þriðjudagur, október 30, 2007

Upplifanir: Fuglamynd

Þó að mánaðaryfirlit sé í bígerð um þær systur Signýju og Hugrúnu langar mig að stelast til að segja frá Signýju frá í gær. Hún var heima, orðin nokkuð frísk eftir slenið og frekar eirðarlaus. Við tókum skorpu í að horfa á DVD-myndir, þar á meðal mynd sem mamma og pabbi gáfu henni um daginn um fugla (í seríunni um Cecile og Pepo). Þetta eru teiknimyndafígúrur sem setjast í kvikmyndasal og horfa á eina stuttmynd af annarri um dýrin sem eru til umfjöllunar. Fyrst lauma þeir ýmsum fróðleiksmolum til barnanna í um hálfa mínútu. Síðan breytist myndin (súmmað er inn í myndina og fram hjá þeim félögum) og við fylgjumst án orða með fuglunum við undirleik líflegrar tónlistar í um þrjár mínútur. Þetta er passlega langt fyrir ung börn, stutt kynning og ljóðræn mynd í kjölfarið. Fuglarnir sem eru í boði eru af ýmsu tagi: Ernir, fálkar, gæsir, lundi, gammar, páfagaukar, páfuglar, hegrar og fleiri fuglar (flestir framandi).

Signý kom upp um eitt af sínum sérlegu áhugasviðum þegar við völdum fuglamynd úr safninu. Hún benti alltaf á lundann. Þegar ég spilaði myndina fyrst lét hún sig hverfa inn í herbergi og kom galvösk til baka með lundadúkkuna sína. Hún stillti henni rausnarlega upp á borðinu sem við höfum á milli hennar og sjónvarpsins (svo hún freistist ekki til að vera of nærri skjánum). Ljóst var að hún ætlaði að sýna lundanum hvernig frændur hans hegða sér. Þarna sátu þau svo, félagarnir, og horfðu gagntekin.

Þá kom upp óvænt vandamál. Þessi tiltekna stuttmynd var ótrúlega misheppnuð. Það er greinilegt að margir ólíkir kvikmyndagerðarmenn hafa verið fengnir til að vinna stuttmyndirnar því sumar voru sérlega flottar og sniðugar. Lundamyndin var hins vegar hræðileg. Hún byrjaði á því að sýna lunda í návígi í nákvæmlega 15 sekúndur. Bara fínt. Síðan breytist myndin snarlega og við fylgjumst með skúmi sveima fram hjá fuglabjargi og verða fyrir aðkasti mávfugla, sem hann virðir að vettugi, snarar sér að einni syllunni og hrifsar með mér máv sem situr þar á eggi. Síðan flýgur skúmurinn með bráðina rakleiðis burt til sjávar þar sem hann sest og gerir að bráðinni. Þetta tekur um 45 sekúndur, og ekki einasti lundi í mynd. Næst sjáum við lundabyggð í fjarska (sem er nógu fjarlægt til að maður þurfi að grilla í þá). Yfir lundunum sveimar Svartbakur. Hann steypir sér niður og tekur með sér einn lunda og er að vandræðast með hann í loftinu góða stund, missir hann, tekur hann síðan upp aftur (á meðan lundinn spriklar varnarlaus). Því næst sporðrennir hann lundanum með þeim árangri að hann stendur hálfpartinn í honum. Þá kemur annar Svartfugl að og nær að draga lundann upp úr honum. Þá er miskunnarlaust togast á um hann í loftinu. Þetta tekur um það bil tvær mínútur. Eftir það súmmar vélin aftur upp að lundunum og sýnir prýðilega myndir af þeim í tuttugu sekúndur. Búið.

Ég lenti í vandræðum með þetta því ekki langaði mig til að sýna Signýju tóman óhugnað í tenslum við uppáhaldsfuglinn hennar. Þetta er eins að segja: Þetta er New York, og sýna bara myndbrot frá ellefta september. Hún fékk því að sjá fimmtán sekúndur í byrjun, hraðspólun, og svo tuttugu sekúndur í lokin. Þetta bað hún um aftur og aftur (enda bara stutt brot í boði). Mér finnst það með ólíkindum að gæðaeftirlitið á svona flottri spólu skuli vera svona gloppótt. Eflaust hefur mönnum þótt senurnar flottar, en þá gleyma þeir markhópnum, fyrir utan það að lundinn er nánast aldrei í mynd.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

hæ bara ég ...


Ég er alveg sammála ...
Það er með ólíkindum hvað er
lítil virðing borin fyrir börnum og framleiðslu á barnaefni --lítið lagt í það ....og eins og það sé alls ekki ritskoðað og þá jafnvel með barnasálfr. eða einhverskonar barnasérfræðinga sem geta metið hvað má bjóða börnum uppá því þeir sem framleiða efnið virðast ekki færir um að meta það sjálfir....

Heyrumst... kv. begga

Unknown sagði...

Einkennilegt að velja að sýna lundann í þessu ljósi, eins og þetta endurspegli lifnaðarhætti hans best.

Sætt hjá Signýju að leyfa lundanum sínum að sjá myndina líka (þó svo að aumingja lundinn hafi þurft að horfa upp á sorgleg endalok bræðra sinna...)