þriðjudagur, október 09, 2007
Daglegt líf: Hitaflensa
Nú eru liðnir um það bil tveir mánuðir síðan leikskólinn hóf hauststarfsemi sína eftir stutt hlé í ágúst. Fram að því var Signý búin að missa mikið úr vegna veikinda en hefur verið alveg heil heilsu síðan (fyrir utan nefrennsli og svoleiðis), - þangað til á laugardaginn var. Þá fékk hún töluverðan hita. Hún var furðu hress miðað við að hitinn færi vel yfir 39 gráður, en fljótt syfjuð. Um nóttina kastaði hún upp og var mjög slöpp fyrri partinn á sunnudag. Síðan fór hitinn að lækka jafnt og þétt aftur. Hún var hitalaus yfir nóttina en við urðum að sjálfsögðu að halda henni heima daginn eftir. Þá kom í ljós hvað leikskólinn er mikið þarfaþing, sem útrás fyrir börnin. Signý var svo eirðarlaus og óþreytt á mánudaginn að það var beinlínis erfitt að fá hana til að sofna um kvöldið. Hún trítlaði fram hvað eftir annað (hún en náttúrulega í rimlalausu rúmi, eins og áður hefur komið fram, sem hefur þennan fyrirsjáanlega ókost). Hún var greinilega orðin fullfrísk og var áfram hitalaus og fór því aftur í leikskólann í dag. En þá er eins og þetta smotterí sem hrjáði hana hafi smitast yfir í Hugrúnu. Hún var eitthvað lítilsháttar slöpp í gær og er komin með hita í dag. Hann virðist hins vegar vera á undanhaldi nú þegar ég skrifa þetta þannig að ég geri ekki ráð fyrir frekari eftirmálum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli