Signý kom mér skemmtilega á óvart í gær eftir að skál brotnaði innanhúss og skildi eftir sig glerbrot víða um gólf. Ég notað tækifærið og útskýrði fyrir Signýju hvað þessi brot geta verið varasöm því þau geta skorið mann, og þá kemur blóð, og "það er ekki gott" (notaði þarna hennar eigin orðalag). Þá horfði hún á mig alvörugefin til baka eins og hún skildi mig til fullnustu og undirstrikaði það með því að benda á upphandleggsvöðvann og sagði að blóðið væri "hérna". Síðan bætti hún við, mjög svo útskýrandi, að inni í okkur væri líka "beinagrind".
Þá varð mér nú hugsaði til þess hvað þær væru að vinna gott starf í leikskólanum því við höfum aldrei minnst á beinagrind hér innanhúss. Ég hef reyndar tekið eftir því, þegar ég sæki Signýju, að krakkarnir hafa aðgang að mjög skemmtilegu líkamspúsli, þar sem ýmsum "lögum" líkamans er púslað hvert ofan á annað. "Beinagrindin" er eitt lagið, "æðakerfið" annað, "líffærin" enn eitt og "húðin" augljóslega lokastigið. Þetta situr greinilega vel eftir hjá minni.
Signý virðist vera mjög eðlilega forvitin og leitandi. Stundum er maður alveg hissa á fróðleiksfýsninni. Nýlega tók hún sig til við að lesa myndrænan atlas sem ég hef óvart haft í námunda við hilluna þeirra. Þetta er stór atlas, en ekki þungur. Hann er myndrænn og grípur augað, með fullt af myndum af dýrum, farartækjum, byggingum og öðru því sem einkennir heimsálfurnar og löndin sem fyrir finnast. Allar eru myndirnar í smágerðri útgáfu á víð og dreif um kortin. Þetta skoðar Signý af brennandi áhuga og finnst sérstaklega áhugavert að finna mynd eða fyrirbæri tvítekið (henni finnst alltaf jafn dularfullt að sjá sólhlífar og sólbekki - tákn um sólarstrendur - á hverri einustu blaðsíðu). Svo er hún fljót að fara í leik - þar sem hún spyr mig um fyrirbæri og ég þarf að leita að því (eða öfugt). Það sem mér finnst hins vegar athyglisvert er að hún var fljót að spyrja um Ísland.
Þetta "hugtak" hefur borið á góma áður í tengslum við kort. Ég hef alltaf haldið að hún tengdi "Ísland" bara við "kort" almennt en nú kom skýrt í ljós að hún gerði sér grein fyrir að Ísland væri afmarkaður staður á kortinu. Ekki hef ég lagt þetta neitt inn hjá henni, þannig að líklega kemst hún í kynni við þetta gegnum fjölþjóðlega fræðslu og landasamanburð í leikskólanum (svo ég vísi nú aftur í starfsemina þar). Signý var sem sagt ekki viss um hvar Ísland væri að finna svo ég sýndi henni Ísland á kortinu. Stuttu síðar spurði ég hana aftur, á öðru korti, og var eiginlega hissa á því hvað hún var örugg þegar hún benti á Ísland. Þetta endurtók hún nokkrum sinnum, á fleiri kortum, og sumum þeirra nokkuð ólíkum (annað sjónarhorn, önnur stækkunarhlutföll eða þjóðlandakort í regnbogans litum) og hún fipaðist varla nokkrum tímann - full af áhuga, allan tímann. Mikið fannst mér þetta gaman. Þetta gátum við rýnt í saman og lagt þrautir fyrir hvort annað og spekúlerað svolítið. Þetta er bónus því ég átti alls ekki von á því að ég myndi "skoða heiminn" með Signýju svona snemma.
