miðvikudagur, nóvember 21, 2007

Daglegt líf: Ikea-ferð á óhefðbundnum tíma

Við fórum í IKEA í kvöld. Venjulega leyfir maður sér þetta bara um helgar en okkur datt í hug að það væri þess virði að fara jafnvel þó maður væri hálfþreyttur eftir vinnu ef viðdvölin í IKEA er þeim mun afslappaðri. Það var sannarlega þess virði. Við dvöldum þar í mestu rósemd og yfirvegun frá fimm til hálf átta og fundum ekki fyrir þreytu. Signý naut þess að valsa um að vild og tók langar hlauparispur um sýningarbása og mannlausa ganga. Hugrún naut góðs af frábærri aðstöðu verslunarinnar (gjafaherbergi) og öll fengum við okkur að borða. Ég var hissa á því hvað grænmetisbuffið var vel heppnað hjá þeim. Stundum hef ég fengið í magann af mötuneytisfæðinu en í þetta skiptið fannst mér vera herslumunur á gæðunum. Kannski bara ég. En við mælum alla vegana eindregið með heimsókn þangað um fréttaleytið í miðri viku. Það er allt önnur búð sem tekur á móti manni þá en um stappaðar helgar.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Fréttnæmt: Pensillínfjölskyldan

Á föstudaginn fyrir rúmri viku síðan fórum við með Signýju til læknis, sem skaffaði henni að bragði vikuskammt af pensilín-mixtúru. Hún reyndist vera bæði bólgin í hálsi og með sýkingu í eyrunum. Læknirins sagði okkur að þessar stuttu hitasóttir sem hún fékk helgi eftir helgi í síðasta mánuði (samfara þrálátum en mallandi og lágum hita) urðu sem sagt til þess að kvefið náði ekki að hreinsast og sýking tók að grassera. Núna er hún talsvert betri eftir kúrinn. Hún tók við mixtúrunni kvölds og morgna á hverjum degi (hún var mjög dugleg). Hitinn hvarf fljótlega og á þriðjudaginn var mætti Signý aftur í leikskólann. Hún er fjörug og virðist vera mjög frísk (alveg hitalaus) en þó má heyra hana hósta öðru hvoru auk þess sem það þarf reglulega að snýta. Við vonum að þetta fari að hverfa.

Ég var hins vegar með einhver leiðindi í hálsi líka á sama tíma og fattaði það eiginlega eftir læknisheimsóknina með Signýju. Ég kíkti læknis nokkrum dögum seinna. Kyngingarerfiðleikar og sár hálsbólga voru orðin meira en lítið pirrandi, auk þess sem þrálátur hósti angraði mig að degi og nóttu. Ég var hálf slappur dögum saman, en samt ekki almennilega veikur, og sinnti vinnunni bara með hangandi hendi. Það var því þess virði að fá lækningu, sem fólst í pensillínskammti (nema hvað). Ég var samferða Signýju kvölds og morgna - með sömu mixtúruna (mitt reyndar í töfluformi). Þetta er viss hagræðing, myndi maður ætla, en það reyndist samt ekki sérlega hjálplegt fyrir minnið að gera þetta svona samhliða. Mér fannst ég oft hafa tekið inn töfluna þegar ég hafði gefið Signýju sinn skammt. Svona blekkir hugurinn mann stundum.

Núna er ég orðinn miklu betri og er fullur af starfsorku (enn eimir þó eftir af hóstanum, en hálsbólgan er farin). Þá er hins vegar komið að Hugrúnu. Um helgina fékk hún einhverja sýkingu í augað og nefrennsli auk fjölskylduhóstans. Full kunnuglegt. Í kvöld var hún eirðarlaus og ekki sjálfri sér lík - þó gætti hún vandlega að því að sjarmera mann með innilegu brosi öðru hvoru (þannig að hún þjáist að minnsta kosti ekki). Þegar ég svæfði hana í kvöld hjalaði hún að minnsta kosti svo blíðlega að ég dró hálsbólgu stórlega í efa. Hún er sem betur fer hitalaus, enn þá, og á meðan hún sefur sæmilega vel erum við að vonast til að þetta líði hjá hratt og vel.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Upplifun: Skírnardagurinn mikli

Í dag fórum við í tvær skírnir. Fyrst í Dómkirkjunni þar sem sonur Ásdísar og Togga var skírður. Hann heitir nú Almar Steinn. Við Vigdís vorum búin að vita af nafninu ansi lengi enda nýttu þau Ásdís og Toggi okkur óspart sem ráðunauta (eins og við reyndar nýttum þau á sínum tíma). Almar þykir svolítið prakkaralegt nafn og þess vegna ágætlega við hæfi að gefa því jarðbunda aukamerkingu með því að vísa í stein.

Athöfnin í Dómkirkjunni var óvenju skemmtileg. Kór Menntaskólans í Reykjavík söng rausnarlega og séra Hjálmar fór á kostum. Hann var afslappaður (eins og hann eflaust er alltaf) og gerði góðlátlega grín að barnsgrátinum með því að vitna í brandara:

Kona nokkur sat með barn sitt í skírnarmessu undir predikun prests. Barnið var óhuggandi og hún reyndi hvað hún gat til að lægja grátinn. Þá hallaði presturinn sér í miðri ræðu í áttina að henni og sagði, svona til að róa hana: "Þetta er allt í lagi. Hann truflar mig ekkert". Þá sagði konan að bragði: "Nei, það er ekki málið. Það ert þú sem ert að trufla hann!"


Í þessum dúr brosti hann í áttina að Almari Steini og vitnaði upp frá því öðru hvoru í líðan hins nýskírða sveins: "Nú virðist Almar Steinn vera sofnaður", við góðar undirtektir salarins.

Við Vigdís vorum skírnarvottar og það var ekki búið að útskýra fyrir okkur hvernig við ættum að bera okkur að, hver ætti að halda á Almari og svo framvegis. Til þess gafst enginn tími, en Hjálmar var greinilega þaulvanur óundirbúinni þátttöku og stýrði athöfninni fumlaust, eins og vanur leikstjóri. Án fyrirvara reyndist heppilegt að við tækjum Signýju með okkur upp á altari þar sem hún stóð með okkur hinum sem eins konar "aukavottur". Hún stóð sig aldeilis vel. Hún var kyrr allan tímann og horfði yfirveguð fram á við í salinn, héld að sér höndunum, nánast eins og í bæn, á meðan presturinn fór með bænir. Síðan hélt ég á henni þegar við sungum skírnarsálminn.

Skírnarveislan var haldin á heimili foreldra Togga og við Vigdís gáfum okkur tíma til að staldra þar við í rúman klukkutíma, þar til klukkan sló hálf tvö. Þá tókum við Hugrúnu með okkur og ókum sem leið lá í Kópavoginn (Signý varð eftir í tryggum höndum aðstandenda í fyrri skírnarveislunni). Í Kópavoginum búa foreldrar Jóns Más en hann og Margrét skírðu dóttur sína þar á meðal sinna nánustu (og örfárra vina). Dóttir þeirra heitir því myndarlega nafni Melkorka Kristín. Fæstir þar inni höfðu haft hugmynd um nafnið en mér hafði tekist með nokkrum fyrirvara að spyrja Jón leiðandi spurninga og var kominn með kollgátuna varðandi fyrra nafnið. Melkorka er reyndar eitt af þeim nöfnum sem alltaf skaut upp kollinum öðru hvoru þegar við Vigdís leituðum að nafni fyrir dætur okkar tvær. Það verður gaman að fá að nota það í daglegu lífi.

Það að ganga um heimili foreldra Jóns rifjaði upp ýmsar minningar frá því þau bjuggu í Breiðholtinu fyrir alllöngu. Ég kom auga á mynd af honum tíu ára gömlum á vinnustofu foreldra þeirra. Ég man eftir sama svipnum á eldgamalli bekkjarmynd (kringum 1980). Þá leit hann nánast alveg eins út og Melkorka litla gerir í dag, en það á kannski eftir að breytast.

laugardagur, nóvember 10, 2007

Þroskaferli: Nokkur undarleg orð

Signý meðhöndlar algeng orð eins og henni sýnist. Eitt af uppáhaldsorðunum er "inniskórnir" sem hún fer í þegar ég skila henni af mér í leikskólanum. Hún sagði fyrst "innigoddí" en fór svo að segja það í öðru falli "innigóna". Eins eru sérkennileg orð fyrir þekkt fyrirbæri eins og önd og bíl. Bíl hefur hún reyndar talað um lengi. Fyrst notaðist hún við hljóðlíkingu (um það bil ársgömul) og þá gaf frá sér eins konar "raddað ell", eða "dl". Það minnir á hljóðið undan hjólbörðunum þegar bílarnir lötrast hægt fram hjá húsinu. Síðan hefur það þróast út í orðið "dl-la" (eða "díla"). Önd hefur þróast á svipaðan hátt. Hún talar um "Muagga" sem er komið undan hljóðinu "quack". Signý skeytti alltaf emmi á undan hljóðinu: "muagg". Það skilja hana því aðeins nánustu þegar hún biður um "Möggu".

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Þroskaferli: Signý i október

Ólíkt Hugrúnu þá var októbermánuður erfiður hjá Signýju. Hún fékk flensu í þrígang (hugsanlega sömu flensuna sem tók sig upp). Það var alltaf um helgi þannig að við gerðum ósköp lítið saman. Hún náði sér fljótt en fór sjaldnast í leikskólann fyrr en á þriðjudegi eða miðvikudegi. Núna er hún veik eina ferðina enn, var send heim úr leikskólanum á þriðjudag (eftir fríska helgi). Við ætlum að halda henni heima fram að helgi.

Það er helst af Signýju að frétta að þrátt fyrir krankleikann má greina meiri framfarir en áður í samskiptum. Fram til þessa var undarlega löng bið eftir nýjum orðum. Hún var með fínan orðaforða í kringum eins árs en svo gerðist tiltölulega lítið (kannski eitt nýtt orð á mánuði). Nú er biðin á enda. Orðin koma loks fjöldamörg, að minnsta kosti eitt nýtt orð á dag (yfirleitt nokkur í einu).

Almennt er Signý hins vegar orðin mikið virkari í að endurtaka og herma eftir. Maður heyrir mörg ný orð, en oft aðeins einu sinni. Hún er líka farin að taka virkan þátt í símaspjalli (sem hingað til hefur aðallega falist í hlustun í bland við já og nei). Hún svarar með vel völdum orðum og hlustar af athygli. Um daginn sagði ég mömmu frá þessu með lottóið (sem ég skrifaði um nýlega) og bað hana um að spyrja Signýju út í það. Þá glumdi við "Lottó" í henni og hún hljóp til og fann einn slíkan miða og "sýndi" símanum hann, býsna hróðug. Svo varð svipurinn hálf vandræðalegur, eins og hún velti því fyrir sér hvort amma sæi þetta nokkuð.

Þegar kemur að söng er Signý í essinu sínu. Hún er miklu duglegri að syngja en áður og er farin að botna textana á fullu. Eitt af uppáhaldsorðunum hennar er "glugginn" enda kemur það fyrir ótal oft þegar ég raula lögin hennar fyrir svefninn:

Fljúga hvítu fiðrildin, fyrir utan gluggann....
Ó hve létt er þitt skóhljóð, ó hve lengi ég beið þín. Það er vorhret á glugga....
Bíum, bíum, bambaló. Bambaló og dillidillidó. Vini mínum vagga ég í ró, en úti biður andlit á glugga....

Mér finnst þetta vera nánast alls staðar, eins og hún syngur það. Reyndar spurning hvort það sé uppbyggilegt að koma því inn hjá börnum að það sé alltaf þarna fyrir utan sem bíður við gluggann, tilbúið að gægjast inn.

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Þroskaferli: Hugrún í október

Október var mikill framfaramánuður hjá Hugrúnu. Hann byrjaði með því að hún fór í 5 mánaða skoðun og var vigtuð og mæld. Í gær fór hún svo í sex mánaða skoðun. Í fyrra skiptið var hún 6.8 kíló en orðin 7.4 mánuði seinna. Þessar vigtanir ramma inn eftirfarandi framfaraskref:

- Hugrún fékk fyrsta grautinn sinn í byrjun október (áttunda) og var farin að borða hann reglulega núna um mánaðarmótin. Fyrst var hún ekkert voða hrifin, ullaði grautnum út úr sér og kjamsaði á honum til skiptis (þetta sést ágætlega á myndinni hér fyrir neðan).


