sunnudagur, nóvember 11, 2007

Upplifun: Skírnardagurinn mikli

Í dag fórum við í tvær skírnir. Fyrst í Dómkirkjunni þar sem sonur Ásdísar og Togga var skírður. Hann heitir nú Almar Steinn. Við Vigdís vorum búin að vita af nafninu ansi lengi enda nýttu þau Ásdís og Toggi okkur óspart sem ráðunauta (eins og við reyndar nýttum þau á sínum tíma). Almar þykir svolítið prakkaralegt nafn og þess vegna ágætlega við hæfi að gefa því jarðbunda aukamerkingu með því að vísa í stein.

Athöfnin í Dómkirkjunni var óvenju skemmtileg. Kór Menntaskólans í Reykjavík söng rausnarlega og séra Hjálmar fór á kostum. Hann var afslappaður (eins og hann eflaust er alltaf) og gerði góðlátlega grín að barnsgrátinum með því að vitna í brandara:

Kona nokkur sat með barn sitt í skírnarmessu undir predikun prests. Barnið var óhuggandi og hún reyndi hvað hún gat til að lægja grátinn. Þá hallaði presturinn sér í miðri ræðu í áttina að henni og sagði, svona til að róa hana: "Þetta er allt í lagi. Hann truflar mig ekkert". Þá sagði konan að bragði: "Nei, það er ekki málið. Það ert þú sem ert að trufla hann!"


Í þessum dúr brosti hann í áttina að Almari Steini og vitnaði upp frá því öðru hvoru í líðan hins nýskírða sveins: "Nú virðist Almar Steinn vera sofnaður", við góðar undirtektir salarins.

Við Vigdís vorum skírnarvottar og það var ekki búið að útskýra fyrir okkur hvernig við ættum að bera okkur að, hver ætti að halda á Almari og svo framvegis. Til þess gafst enginn tími, en Hjálmar var greinilega þaulvanur óundirbúinni þátttöku og stýrði athöfninni fumlaust, eins og vanur leikstjóri. Án fyrirvara reyndist heppilegt að við tækjum Signýju með okkur upp á altari þar sem hún stóð með okkur hinum sem eins konar "aukavottur". Hún stóð sig aldeilis vel. Hún var kyrr allan tímann og horfði yfirveguð fram á við í salinn, héld að sér höndunum, nánast eins og í bæn, á meðan presturinn fór með bænir. Síðan hélt ég á henni þegar við sungum skírnarsálminn.

Skírnarveislan var haldin á heimili foreldra Togga og við Vigdís gáfum okkur tíma til að staldra þar við í rúman klukkutíma, þar til klukkan sló hálf tvö. Þá tókum við Hugrúnu með okkur og ókum sem leið lá í Kópavoginn (Signý varð eftir í tryggum höndum aðstandenda í fyrri skírnarveislunni). Í Kópavoginum búa foreldrar Jóns Más en hann og Margrét skírðu dóttur sína þar á meðal sinna nánustu (og örfárra vina). Dóttir þeirra heitir því myndarlega nafni Melkorka Kristín. Fæstir þar inni höfðu haft hugmynd um nafnið en mér hafði tekist með nokkrum fyrirvara að spyrja Jón leiðandi spurninga og var kominn með kollgátuna varðandi fyrra nafnið. Melkorka er reyndar eitt af þeim nöfnum sem alltaf skaut upp kollinum öðru hvoru þegar við Vigdís leituðum að nafni fyrir dætur okkar tvær. Það verður gaman að fá að nota það í daglegu lífi.

Það að ganga um heimili foreldra Jóns rifjaði upp ýmsar minningar frá því þau bjuggu í Breiðholtinu fyrir alllöngu. Ég kom auga á mynd af honum tíu ára gömlum á vinnustofu foreldra þeirra. Ég man eftir sama svipnum á eldgamalli bekkjarmynd (kringum 1980). Þá leit hann nánast alveg eins út og Melkorka litla gerir í dag, en það á kannski eftir að breytast.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ alltaf gaman að lesa þetta hjá þér svo vel og fallega skrifað sjáumst fljótlega kv Ásdís og Toggi