laugardagur, október 20, 2007

Fréttnæmt: Heima um helgina

Fyrir um viku síðan vorum við Vigdís komin á fremsta hlunn með að kaupa okkur sameiginlegt armband á Airwaves-hátíðina. Við vorum búin að tékka á hljómsveitunum og ég náði meira að segja í nokkrar plötur á netinu til að kanna frekar. Við tókum jafnvel nokkrar Airwaves-skorpur og létum tölvuna (eða iPodinn) spila tilviljunarkennt upp úr sérstakri Airwaves-möppu sem ég hafði útbúið. En við hikuðum við að kaupa vegna þess að þar með myndum við setja utanaðkomandi pressu á okkur kvöld eftir kvöld. Hátíðin stendur yfir í fimm kvöld og ekki hægt að kaupa miða á stök kvöld. Armbandið myndi annað hvort draga annað okkar út úr húsi daglega alla þessa daga (sem er talsvert álag til lengdar þegar maður er með tvö börn) eða valda samviskubiti þau kvöld sem maður færi ekki. Svo hefðum við ekki getað farið saman á neina uppákomu, nema með því að kaupa tvö armbönd (eitt stykki er nógu dýrt = 8.500 kall).

Við vorum því eiginlega bara fegin þegar við fréttum af því að það hefði selst upp á hátíðina um síðustu helgi. Svo kom á daginn að Signý veiktist núna um helgina. Fékk hita í gær og liggur núna, örlítið að braggast. Við áttum því ekki séns. Við sjáum að sjálfsögðu ekki eftir tímanum sem fór í að kynda undir væntingarnar. Við kynntumst lítillega áhugaverðum sveitum eins og Bloc Party, Of Montreal og Grizzly Bear og áttum huggulegar hlustunarstundir saman.

Það var því í fullkomnu samræmi við þessa atburðarás að við skyndilega eignuðumst risastórt sjónvarp á miðvikudaginn var! Ásdís og Toggi hringdu í okkur og buðu okkur gamla sjónvarpið sitt (sem var þó ekki nema þriggja ára) því þau höfðu fjárfest í flötum skjá. Við hikuðum reyndar vegna þess að stofan okkar er ekki stór og vorum hrædd um að sjónvarpið yrði of ráðandi í rýminu. Hógværðin yfir gamla litla sjónvarpinu var okkur alltaf að skapi en það tæki var hins vegar orðið varhugavert vegna aldurs (og farið að sýna ýmis óvænt litbrigði og jafnvel bjóða upp á hátíðniískur einsöku sinnum). Þegar á reyndi kom stóra sjónvarpið hins vegar einstaklega vel út. Það er með grárri umgjörð og virkar því í heild ekki svo mikið stærra en litla sjónvarpið (sem var svart og þannig séð meira áberandi). Einnig er stóra sjónvarpið ekkert fyrirferðameira að öðru leyti, jafnvel eilítið grynnra og því vel hægt að ýta því lengra út í horn. Útkoman var því hreint afbragð. Núna njótum við þess að horfa á nánast hvað sem er. Jafnvel barnasjónvarpið er sjónræn upplifun. Það verður frábært að horfa á alvöru myndir í þessari græju og sé fyrir mér kvikmyndahátið áður en langt um líður.

Engin ummæli: