Þrítugasti apríl er ekki bara afmælisdagur Hugrúnar. Hollendingar halda upp á Drottningardaginn, þjóðhátíðardag sinn, sama dag (og fyrir þá sem ekki vita geta Hugrún og Signý rakið ættir sínar þangað gegnum mig). Við ætluðum að kíkja saman á snittur og veitingar í boði Hollenska ræðismannsins en komumst að því að boðinu hafði verið flýtt um einn dag af því að ræðismaðurinn vinnur ekki um helgar! Sérkennilegt, finnst mér. Sama dag og boðið var haldið var aldeilis mikið um að vera í Englandi því einmitt þann dag voru þau William og Kate gefin saman hátíðlega. Það var því mikið rætt um drottningar þessa dagana einmitt þegar Hugrún kom heim með afmæliskórónuna sína úr leikskólanum. Þegar afmælisveislan var að baki heyrði ég í Hugrúnu syngja lagbút á meðan við Vigdís tókum til. Lagið var: "Daginn í dag, dagin í dag, gerði Drottinn Guð...." og svo framvegis. En eitthvað hafði textinn skolast til:
Daginn í dag
Daginn í dag
Gerði Drottningu,
Gerði Drottningu
Þetta var eiginlega bara vel við hæfi. Svo fórum við saman eftir afmælisveisluna niður í bæ að kaupa núðlur. Við ákváðum að veita okkur smá skyndimat á meðan Vigdís snurfusaði heimilið eftir veisluna. Ég tók sem sagt stelpurnar báðar með og var um það bil að fara að leggja bílnum á Hverfisgötunni þegar heyrðist í Signýju:
"Pabbi, varst þú til í Gamla daga?".
Hún er alltaf eitthvað að pæla og í þetta skiptið var mér svarafátt fyrst í stað. Hugtakið er svo afstætt. Ég ákvað því að gefa henni einfalt svar: "Nei, Signý. Ég var ekki til í Gamla daga". Þá svaraði hún undir eins: "Ekki ég heldur".
Auðvitað.
Hugrún bætti síðan við snarlega: "Og ekki ég heldur - og ekki mamma heldur" svona til staðfestingar. Þetta gerir hún yfirleitt. Þegar einhver byrjar að telja saman fjölskyldumeðlimi þá klárar hún dæmið og telur alla upp, svo það sé ábyggilega enginn útundan.
Við vorum sem sagt "ekki til" saman, í Gamla daga. :-)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þær eru alveg magnaðar.
Svona sungu þær þetta líka hjá mér
og ég vildi ekki leiðrétta þær ...
Það er mun skiljanlegra á þessum aldri að syngja ...gerði drottningu en gerði Drottinn Guð ...
þótt hitt sé auðvitað réttur texti.
Kv.Begga frænka
Það kemur seinna.
Þetta er bara krúttlegt.
Skrifa ummæli