þriðjudagur, október 16, 2007

Daglegt líf: Ótímabær afmælissöngur

Ótrúlega getur maður verið seinn að fatta stundum! Signý hefur undanfarið verið að biðja mig um að syngja "ammli". Ég hélt að hún væri að tala um "afmælissönginn". Þau syngja náttúrulega afmælissönginn í leikskólanum öðru hvoru. Reyndar er það bara gert einu sinni í mánuði (og þá er sungið fyrir öll afmælisbörn mánaðarins sama daginn og haldin pitsuveisla í leiðinni). Ég var því hissa á því hvað hún hamraði oft á þessu með "ammli" og truflaði mig jafnvel sérstaklega í miðjum söng með þetta mikilvæga "óskalag". Ég var minnugur þess að hún hefur áður komið heim með lagstúf á vörunum sem við höfðum ekki sjálf haldið að henni hér heima. Nýlega var það "sól, sól, skín á mig" sem hún sönglaði einn daginn upp úr þurru (án textans, en laglínan skýr og góð). Ég ákvað því að láta það eftir henni að syngja afmælissönginn öðru hvoru, eftir beiðni, og söng hann ýmist fyrir hana (tveggja ára í desember) eða fyrir ímyndaðan leikfélaga (hann á afmæli í dag) eða eitthvað álíka út í loftið - hálf vandræðalegt semsagt. En alltaf fannst mér hún taka hálf dræmt í sönginn. Hún kannaðist alveg við lagið en gladdist ekkert sérstaklega. Svo kom að því í dag að ég var eitthvað að raula yfir henni í baðinu og datt inn á gamlan slagara:

Gamli Nói

Þá tók hún ákaflega vel undir og kunni lagið miklu betur en mig minnti og sagði strax: Ammli.

Þau greinilega syngja þetta í leikskólanum. Við vorum eiginlega búin að gleyma Nóa gamla enda önnur lög í uppáhaldi þessa dagana ("Uppi á grænum, grænum himinháum hól" er í sérstöku uppáhaldi með miklum leikrænum tilþrifum Signýjar). En hann er velkominn heim, að sjálfsögðu, ekki síst vegna þess að nú sé ég feginn fram á að vera laus við að syngja afmælissönginn í tima og ótíma.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er yndislegt og frábært að heyra hvernig hún kemur sínu til skila.....
Enda eru þær systur frábærar....

kv. Begga frænka

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ fjölskylda.
Gaman að lesa þetta af henni Signýju. Annars erum við í Hraunkoti og njótum þess að hanga saman við þrjú og tengdó í sveitinni. : ) Bið að heilsa og við kíkjum fljótlega til ykkar.
Kv/ Jón Már