þriðjudagur, nóvember 15, 2011

Upplifun: Gulrótasöludömur

Veðrið er búið að vera ótrúlegt að undanförnu. Það lýsir sér meðal annars í því að matjurtir úr garðinum eru enn í góðu lagi - að minnsta kosti þær harðgerustu, eins og graslaukurinn og gulræturnar. Fyrir rúmlega viku síðan (um helgina 4.-6. nóv.) nýttum við okkur það að eiga enn ferskar gulrætur í garðinum og fórum með þær á markað á Eiðistorgi. Gulræturnar voru eins ferskar og hugsast getur, tíndar upp milli tólf og eitt og komnar á markaðinn rétt fyrir tvö. Ég batt þær saman á "grasinu" í nett búnt til að leggja áherslu á "lífræna ræktun" og þannig seldum við búntin á hundrað krónur stykkið. Stelpurnar nutu þess að vera grænmetissölukonur í einn dag með uppsett hárið í snúð með hárskraut. Við gengum á milli básanna með söluvarninginn okkar í léttum kassa og vorum eins og nammisöludömur á íþróttakappleik, gengum bara á milli og seldum sölufólkinu næringu. Sölubásar voru bæði uppi og niðri og allt um kring. Gulræturnar seldust upp á skömmum tíma (ábyggilega um fimmtán búnt) og flestir höfðu orð á því hvað gulræturnar voru bragðgóðar og söludömurnar ómótstæðilega krúttlegar :-) Signý og Hugrún eignuðust nokkra hundraðkalla hvor og voru fljótar að eyða helmingnum í ís. Restin hringlaði það sem eftir var dagsins í litlum filmuboxum sem ég fann handa þeim. Þær nutu þess að heyra sönginn í peningunum. Fyrstu launin.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æðislegt sé þessar elskur fyrir mér .

Verð að fá myndir ;)
Kv.Begga frænka