þriðjudagur, nóvember 06, 2007

Þroskaferli: Hugrún í október

Október var mikill framfaramánuður hjá Hugrúnu. Hann byrjaði með því að hún fór í 5 mánaða skoðun og var vigtuð og mæld. Í gær fór hún svo í sex mánaða skoðun. Í fyrra skiptið var hún 6.8 kíló en orðin 7.4 mánuði seinna. Þessar vigtanir ramma inn eftirfarandi framfaraskref:

- Hugrún fékk fyrsta grautinn sinn í byrjun október (áttunda) og var farin að borða hann reglulega núna um mánaðarmótin. Fyrst var hún ekkert voða hrifin, ullaði grautnum út úr sér og kjamsaði á honum til skiptis (þetta sést ágætlega á myndinni hér fyrir neðan).


Grauturinn og Hugrún

- Hugrún byrjaði að skríða, eða öllu heldur mjaka sér. Vigdís kvikmyndaði það 15. október þegar hún seiglaðist út fyrir dýnuna markvisst en ákveðið. Síðan þá hefur hún verið mjög dugleg að færa sig til og er býsna hreyfanleg. Það er sérlega gaman að sjá það hvernig hún nær að nýta sér hreyfanleika sinn þegar Signý leggst við hliðina á henni. Signý er reyndar mjög dugleg að koma til móts við Hugrúnu en getur verið svolítið óaðgætin (og fer jafnvel hálfpartinn ofan á hana í bægslaganginum). Þá snýr Hugrún sér út úr klemmunni, lyftir fótunum upp í loftið og sveiflar sér til - eins og júdókappi.

- Við tókum eftir því nýlega að Hugrún hjalar stundum á innsoginu. Það er sérstaklega sætt. Þá færist da-da-da yfir í ma-ma-ma. Auðvitað er þetta ekki merkingarbært á þessu stigi, en samt notalegt að heyra.

- Hugrún hefur stundað ungbarnasund síðan í september og í miðjum mánuðinum var kennt að kafa. Hún stóð sig ótrúlega vel og kafaði a.m.k. þrisvar sinnum lengur en allir hinir. Flestir létu sér nægja að skima við yfirborðið en hún kafaði djúpt og synti með kröftugum fótatökum í áttina til mín þegar Vigdís sleppti. Hún uppskar gapandi undrun viðstaddra og kennarinn sagði stóreyg "Hún er ótrúleg". Það sem meira er, hún blés aldrei úr nös. Ég kalla hana líka stundum jógameistarann fyrir það hvað hún getur verið yfirveguð við krefjandi aðstæður ;-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þær systur eru frábærar og gaman að fylgjast með þeim og öllum þessum framförum....

heyrumst....
kv Begga frænka