Nú þegar jólin eru að baki er ekki úr vegi að velta fyrir sér til hvers allt umstangið var. Þetta gengur yfir mjög hratt og í ár má segja að jólin séu óvenju stutt. En jólin eru ekki bara þessir örfáu dagar þegar nánar er að gáð. Þetta er líka spurning um að njóta aðventunnar, tilhlökkunarinnar og ljósanna sem fylgja jólunum og eru logandi nokkrar vikur í senn hjá flestum. Margir ná engan veginn að njóta þessa tímabils sem skyldi og láta jólin spenna sig upp. Okkur tókst hins vegar ágætlega upp í þessum efnum núna, þökk sé góðri jólaafþreyingu.
Jólaalmanakið í ár var fyrsta flokks. Á hverjum einasta degi var sýndur þáttur frá aðventunni í "Snædal", norskri seríu sem var nokkuð í anda "Himmelbla" en ætlað yngri markhópi. Hver þáttur glímdi markvisst við einhver grunngildi, eins og gildi þess að tala ekki illa um náungann, um að hlaupast ekki undan ábyrgð, um að þora að taka áhættu í lífinu og þar fram eftir götunum. Sögurnar voru alltaf nógu einfaldar til þess að fimm ára nái að lifa sig inn í atburðarásina en nógu raunsæir og djúpir til að skírskota til tilfinninga fullorðinna. Kannski svolítið eins og Húsið á sléttunni á sínum tíma. Alla vegana var þetta fastur punktur í aðventunni hér á bæ og hún Signý hlakkaði sérstaklega til hvers þáttar og lagði hiklaust til hliðar aðra afþreyingu á meðan.
Þetta stóð upp úr þeirri afþreyingu sem var í boði á aðventunni, hiklaust, og minnir mann hastarlega á hvað íslenskt leikið efni er aftarlega á merinni (hver hefur annars nennt að horfa á jóladagatalið undanfarin ár?). En svo að maður tefli saman andstæðum þá verð ég taka fram það sem mér þykir vera versta afþreyingin þetta árið, sem endranær. Það eru Frostrósir og allar þessar glamúrtónleikauppákomur sem voru í boði, hvort sem það voru Björgvin og félagar eða aðrir. Í mínum huga eru tónleikar af þessu tagi einmitt til þess fallnir að spenna fólk upp. Ég meina, það er ekkert snoturt, einlægt eða einfalt við þetta. Þetta er þaulskipulagt og flókið prógramm þar sem helstu látúnsbarkar landsins koma saman til að berast á í gala-klæðnaði við undirspil stórrar hljómsveitar og kórs, með öllu því glimmeri sem því fylgir. Það er beinlínis gefið í skyn að jólin gangi út á þessa fullkomnun, eins og risavaxið ofskreytt silfurjólatré. Þetta finnst mér vera lágkúrulegt og flokkas því hjá mér undir það lélegasta í afþreyingu á aðventunni. Líður fólki vel eftir svona tónleika? Ef ég hefði skellt mér á jólatónleika þá hefði það verið venjulegir kórtónleikar eða eitthvað enn lágstemmdara (eins og Pál Óskar og Móníku) eða fundið einhvern kammerkór á götuhorni. En Frostrósir, nei takk. Með fullir virðingu fyrir frábærum flytjendum.
En til að enda ekki á neikvæðu nótunum langar mig að rifja upp jólatónlist sem virkar alltaf jafn þægilega á mig ár eftir ár. Það er hið gamla og góða "Do They Know it´s Christmas?". Hvað er það við þetta lag? Bernskuminning? (ég var tólf ára þegar lagið kom út). Eða er það hlýlegi hitabeltishljómurinn sem virkar alltaf eins og endurómur úr fjarlægri álfu? Eða er það kaldhæðnin í laginu sem alltaf skín í gegn: "Tonight, thank God, it´s them, instead of you!", sem Bono hikaði lengi við að syngja. Eða er það spennan og eftirvæntingin í flutningnum sem gerir lagið svo klassískt? Flytjendur voru meira eða minna gagnteknir af því sem var að gerast enda hafði ekkert í þessum dúr verið reynt áður. Að minnsta kosti skilar þetta sér allt, á hverju einasta ári.
En ef ég ætti að velja mér gamalt jólalag til að halda upp á (frá því fyrir minn tíma) þá myndi það hins vegar vera The Little Drummer Boy. Það virðist bara ekki vera hægt að klúðra þessu lagi, enda laust við alla væmni og tilgerð, og fjallar um eitthvað allt annað en jólasveina, jólastress og jesúbarnið (sem er óneitanlega svolítið frískandi á aðventunni). Sérstaklega held ég upp á flutning the Kings´ Singers og svo auðvitað flutning heiðursmannanna Bing Crosby og David Bowie. Þar er eitthvað pínulítið vandræðalegt við flutninginn sem gerir hann svo skemmtilegan, eins og þeir viti ekki hvað þeir hafa hvorn annan, en þetta varfærnislega í flutningnum gerir hann einmitt svo viðkunnanlegan.
sunnudagur, desember 26, 2010
Upplifun: Snjókarlinn
Þá eru jólin að baki. Snjórinn féll tímanlega og skolaðist burt í dag, kannski full snemma. Við nýttum hins vegar gærdaginn mjög vel. Það var eiginlega hinn fullkomni jóladagur. Þá var garðurinn þakinn nýföllnum snjó og stutt í þíðuna þannig að hann var frekar rakur og tilbúinn til meðhöndlunar. Við réðumst strax í að rúlla upp snjókarli og fórum klassísku leiðina: bjuggum til harðan snjóbolta og veltum honum eftir lóðinni. Í kjölfarið af boltanum lá mjög áberandi græn slóð því snjórinn hafði ekki legið lengi. Þegar maður hugsar út í það þá er eins og þessi snjór hafi fallið beinlínis til að gera okkur kleift að búa til snjókarl á jóladag. Snjókarlinn var í fullri stærð og fékk sín hefðbundnu klæði: húfu (jólasveinahúfu), trefil og myndarlega gulrót fyrir nefið. Hann brosti sáttur við sig þegar við röltum inn.
Við vorum þrjú í þessu á meðan Vigdís sýslaði ýmislegt inni, reddaði okkur gulrót, trefli og hönskum eftir því sem við átti, þannig að þetta var samvinnuverkefni allra. Svo beið okkar inni heitt súkkulaði og smákökur með rjóma. Það tilheyrir á jóladag. Signý og Hugrún settust þá við sjónvarpið og horfðu með mér á uppáhalds jólamyndina okkar: The Snowman. Þetta er töfrandi saga (upphaflega barnabók) og er frábærlega komið til skila sem teiknimynd. Þetta er saga af snjókarli sem vaknar til lífsins á jólanótt. Við svífum með snjókarlinum á vit ævintýranna og tökum þátt í veislu með jólasveininum sem bíður á Suðurpólnum áður en yfir lýkur (þ.e.a.s. áður en svifið er til baka og snjókarlinn bráðnar morguninn eftir). Stelpurnar horfðu stoltar út í garð öðru hvoru og báru snjókarlana saman með reglubundnu millibili. Þær voru ekkert leiðar yfir því þegar hann bráðnaði í dag enda vita þær fullvel að það eru örlög snjókarla, jafnvel þeirra sem vakna til lífsins.
Við vorum þrjú í þessu á meðan Vigdís sýslaði ýmislegt inni, reddaði okkur gulrót, trefli og hönskum eftir því sem við átti, þannig að þetta var samvinnuverkefni allra. Svo beið okkar inni heitt súkkulaði og smákökur með rjóma. Það tilheyrir á jóladag. Signý og Hugrún settust þá við sjónvarpið og horfðu með mér á uppáhalds jólamyndina okkar: The Snowman. Þetta er töfrandi saga (upphaflega barnabók) og er frábærlega komið til skila sem teiknimynd. Þetta er saga af snjókarli sem vaknar til lífsins á jólanótt. Við svífum með snjókarlinum á vit ævintýranna og tökum þátt í veislu með jólasveininum sem bíður á Suðurpólnum áður en yfir lýkur (þ.e.a.s. áður en svifið er til baka og snjókarlinn bráðnar morguninn eftir). Stelpurnar horfðu stoltar út í garð öðru hvoru og báru snjókarlana saman með reglubundnu millibili. Þær voru ekkert leiðar yfir því þegar hann bráðnaði í dag enda vita þær fullvel að það eru örlög snjókarla, jafnvel þeirra sem vakna til lífsins.
laugardagur, desember 18, 2010
Upplifun: Tvær leiksýningar
Í dag kíktum við á skemmtilega brúðuleiksýningu í Gerðubergi sem hét, að mig minnir: Minnsta tröllskessa í heimi. Sýningin var á vegum áhugahóps um brúðuleikhús sem kallast Unima. Stelpurnar höfðu sérlega gaman af þessu enda fengu þær ásamt öðrum krökkum að taka virkan þátt í atburðarásinni. Það er nóg að gera þessa dagana og þeim leiðist hreint ekki þeim Signýju og Hugrúnu. Begga systir eru dugleg að þefa uppi leiksýningar og tilboð og þær njóta góðs af því (og fá að gista hjá henni reglulega í tengslum við þetta). Fyrir um viku síðan fékk Signý til dæmis að fara með henni og Fannari og Guðnýju í Borgarleikhúsið á sýninguna: Jesú litli. Þar sat hún víst þægust af öllum, langt undir meðalaldri áhorfenda, og horfði gagntekin allan tímann. Svo fékk hún að fara baksviðs að heilsa upp á frænku sína sem lék í sýningunni (Halldóru Geirharðs). Það fannst henni ekki síður skemmtilegt og fékk teknar myndir af sér með henni. Þetta er N.B. fyrsta "Dóran" sem hún kynnist í alvörunni, á eftir landkönnuðinum fræga. Hún bar Dóru vel söguna og talaði mikið um hana eftir á við Hugrúnu (sem því miður varð að vera heima í þetta skiptið en fékk bara meiri athygli heima á meðan).
Uppákoma: Jólasveinninn komst ekki til byggða
Síðustu dagar hafa verið erilsamir, jólaball bæði í leikskólanum og í vinnunni, en sem betur fer er ég sloppinn hér með í jólafrí. Það er frábært að fá góða viku fyrir jól til að hnýta saman alla lausa enda. Erillinn að undanförnu hefur að einhverju leyti bitnað á stelpunum. Þegar jólasveinninn fór að gefa í skóinn hefur til að mynda gleymst öðru hvoru að tékka á súkkulaðimolanum í dagatalinu. Það var afar heppilegt í morgun því þá var ekkert í skónum. Hvað gerðist eiginlega? Trassaskapur? Þeirri skýringu var hins vegar haldið á lofti að sveinki hafi ekki komist vegna óveðursins sem gekk yfir landið. Grýla hélt honum heima og lofaði að hleypa honum út í kvöld í staðinn. Það er því eins gott að það verði veglegt um að litast í fyrramálið. Kannski gjöf og smá nammi að auki. Söguskýringuna tóku Hugrún og Signý að minsta kosti mjög trúanlega. Þær voru mjög þægar í gærkvöldi og tóku skóinn ekki persónulega. Í staðinn gæddu þær sér stóískar á uppsöfnuðum súkkulaðiforða úr dagatalinu.
þriðjudagur, desember 14, 2010
Tímamót: Signý fimm ára
Í gær átt Signý afmæli. Nú er hún orðin fimm ára og var býsna stolt af því. Við skiptum afmælinu hennar í tvennt vegna plássleysis, eins og svo oft áður. Annars vegar kíktu ættingjar í heimsókn um helgina, án formlegs boðs, bara hver á sínum tíma. Nema mamma og pabbi. Þau buðu okkur bara heim í staðinn í mat á sunnudaginn. Bara frjálslegt, þægilegt og óformlegt. Síðan var daginn eftir haldið formlega upp á tímamótin með vinum úr leikskólanum, á sjálfan afmælisdaginn.
Ákveðið var að bjóða þremur vinkonum í heimsókn eftir leikskóla. Það var bara eins einfalt og hugsast gat. Fyrir utan afmæliskökuna (súkkulaðiköku) var fyrirhöfnin bara tiltekt. Smákökur voru dregnar fram í dagsljósið, ein aukakaka (með Pekanhnetum) var keypt í Hagkaupum og svo lumað á íspinna í lokin. Signý var hæstánægð með þetta allt saman enda eru þær vinkonurnar mjög fínar saman. Eina stundina datt þeim i hug að fara að njósna um mig og fóru þá í felur úti um allt. Það var allur prakkarskapurinn. Eftirminnilegast fannst mér hins vegar að fylgjast með þeim horfa á jóladagatalið. Þær voru allar sem límdar á skjánum og rétt töluðu öðru hvoru og þá bara um efni þáttarins. Eitt skiptið álpaðist Hugrún hins vegar til að standa upp og horfa á þáttinn standandi rétt fyrir framan skjáinn. Þá sagði ein þeirra, kurteislega: "Hugrún, ekki vera fyrir sjónvarpinu". Hún var hálf hissa, steig til hliðar og sagði svo bara: "Fyrirgefðu!". Svona var þetta pent.
Signý var rosalega ánægð með veisluna og hafði orð á því hvað þetta var gaman. Þá átti hún hins vegar eftir að taka fleiri pakka sem biðu þangað til hún og Hugrún voru búnar að hátta sig og tannbursta. Þetta voru pakkar frá okkur foreldrunum og svo frá Ásdísi frænku og fjölskyldu. Í einum pakkanum var DVD-mynd: Where the Wild Things Are sem er byggð á klassískri barnabók sem stelpurnar þekkja vel. Þær voru mjög spenntar fyrir henni og fengu að lokum smá "kósí" stund fyrir framan sjónvarpið og horfðu þá á myndina í ró og næði. Bara huggulegur fimm ára afmælisdagur og Signý fór mjög sátt að sofa.
Ákveðið var að bjóða þremur vinkonum í heimsókn eftir leikskóla. Það var bara eins einfalt og hugsast gat. Fyrir utan afmæliskökuna (súkkulaðiköku) var fyrirhöfnin bara tiltekt. Smákökur voru dregnar fram í dagsljósið, ein aukakaka (með Pekanhnetum) var keypt í Hagkaupum og svo lumað á íspinna í lokin. Signý var hæstánægð með þetta allt saman enda eru þær vinkonurnar mjög fínar saman. Eina stundina datt þeim i hug að fara að njósna um mig og fóru þá í felur úti um allt. Það var allur prakkarskapurinn. Eftirminnilegast fannst mér hins vegar að fylgjast með þeim horfa á jóladagatalið. Þær voru allar sem límdar á skjánum og rétt töluðu öðru hvoru og þá bara um efni þáttarins. Eitt skiptið álpaðist Hugrún hins vegar til að standa upp og horfa á þáttinn standandi rétt fyrir framan skjáinn. Þá sagði ein þeirra, kurteislega: "Hugrún, ekki vera fyrir sjónvarpinu". Hún var hálf hissa, steig til hliðar og sagði svo bara: "Fyrirgefðu!". Svona var þetta pent.
Signý var rosalega ánægð með veisluna og hafði orð á því hvað þetta var gaman. Þá átti hún hins vegar eftir að taka fleiri pakka sem biðu þangað til hún og Hugrún voru búnar að hátta sig og tannbursta. Þetta voru pakkar frá okkur foreldrunum og svo frá Ásdísi frænku og fjölskyldu. Í einum pakkanum var DVD-mynd: Where the Wild Things Are sem er byggð á klassískri barnabók sem stelpurnar þekkja vel. Þær voru mjög spenntar fyrir henni og fengu að lokum smá "kósí" stund fyrir framan sjónvarpið og horfðu þá á myndina í ró og næði. Bara huggulegur fimm ára afmælisdagur og Signý fór mjög sátt að sofa.
sunnudagur, desember 05, 2010
Tónlist: S/H Draumur á miðnætti
Ég fór á rokktónleika í gær í fyrsta skipti í mörg ár. Þá á ég við ALVÖRU rokktónleika, sveitta, troðna, háværa. Það voru S/H Draumur sem stóðu fyrir brjálaðri stemningu á Sódómu. Gamli góði Draumurinn, sem lagði upp laupana fyrir hartnær tuttugu árum, með Dr. Gunna innanborðs. Þetta er lítið þekkt rokkhljómsveit frá miðjum níunda áratugnum sem bjó við fremur þröngan aðdáendahóp á sínum tíma. Síðan hljómsveitin hætti í kringum 1990 hefur hún öðlast goðsagnakennda stöðu í rokksögunni. Að mínu mati gáfu þeir út bestu hreinræktuðu rokkskífu sem komið hefur út hér á landi. Það var árið 1987 þegar platan Goð kom út og nú stóð til að endurflytja hana í heild sinni ásamt öðrum lögum sem gefin voru út bæði á undan og á eftir.
Hvernig voru þá tónleikarnir? Staðurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Sódoma er á eftri hæðinni á gamla "Gauknum" fyrir þá sem það þekkja. Hann er þröngur, sem er bæði kostur og galli þegar rokktónlist er annars vegar. Hins vegar fannst mér ægilegt að það skuli ekki vera boðið upp á fatahengi! Þarna voru inni menn í jakkafötum eða frökkum í kófinu, af því þeir gátu ekki annað. Ég meina, hvað áttu þeir að gera? Það var kalt úti. Ömurlegt. Ég var upphaflega í þykkri peysu utan yfir síðerma nærbol og regnjakka þar yfir. Þegar í ljós kom að staðurinn vildi ekki þjónusta mig að þessu leyti stökk ég aftur út, skokkaði í fimm mínútur út í bíl, og kastaða heitari klæðunum af mér þar. Kom skokkandi til baka á síðerma nærbolnum. Heitur af hlaupunum, til í smá rokk.