föstudagur, janúar 30, 2009
Þroskaferli: Tveggja orða setningar á færibandi
Það fer sko ekki á milli mála að Hugrún er farin að mynda tveggja orða setningar. Nú kemur þetta á færibandi. Í dag sótti ég þær systur á leikskólann, gangandi, og á leiðinni heim leit Hugrún upp og sagði uppnumin "Dúlli!" og átti þar við tunglið sem greina mátti á björtum himnum sem örþunna sigð. Mér þótti þetta út af fyrir sig vel af sér vikið. Nokkru síðar bætti hún hins vegar um betur, á meðan hún horfði enn upp í átt til tunglsins: "uppi - himnum". Fyrra orðið er orðið eitt af hennar uppáhalds orðum. Hún notar "uppi" fyrir ýmislegt sem hún nær ekki til og hefur hingað til takmarkast við hluti innanhúss. Þetta fannst mér hins vegar mögnuð yfirfærsla. Við gengum síðan áfram fram hjá næsta húsi en þá sagði hún að bragði: "Dinnt" (týnt) en skömmu síðar birtist "dúlli" aftur.
Aðrar vinsælar "tveggja orða setningar" þessa dagana bera keim af því hvað henni vex ásmegin: "ég sjálf" og "ekki svona!". Sú fyrri lýsir því ágætlega hvernig hún er almennt mótfallin því að njóta aðstoðar, sérstaklega við kvöldmatinn eða tannburstun. Hitt á við þegar einhver er að pirra hana á einhvern hátt, viljandi eða óviljandi. Þá segir hún mjög ákveðið, með hörðu tónfalli: "Eh-Ki Sona!!"
Aðrar vinsælar "tveggja orða setningar" þessa dagana bera keim af því hvað henni vex ásmegin: "ég sjálf" og "ekki svona!". Sú fyrri lýsir því ágætlega hvernig hún er almennt mótfallin því að njóta aðstoðar, sérstaklega við kvöldmatinn eða tannburstun. Hitt á við þegar einhver er að pirra hana á einhvern hátt, viljandi eða óviljandi. Þá segir hún mjög ákveðið, með hörðu tónfalli: "Eh-Ki Sona!!"
fimmtudagur, janúar 29, 2009
Daglegt líf: Vinna og veikindi
Aldrei þessu vant er ég lasinn heima. Fékk bæði "upp og niður" í gær og var með hita í nótt. Er mun betri í dag - bara orkulaus og slappur. Ég er hitalaus og vafalaust á batavegi.
Það er gott að nýta svona stundir heima, þá sjaldan sem maður hefur íbúðina út af fyrir sig, og sinna ýmsum verkum heima við. Að lokum leiðist maður í átt að tölvunni þar sem ýmislegt hefur setið á hakanum. Nú hef ég sett nokkrar nýjar myndir inn á myndasíðuna (til dæmis fullt af jólamyndum) og kem með nýja bloggfærslu von bráðar - um orðaforða og framburð Signýjar (hvað hefur það verið eiginlega lengi í bígerð?). Kominn tími til áður en maður gleymir sérkennum í framburði hjá henni og setningarskipan.
Annars er allt meinhægt af okkur að frétta. Nóg að gera í vinnunni og hún er mjög krefjandi þessa dagana (nemendasamsetningin er mjög breytingum háð en hún er erfið akkúrat núna). Vigdís vinnur sína vaktavinnu og er ýmist á morgnana eða kvöldin. Enn höfum við ekki orðið vör við neinn niðurskurð en vonumst til að ekki þurfi að grípa til afdrifaríkra aðgerða á borð við það að loka deildum á spítalanum eða leggja niður sérskóla á borð við þann sem ég vinn í. Ég held að allir yrðu sáttari við flatan niðurskurð - lækkun yfir línuna. Það er vel hægt að laga sig að því.
Það er gott að nýta svona stundir heima, þá sjaldan sem maður hefur íbúðina út af fyrir sig, og sinna ýmsum verkum heima við. Að lokum leiðist maður í átt að tölvunni þar sem ýmislegt hefur setið á hakanum. Nú hef ég sett nokkrar nýjar myndir inn á myndasíðuna (til dæmis fullt af jólamyndum) og kem með nýja bloggfærslu von bráðar - um orðaforða og framburð Signýjar (hvað hefur það verið eiginlega lengi í bígerð?). Kominn tími til áður en maður gleymir sérkennum í framburði hjá henni og setningarskipan.
