fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Þroskaferli: Signý i október

Ólíkt Hugrúnu þá var októbermánuður erfiður hjá Signýju. Hún fékk flensu í þrígang (hugsanlega sömu flensuna sem tók sig upp). Það var alltaf um helgi þannig að við gerðum ósköp lítið saman. Hún náði sér fljótt en fór sjaldnast í leikskólann fyrr en á þriðjudegi eða miðvikudegi. Núna er hún veik eina ferðina enn, var send heim úr leikskólanum á þriðjudag (eftir fríska helgi). Við ætlum að halda henni heima fram að helgi.

Það er helst af Signýju að frétta að þrátt fyrir krankleikann má greina meiri framfarir en áður í samskiptum. Fram til þessa var undarlega löng bið eftir nýjum orðum. Hún var með fínan orðaforða í kringum eins árs en svo gerðist tiltölulega lítið (kannski eitt nýtt orð á mánuði). Nú er biðin á enda. Orðin koma loks fjöldamörg, að minnsta kosti eitt nýtt orð á dag (yfirleitt nokkur í einu).

Almennt er Signý hins vegar orðin mikið virkari í að endurtaka og herma eftir. Maður heyrir mörg ný orð, en oft aðeins einu sinni. Hún er líka farin að taka virkan þátt í símaspjalli (sem hingað til hefur aðallega falist í hlustun í bland við já og nei). Hún svarar með vel völdum orðum og hlustar af athygli. Um daginn sagði ég mömmu frá þessu með lottóið (sem ég skrifaði um nýlega) og bað hana um að spyrja Signýju út í það. Þá glumdi við "Lottó" í henni og hún hljóp til og fann einn slíkan miða og "sýndi" símanum hann, býsna hróðug. Svo varð svipurinn hálf vandræðalegur, eins og hún velti því fyrir sér hvort amma sæi þetta nokkuð.

Þegar kemur að söng er Signý í essinu sínu. Hún er miklu duglegri að syngja en áður og er farin að botna textana á fullu. Eitt af uppáhaldsorðunum hennar er "glugginn" enda kemur það fyrir ótal oft þegar ég raula lögin hennar fyrir svefninn:

Fljúga hvítu fiðrildin, fyrir utan gluggann....
Ó hve létt er þitt skóhljóð, ó hve lengi ég beið þín. Það er vorhret á glugga....
Bíum, bíum, bambaló. Bambaló og dillidillidó. Vini mínum vagga ég í ró, en úti biður andlit á glugga....

Mér finnst þetta vera nánast alls staðar, eins og hún syngur það. Reyndar spurning hvort það sé uppbyggilegt að koma því inn hjá börnum að það sé alltaf þarna fyrir utan sem bíður við gluggann, tilbúið að gægjast inn.

Engin ummæli: