þriðjudagur, október 30, 2007

Fréttnæmt: Veikindi eina ferðina enn

Þetta er búið að vera strembið að undanförnu. Núna um helgina fékk Signý hitasótt eina ferðina enn (þriðja helgin í mánuðinum) og var heima á mánudaginn. Hún er orðin spræk núna en í kjölfarið fengum við Hugrún einhverja óværu líka. Hugrún virtist ná sér fljótt (var með nokkrar kommur í einn dag) en ég er enn hálf lemstraður. Ég mætti í vinnu í dag og vinnufélagarnir kepptust við að vísa mér heim snemma. Samt er ég ekki með neinn hita! Kallast það að vera veikur ef enginn hiti fylgir lasleikanum? Ég er samt áberandi slappur, rámur eins og kráka og tuskast til eins og brúða (og rek mig utan í reglulega vegna sljóleikans). Þetta er langt frá því að vera gaman. Verst er að geta ekki bara lagt sig og gleymt stund og stað eins og í gamla daga. Ég næ þó að leggja mig öðru hvoru.

Nú blasir vetrarfrí við frá fimmtudegi til og með þriðjudags: sex daga frí sem á að nýta vel til að hvílast og gera ýmislegt fyrir heimilið. Ég ætla svo sannarlega ekki að vera lasinn þessa daga. Vonandi næ ég að vinna upp bloggpásuna sem er að baki. Það er margt sem mig hefur langað að tjá mig um varðandi Signýju og Hugrúnu. Ætli það endi ekki með því að ég taki saman mánaðaryfirlit um þær báðar í fríinu.

Engin ummæli: