þriðjudagur, október 09, 2007

Upplifun: Bubbi byggir datt

Signý kemur manni stundum á óvart. Sérstaklega þar sem hún bíður enn með að tala fyrir alvöru, en virðist skilja helling. Í dag var ég að spjalla við hana á meðan ég skipti á bleyjunni fyrir háttinn. Hún missti snuðið á gólfið og sagði "Dudda gúlli". Ég tók auðvitað undir þetta með henni, ánægður með að heyra hvernig orðin eru að raðast í einfaldar setningar. "Gólf" er nýtilkomið (sem "gúll") og hún er farin að nota það af meira öryggi en áður. Ég rétti henni snuðið aftur. Hún virtist hins vegar ekki fyllilega sátt við svarið mitt og sönglaði laglínu með fjórum nótum (og einhverju óljósara í framhaldi): Daaa-da-daa-daa. Ég kannaðist við laglínuna úr "Bubbi byggir" og var eiginlega hissa á að heyra hana syngja þetta, - var ekki viss því þessu lagi hefur aldrei verið haldið sérstaklega að henni. Ég söng þá bara með henni "Bubbi byggir" í þeirri von að hún væri að hugsa um sama lag og ég og setti hana svo upp í rúm. Þá benti hún á rúmið, eða púðann upp við vegginn, eða bara vegginn (ég var ekki viss) og sagði: "Duddi datt gúlli". Ég var ánægður með þessa setningu í ljósi þess að hún var nýbúin að missa snuðið á gólfið og bað hana að endurtaka svo að mamma hennar heyrði. Þá kom Vigdís í dyragættina. Signý benti áfram jafn dularfull á svipinn á sama stað og áður, sem ég áttaði mig loksins á að væri bilið á milli rúmsins og veggjarins, og sagði: "Duddi datt gúlli". Við vorum áfram jafn hissa. Þá söng hún aftur lagið: Daaa-da-daa-daa ("Bubbi byggir"). Eitthvað hlaut að hafa dottið þarna á milli svo ég ákvað að kíkja undir. Það fór eiginlega um mig þegar ég sá að þetta var bók!: "Bob the Builder" (Bubbi byggir). Mikið óskaplega var hún glöð þegar ég uppgötvaði þetta loksins!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

það er alveg ótrúlega gaman að
upplifa svona með barninu og sjá orðin raðast upp og að barnið er farið að tjá sig meira sjálft....
Hlakka til að SPJALLA við fjörkálfinn....
kv. Begga