýra neitt. Það hvarflaði bara ekki að henni að nota bleika litinn á strákana. Sem sagt, litaaðgreining kynjanna lifir enn góðu lífi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
hahahahah þær eru magnaðar
hahahahah þær eru magnaðar
Skrifa ummæli