sunnudagur, nóvember 18, 2007

Fréttnæmt: Pensillínfjölskyldan

Á föstudaginn fyrir rúmri viku síðan fórum við með Signýju til læknis, sem skaffaði henni að bragði vikuskammt af pensilín-mixtúru. Hún reyndist vera bæði bólgin í hálsi og með sýkingu í eyrunum. Læknirins sagði okkur að þessar stuttu hitasóttir sem hún fékk helgi eftir helgi í síðasta mánuði (samfara þrálátum en mallandi og lágum hita) urðu sem sagt til þess að kvefið náði ekki að hreinsast og sýking tók að grassera. Núna er hún talsvert betri eftir kúrinn. Hún tók við mixtúrunni kvölds og morgna á hverjum degi (hún var mjög dugleg). Hitinn hvarf fljótlega og á þriðjudaginn var mætti Signý aftur í leikskólann. Hún er fjörug og virðist vera mjög frísk (alveg hitalaus) en þó má heyra hana hósta öðru hvoru auk þess sem það þarf reglulega að snýta. Við vonum að þetta fari að hverfa.

Ég var hins vegar með einhver leiðindi í hálsi líka á sama tíma og fattaði það eiginlega eftir læknisheimsóknina með Signýju. Ég kíkti læknis nokkrum dögum seinna. Kyngingarerfiðleikar og sár hálsbólga voru orðin meira en lítið pirrandi, auk þess sem þrálátur hósti angraði mig að degi og nóttu. Ég var hálf slappur dögum saman, en samt ekki almennilega veikur, og sinnti vinnunni bara með hangandi hendi. Það var því þess virði að fá lækningu, sem fólst í pensillínskammti (nema hvað). Ég var samferða Signýju kvölds og morgna - með sömu mixtúruna (mitt reyndar í töfluformi). Þetta er viss hagræðing, myndi maður ætla, en það reyndist samt ekki sérlega hjálplegt fyrir minnið að gera þetta svona samhliða. Mér fannst ég oft hafa tekið inn töfluna þegar ég hafði gefið Signýju sinn skammt. Svona blekkir hugurinn mann stundum.

Núna er ég orðinn miklu betri og er fullur af starfsorku (enn eimir þó eftir af hóstanum, en hálsbólgan er farin). Þá er hins vegar komið að Hugrúnu. Um helgina fékk hún einhverja sýkingu í augað og nefrennsli auk fjölskylduhóstans. Full kunnuglegt. Í kvöld var hún eirðarlaus og ekki sjálfri sér lík - þó gætti hún vandlega að því að sjarmera mann með innilegu brosi öðru hvoru (þannig að hún þjáist að minnsta kosti ekki). Þegar ég svæfði hana í kvöld hjalaði hún að minnsta kosti svo blíðlega að ég dró hálsbólgu stórlega í efa. Hún er sem betur fer hitalaus, enn þá, og á meðan hún sefur sæmilega vel erum við að vonast til að þetta líði hjá hratt og vel.

Engin ummæli: