Helgarsjónvarpið olli heilabrotum, eins og um síðustu helgi. Það var þessi dæmalausi þáttur um mannslíkamann "Einu sinni var...lífið" sem persónugerir alla líkamsstarfsemina (sjá næst síðustu færslu). Núna tók Signý eftir undarlegri þversögn. Við fylgdumst með sögupersónu athafnast eitthvað, hlaupa eða hvað það nú var, og skyggndumst síðan inn í líkamann og sáum þar alls konar verur svara kalli líkamans. Þar á meðal voru yfirvegaðir náungar í stjórnstöð líkamans (ekki var sýnt nákvæmlega hvar hún var staðsett en ég sem foreldri ímynda mér að það eigi að vera staðsett einhvers staðar í heilanum). Þetta herbergi var alsett tölvum. Vandinn var hins vegar sá að þær verur sem höfðu yfirsýn yfir alla líkamsstarfssemina og unnu fyrir framan tölvurnar voru minni útgáfur af persónunum sem voru að hlaupa og hamast. Þá gall í Signýju:
"Hann er í maganum sínum! Hann er í maganum sínum! Hvernig komst hann í magann á sér?"
Í þetta skiptið svaraði ég engu og brosti bara með.
Eins vakti athygli mína glögg athugasemd Hugrúnar yfir Stundinni okkar. Við fylgdumst náið með stúlku syngja dapurlegt lag ("Bátur líður út um Eyjasund..."). Hún hafði fallega söngrödd en var mjög óörugg með sig. Röddinn var óstyrk og öll holningin bar með sér að hún væri allt annað en afslöppuð. Hún virtist eiginlega lafhrædd og hálf stjörf. Signý og Hugrún horfðu á þetta og hlustuðu gaumgæfilega og sögðu ekki múkk fyrr en lagið var rúmlega hálfnað. Þá fann Hugrún sig knúna til að grípa inn í með útskýringu eins og henni er einni lagið:
"Hún á enga vini Signý. Hún á bara enga vini." .
Þetta vakti mig til umhugsunar um það hvað börn eru næm hvert á annað. Þau þekkja kannski ekki forsendurnar fyrir líðan hvers annars en geta samt verið fljót að álykta.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þær eru magnaðar ..
Dúllurnar
Þær eru magnaðar ..
Dúllurnar
Þær eru magnaðar ..
Dúllurnar
Skrifa ummæli