Annars er allt meinhægt af okkur að frétta. Nóg að gera í vinnunni og hún er mjög krefjandi þessa dagana (nemendasamsetningin er mjög breytingum háð en hún er erfið akkúrat núna). Vigdís vinnur sína vaktavinnu og er ýmist á morgnana eða kvöldin. Enn höfum við ekki orðið vör við neinn niðurskurð en vonumst til að ekki þurfi að grípa til afdrifaríkra aðgerða á borð við það að loka deildum á spítalanum eða leggja niður sérskóla á borð við þann sem ég vinn í. Ég held að allir yrðu sáttari við flatan niðurskurð - lækkun yfir línuna. Það er vel hægt að laga sig að því.
laugardagur, janúar 17, 2009
Þroskaferli: Vaxandi orðaforði Hugrúnar
Maður þarf virkilega að leggja sig fram ef það á að skrá hjá sér öll framfaraskref yngstu fjölskyldumeðlimanna. Signýju tek ég fyrir annars staðar, en hún er farin meðal annars að ná góðum tökum á s-hljóðinu og errinu. Hugrún er hins vegar nýlega farin að tjá sig í hálfum setningum. Hún segir: "Meiddi mig" eða "Mamma heima". Þegar ég sótti hana á leikskólann um daginn sagði hún skýrt "Þetta er pabbi". Oft notast hún við eignafornafn sem viðhengi við það sem henni þykir vænt um, eins og "peli minn". Hins vegar ef hún vill fá pelann segir hún bara "pelann" og þá gefur fallið meininguna til kynna.
Svo er fullt af orðum að bætast við orðaforðann, flest hver notuð á stangli (erfitt að góma) en þau sem komin eru í daglegan orðaforða eru til dæmis "sjá" (sem hún notar til að biðja um að fá að sjá eitthvað, kíkja í bók til dæmis). Núna upp á síðkastið hefur maður heyrt hana segja "ma´sjá". Orðið "opna" hefur líka verið mjög áberandi síðan í desember (borið fram "áttna" - virkaði vel yfir jólapökkunum en notast dags daglega á dyr og leikföng með hlerum). "Heitt" er líka mjög praktískt orð sem notast helst í baði. Allra sætasta orðið finnst mér hins vegar vera "vakna". Hún ber þetta orð yfirleitt fram við rúmstokkinn, sérstaklega þá daga sem ég hef fengið að sofa út og hún fær leyfi til að hreyfa við mér. Þá er ljúft að fara á fætur.
Svo er fullt af orðum að bætast við orðaforðann, flest hver notuð á stangli (erfitt að góma) en þau sem komin eru í daglegan orðaforða eru til dæmis "sjá" (sem hún notar til að biðja um að fá að sjá eitthvað, kíkja í bók til dæmis). Núna upp á síðkastið hefur maður heyrt hana segja "ma´sjá". Orðið "opna" hefur líka verið mjög áberandi síðan í desember (borið fram "áttna" - virkaði vel yfir jólapökkunum en notast dags daglega á dyr og leikföng með hlerum). "Heitt" er líka mjög praktískt orð sem notast helst í baði. Allra sætasta orðið finnst mér hins vegar vera "vakna". Hún ber þetta orð yfirleitt fram við rúmstokkinn, sérstaklega þá daga sem ég hef fengið að sofa út og hún fær leyfi til að hreyfa við mér. Þá er ljúft að fara á fætur.
þriðjudagur, janúar 06, 2009
Daglegt líf: Bleyjuskil og hjartnæm systratengsl
Í dag þegar ég sótti Signýju var mér afhentur bunki af bleyjum í leiðinni. Núna er hún sem sagt formlega hætt að nota bleyjur í leikskólanum (að sjálfsögðu fór ég ekki lengra með bunkann en yfir á deildina hennar Hugrúnar). Signý er búin að vera alveg þurr tvo fyrstu dagana í leikskólanum eftir jólafríið. Það finnst mér vel af sér vikið í ljósi þess hvað rútínan var mikið á reiki í fríinu (með tilheyrandi óhöppum öðru hvoru).