Það fór ekkert illa um mig, sem betur fer, en hljómburðurinn hefði mátt vera betri. Það var dúndrandi árás fyrir skilningarvitin að standa uppi við sviðið. Þangað fór ég strax og naut mín afar vel en dró mig hins vegar í hlé til að hvíla eyrun aðeins. Síðasta hálftíman var ég hins vegar kominn til að vera og hentist fram og til baka með öðrum jafn áköfum aðdáendum sveitarinnar. Það var ekkert smá kraftur í bæði bandinu og áhorfendum! Gamla góða "slammið" tók sig upp í einhverri dýrðlegri nostalgíu uppi við sviðið. Allt í kring voru kunnugleg andlit, bæði persónulegir kunningjar og vinir auk andlita sem ég man eftir frá þeim tiíma þegar ég sótti rokktónleika reglulega. Sama gamla grúppan. Hljómsveitin sjálf stóð sig líka vel þrátt fyrir að það hafi vantað örlítið upp á snerpuna frá í gamla daga en var að mínu mati aukaatriði í sjálfu sér. Það var staðurinn og stundin sem stóð upp úr. Og sjálf tónlistin.
Á leiðinni út staldraði ég við á þröskuldinum og spjallaði örlítið við dyravörðinn. Honum varð starsýnt á uppgufunina sem stóð upp úr hvirflinum og hrópaði hátt: Heyrðu, það bara rýkur upp úr þér!! Þannig gekk ég funheitur í áttina að bílnum, gegnum frostkalt loftið, klukkan orðin eitt. Daginn eftir verkjaði mig hér og þar í líkamann og suðið yfirgaf ekki eyrun næsta sólarhringinn.
Hvernig voru þá tónleikarnir? Staðurinn var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Sódoma er á eftri hæðinni á gamla "Gauknum" fyrir þá sem það þekkja. Hann er þröngur, sem er bæði kostur og galli þegar rokktónlist er annars vegar. Hins vegar fannst mér ægilegt að það skuli ekki vera boðið upp á fatahengi! Þarna voru inni menn í jakkafötum eða frökkum í kófinu, af því þeir gátu ekki annað. Ég meina, hvað áttu þeir að gera? Það var kalt úti. Ömurlegt. Ég var upphaflega í þykkri peysu utan yfir síðerma nærbol og regnjakka þar yfir. Þegar í ljós kom að staðurinn vildi ekki þjónusta mig að þessu leyti stökk ég aftur út, skokkaði í fimm mínútur út í bíl, og kastaða heitari klæðunum af mér þar. Kom skokkandi til baka á síðerma nærbolnum. Heitur af hlaupunum, til í smá rokk.
Það fór ekkert illa um mig, sem betur fer, en hljómburðurinn hefði mátt vera betri. Það var dúndrandi árás fyrir skilningarvitin að standa uppi við sviðið. Þangað fór ég strax og naut mín afar vel en dró mig hins vegar í hlé til að hvíla eyrun aðeins. Síðasta hálftíman var ég hins vegar kominn til að vera og hentist fram og til baka með öðrum jafn áköfum aðdáendum sveitarinnar. Það var ekkert smá kraftur í bæði bandinu og áhorfendum! Gamla góða "slammið" tók sig upp í einhverri dýrðlegri nostalgíu uppi við sviðið. Allt í kring voru kunnugleg andlit, bæði persónulegir kunningjar og vinir auk andlita sem ég man eftir frá þeim tiíma þegar ég sótti rokktónleika reglulega. Sama gamla grúppan. Hljómsveitin sjálf stóð sig líka vel þrátt fyrir að það hafi vantað örlítið upp á snerpuna frá í gamla daga en var að mínu mati aukaatriði í sjálfu sér. Það var staðurinn og stundin sem stóð upp úr. Og sjálf tónlistin.
Á leiðinni út staldraði ég við á þröskuldinum og spjallaði örlítið við dyravörðinn. Honum varð starsýnt á uppgufunina sem stóð upp úr hvirflinum og hrópaði hátt: Heyrðu, það bara rýkur upp úr þér!! Þannig gekk ég funheitur í áttina að bílnum, gegnum frostkalt loftið, klukkan orðin eitt. Daginn eftir verkjaði mig hér og þar í líkamann og suðið yfirgaf ekki eyrun næsta sólarhringinn.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)