sunnudagur, nóvember 04, 2007

Þroskaferli: Frekar óvænt orð Signýjar

Ég ætlaði mér að segja frá októbermánuði út frá Signýju og Hugrúnu, í sitt hvoru lagi. Það kemur næst vegna þess að í dag kom Signý mér verulega á óvart. Það best að segja frá því strax.

Við fórum í duglegan göngutúr í roki og talsverðum kulda. Komum svo inn og ég var upptekinn við að klæða hana úr kuldagallanum þegar hún benti upp á símaborðið í anddyrinu og sagði: Ljodú. Ég horfði upp því ég kannaðist ekki við orðið. Sá þar penna og grunaði að hún væri að vísa á hann (Lita). Sem sannur vísindamaður ákvað ég að gefa mér ekkert né spyrja hana leiðandi spurninga svo ég lyfti henni upp að borðinu og bað hana um að sýna mér. Þá benti hún á miða í miðri hirslunni: Lottó.

Ég var gapandi hissa vegna þess að við höfum aldrei minnst á lottó við hana. Það hvarflaði að mér hvort að þau hefðu talað um lottó í leikskólanum (oft lumar hún á nýjum orðum þaðan) en átti erfitt með að sjá fyrir mér slíka umræðu þar né heldur lottóleik af neinu tagi. Svo blasti það við mér að þetta hlyti hún að hafa "pikkað upp" úr sjónvarpinu. Við horfum ekki sérlega mikið á sjónvarpið en höfum þó til siðs að horfa á fréttatímann, - að minnsta kosti yfirlitið, og rétt fyrir fréttir er einmitt þessi stutti dagskrárliður: Lottó. Tónlist og mynd vinna þar saman í eftirminnilegu stefi sem kristallast í upphrópuninni "Lottó". Sú litla tekur auðvitað eftir svona löguðu enda er lógóið á miðanum einkennandi (hattur og gulir/rauðir stafir). Hún var að minnsta kosti ekki í vafa.

Hún er náttúrulega ekki byrjuð að lesa en þetta er vísbending um að athyglin sé í lagi og að hún eigi gott með að muna sjónrænt. Það á eftir að nýtast henni vel. Ég man þegar við vorum í bústaðnum í sumar, og þá var hún töluvert yngri, og hún tók eftir lógói sjúkraliðafélagsins í glugganum og benti síðan á það í dagbókinni, og á fánastöng. Þetta minnir mann á að börn sjá og taka eftir meiru en þeir geta tjáð sig um. Það er ábyggilega óþægilegt að geta ekki sagt frá öllu sem maður tekur eftir.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Maður er stundum alveg gapandi yfir hvað börn eru eftirtektarsöm! Eins gott að passa sig hvað maður segir í námunda við þau :-)