Grauturinn og Hugrún

- Hugrún byrjaði að skríða, eða öllu heldur mjaka sér. Vigdís kvikmyndaði það 15. október þegar hún seiglaðist út fyrir dýnuna markvisst en ákveðið. Síðan þá hefur hún verið mjög dugleg að færa sig til og er býsna hreyfanleg. Það er sérlega gaman að sjá það hvernig hún nær að nýta sér hreyfanleika sinn þegar Signý leggst við hliðina á henni. Signý er reyndar mjög dugleg að koma til móts við Hugrúnu en getur verið svolítið óaðgætin (og fer jafnvel hálfpartinn ofan á hana í bægslaganginum). Þá snýr Hugrún sér út úr klemmunni, lyftir fótunum upp í loftið og sveiflar sér til - eins og júdókappi.

- Við tókum eftir því nýlega að Hugrún hjalar stundum á innsoginu. Það er sérstaklega sætt. Þá færist da-da-da yfir í ma-ma-ma. Auðvitað er þetta ekki merkingarbært á þessu stigi, en samt notalegt að heyra.

- Hugrún hefur stundað ungbarnasund síðan í september og í miðjum mánuðinum var kennt að kafa. Hún stóð sig ótrúlega vel og kafaði a.m.k. þrisvar sinnum lengur en allir hinir. Flestir létu sér nægja að skima við yfirborðið en hún kafaði djúpt og synti með kröftugum fótatökum í áttina til mín þegar Vigdís sleppti. Hún uppskar gapandi undrun viðstaddra og kennarinn sagði stóreyg "Hún er ótrúleg". Það sem meira er, hún blés aldrei úr nös. Ég kalla hana líka stundum jógameistarann fyrir það hvað hún getur verið yfirveguð við krefjandi aðstæður ;-)

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Þroskaferli: Frekar óvænt orð Signýjar

Ég ætlaði mér að segja frá októbermánuði út frá Signýju og Hugrúnu, í sitt hvoru lagi. Það kemur næst vegna þess að í dag kom Signý mér verulega á óvart. Það best að segja frá því strax.

Við fórum í duglegan göngutúr í roki og talsverðum kulda. Komum svo inn og ég var upptekinn við að klæða hana úr kuldagallanum þegar hún benti upp á símaborðið í anddyrinu og sagði: Ljodú. Ég horfði upp því ég kannaðist ekki við orðið. Sá þar penna og grunaði að hún væri að vísa á hann (Lita). Sem sannur vísindamaður ákvað ég að gefa mér ekkert né spyrja hana leiðandi spurninga svo ég lyfti henni upp að borðinu og bað hana um að sýna mér. Þá benti hún á miða í miðri hirslunni: Lottó.

Ég var gapandi hissa vegna þess að við höfum aldrei minnst á lottó við hana. Það hvarflaði að mér hvort að þau hefðu talað um lottó í leikskólanum (oft lumar hún á nýjum orðum þaðan) en átti erfitt með að sjá fyrir mér slíka umræðu þar né heldur lottóleik af neinu tagi. Svo blasti það við mér að þetta hlyti hún að hafa "pikkað upp" úr sjónvarpinu. Við horfum ekki sérlega mikið á sjónvarpið en höfum þó til siðs að horfa á fréttatímann, - að minnsta kosti yfirlitið, og rétt fyrir fréttir er einmitt þessi stutti dagskrárliður: Lottó. Tónlist og mynd vinna þar saman í eftirminnilegu stefi sem kristallast í upphrópuninni "Lottó". Sú litla tekur auðvitað eftir svona löguðu enda er lógóið á miðanum einkennandi (hattur og gulir/rauðir stafir). Hún var að minnsta kosti ekki í vafa.

Hún er náttúrulega ekki byrjuð að lesa en þetta er vísbending um að athyglin sé í lagi og að hún eigi gott með að muna sjónrænt. Það á eftir að nýtast henni vel. Ég man þegar við vorum í bústaðnum í sumar, og þá var hún töluvert yngri, og hún tók eftir lógói sjúkraliðafélagsins í glugganum og benti síðan á það í dagbókinni, og á fánastöng. Þetta minnir mann á að börn sjá og taka eftir meiru en þeir geta tjáð sig um. Það er ábyggilega óþægilegt að geta ekki sagt frá öllu sem maður tekur eftir.