Þegar við komum yfir til Hugrúnar tóku við hefðbundnir fagnaðarfundir hjá þeim, nema hvað mér fannst þær vera óvenju lengi í faðmi hvorrar annarrar - ábyggilega tuttugu sekúndur. Það er greinilega mjög kært á milli þeirra. Maður er svosem hættur að láta sér bregða þó það sé alltaf jafn hjartnæmt að horfa á þær saman. Hins vegar var ég gapandi um daginn þegar ég varð vitni að einverjum fallegustu samskiptum sem átt hafa sér stað í þessari íbúð:
Það var á sunnudaginn var og við Vigdís sátum saman og horfðum á sjónvarpið. Við tímdum ekki að svæfa þær strax af því sjónvarpið var svo spennandi (lokaþáttur danska þáttarins Sommer). Við leyfðum þeim að leika sér rólega á meðan. Signý var hins vegar dauðsyfjuð og lagðist í sófann og lognaðist brátt út af undir sænginni sinni. Voða huggulegt. Hugrún var hins vegar ekki tilbúin að horfa upp á systur sína sofna frá sér (hún hafði lagt sig í hádeginu en Signý ekki). Hugrún gekki rakleiðis að Signýju þar sem hún lá og stóð yfir henni og fyrirskipaði henni eitthvað.... með því að kalla "DIH-DÍ!"(systir). Mér fannst hún gelta þessu að henni mjög ákveðið eins og yfirmaður sem kemur að starfsmanni sofandi. Ég brosti og lyfti Hugrúnu upp og færði hana til hliðar og sneri henni frá Signýju. Þá gekk hún aftur rakleiðis í boga til Signýjar og hélt áfram að hrópa "DIH-DÍ!". Þetta endurtók sig nokkrum sinnum og alltaf strunsaði Hugrún beint til Signýjar. Þá var loksins eins og hún áttaði sig á því að Signý myndi ekki svara henni. Hún lyfti sænginni örlítið og snerti höndina varlega. Síðan horfði hún á systur sína, strauk á henni vangann nokkrum sinnum og kyssti á ennið. Hún stóð þarna áfram nokkra stund fullkomlega tillitssöm eins og hún væri í fyrsta skipti að sjá systur sína í kyrrmynd. Á meðan Signý var algjörlega ómeðvituð um hvað var að gerast strauk Hugrún henni áfram og kyssti hana aftur á ennið.
Þegar við komum yfir til Hugrúnar tóku við hefðbundnir fagnaðarfundir hjá þeim, nema hvað mér fannst þær vera óvenju lengi í faðmi hvorrar annarrar - ábyggilega tuttugu sekúndur. Það er greinilega mjög kært á milli þeirra. Maður er svosem hættur að láta sér bregða þó það sé alltaf jafn hjartnæmt að horfa á þær saman. Hins vegar var ég gapandi um daginn þegar ég varð vitni að einverjum fallegustu samskiptum sem átt hafa sér stað í þessari íbúð:
Það var á sunnudaginn var og við Vigdís sátum saman og horfðum á sjónvarpið. Við tímdum ekki að svæfa þær strax af því sjónvarpið var svo spennandi (lokaþáttur danska þáttarins Sommer). Við leyfðum þeim að leika sér rólega á meðan. Signý var hins vegar dauðsyfjuð og lagðist í sófann og lognaðist brátt út af undir sænginni sinni. Voða huggulegt. Hugrún var hins vegar ekki tilbúin að horfa upp á systur sína sofna frá sér (hún hafði lagt sig í hádeginu en Signý ekki). Hugrún gekki rakleiðis að Signýju þar sem hún lá og stóð yfir henni og fyrirskipaði henni eitthvað.... með því að kalla "DIH-DÍ!"(systir). Mér fannst hún gelta þessu að henni mjög ákveðið eins og yfirmaður sem kemur að starfsmanni sofandi. Ég brosti og lyfti Hugrúnu upp og færði hana til hliðar og sneri henni frá Signýju. Þá gekk hún aftur rakleiðis í boga til Signýjar og hélt áfram að hrópa "DIH-DÍ!". Þetta endurtók sig nokkrum sinnum og alltaf strunsaði Hugrún beint til Signýjar. Þá var loksins eins og hún áttaði sig á því að Signý myndi ekki svara henni. Hún lyfti sænginni örlítið og snerti höndina varlega. Síðan horfði hún á systur sína, strauk á henni vangann nokkrum sinnum og kyssti á ennið. Hún stóð þarna áfram nokkra stund fullkomlega tillitssöm eins og hún væri í fyrsta skipti að sjá systur sína í kyrrmynd. Á meðan Signý var algjörlega ómeðvituð um hvað var að gerast strauk Hugrún henni áfram og kyssti hana aftur á ennið.
