föstudagur, mars 17, 2006

Fréttnæmt: Skírn á morgun

Lítið hef ég skrifað síðustu daga enda höfum við Vigdís verið mjög upptekin við að undirbúa skírnina nk. laugardag (á morgun). Dóttir okkar hefur bara notið bara góðs af erlinum og fengið í fyrsta skipti á ævinni að kíkja í verslunarmiðstöð (Kringlan í gær) og farið út fyrir borgarmörkin (í eins konar rósaleiðangur í Mosfellsbæinn). Þessi eiginlegi erill er þó ekki það sem helst hefur hvílt á okkur Vigdísi heldur hefur nafngiftin reynst okkur erfið, miklu erfiðari en okkur óraði fyrir. Við vorum alltaf að vonast til að nafnið kæmi nokkurn veginn af sjálfu sér, en það gerðist ekki. Þetta reyndist talsverð vinna. Þrír til fjórir möguleikar voru að púslast saman í huganum á okkur allar þessar vikur og mánuði. Möguleikunum fækkaði eftir því sem á leið en samt sem áður vafðist nafngiftin fyrir okkur allt fram á næst síðasta dag. Nú er okkur hins vegar mikið létt og við erum afar sátt við niðurstöðuna. Bráðlega þurfum við ekki lengur minnast á dóttur okkar "undir rós", eins og við höfum alla tíð gert. Hún mun frá og með morgundeginum heita eitthvað annað og meira en "litla daman", "prinsessan" eða "dúllan okkar" (þó hún haldi áfram að vera allt þetta og miklu meira áfram). En í þetta skiptið ríkir þó ekki nafnleysi, eins og áður var, heldur nafnleynd, og á því er stór munur.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er mjög spennt að vita hvað litla daman heitir! Þetta var ekki svona mikið mál hjá okkur, nafnið kom strax og svo þurftum við bara að sjá hvort það passaði við barnið.

Ef nafnið hefði ekki passað hefðum við verið í vondum málum...

Steini sagði...

Ég held að leiðin sem þið fóruð sé reglan víðast hvar. Á Ítalíu er til að mynda gerð sú krafa að nafn hins nýfædda barn sé tilbúið við fæðingu. Ekki veit ég hvort sú kvöð hvíli á foreldrum í Danmörku. Hér er reiknað með allt að 3ja mánaða umhugsunarfresti ef menn vilja. Við vorum reyndar með nafn í huga fyrir fæðingu en okkur fannst það ekki passa þegar á reyndi. Það er ágætt að geta haft svolítinn tíma upp á að hlaupa þegar svo fer. En það getur líka verið erfitt og hvílir á manni allan tímann.

Ég hef spurt ýmsa út í þetta ferli og undrast á því hversu margir sem ég þekki heita nöfnum sem dregin voru úr hatti, svo að segja!

Nafnlaus sagði...

Ég veit ekki til þess að það sé neinn sérstakur umhugsunartími hér í Danmörku en í Bandaríkjunum til dæmis má maður ekki yfirgefa spítalann með nafnlaust barn! Og þá er eins gott að nafnið passi :-)

Ég óska ykkur og Signýju litlu annars til hamingju með nafnið, mér finnst það mjög fallegt.

Steini sagði...

Takk :-)