föstudagur, janúar 02, 2009
Pæling: 2008 verður 2009
Nú er árið 2008 að baki. Flestir eru því væntanlega fegnir. Árið var okkur í Granaskjólinu hins vegar mun léttara en árin þrjú á undan. Þau einkenndust af miklum breytingum (fæðingar), launaskerðingu (fæðingarorlof), frelsissviptingu (ólétta og sú byrði sem því fylgir auk stöðugrar viðveru og bindingar sem tekur tíma að læra á) auk mikilla veikinda. Á sama tima var mikill uppgangur í samfélaginu sem við urðum engan veginn aðnjótandi að. Íbúðaverð snarhækkaði og möguleikinn á að koma sér fyrir fjarlægðist ár frá ári. Í ár var hins vegar allt annað uppi á teningnum. Allir voru mjög frískir að jafnaði og heimilishaldið fann langþráðan stöðugleika. Hugrún og Signý eru nú báðar komnar í leikskóla og við foreldrarnir farin að vinna meira sem því nemur. Hvað stærra samhengið varðar þá hefur samfélagið hefur líka snarbreyst og öll lögmál önnur en fyrir ári síðan. Margt hefur versnað í kjölfarið (verðhækkanir, viss vöruskortur, reiði og óvissa allt í kring) en við höfum komist nokkuð klakklaust í gegnum þetta allt saman (enda græddum við aldrei á góðærinu svokallaða á sínum tíma). Sú örvænting sem greip eignalaust og upprennandi fjölskyldufólk fyrir ári síðan hefur nú umbreyst í örvæntingu þeirra eignameiri og auðjöfra. Furðuleg umskipti það.
Áramótaskaupið, sem mér fannst annars mjög misjafnt, tók mið af þessu með frábæru lokaatriði. Þá var lagið "Happy New Year" með Abba sungið fádæma vel í vandaðri raddsetningu. Það sem fáir gera sér líklega grein fyrir er að sviðsmyndin var því sem næst nákvæm eftirmynd af næstsíðustu plötukápu Abba en sú plata einkenndist af söknuði og eftirsjá eftir hamingjusamari tímum (Abba-plöturnar og textar þeirra endurspegluðu ár frá ári hnignandi tilfinningalíf paranna tveggja). Þetta er platan sem sagði að gleðigangan væri á enda: "Partíið er búið". Í kjölfarið var þetta bara spurning um að taka saman og segja bless.
Við skulum vona að árið 2009 muni ekki einkennast af slíkum drunga. Að minnsta kosti hef ég mikla tiltrú á því sem framundan er.
Áramótaskaupið, sem mér fannst annars mjög misjafnt, tók mið af þessu með frábæru lokaatriði. Þá var lagið "Happy New Year" með Abba sungið fádæma vel í vandaðri raddsetningu. Það sem fáir gera sér líklega grein fyrir er að sviðsmyndin var því sem næst nákvæm eftirmynd af næstsíðustu plötukápu Abba en sú plata einkenndist af söknuði og eftirsjá eftir hamingjusamari tímum (Abba-plöturnar og textar þeirra endurspegluðu ár frá ári hnignandi tilfinningalíf paranna tveggja). Þetta er platan sem sagði að gleðigangan væri á enda: "Partíið er búið". Í kjölfarið var þetta bara spurning um að taka saman og segja bless.
Við skulum vona að árið 2009 muni ekki einkennast af slíkum drunga. Að minnsta kosti hef ég mikla tiltrú á því sem framundan er.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)