sunnudagur, ágúst 28, 2011

Upplifun: Fyrsta skólavika Signýjar

Fyrsta skólavikan er að baki og hún gekk eins og í sögu. Fyrsti dagurinn var svolítið skrítinn fyrir mig sérstaklega, frekar en Signýju. Ég stóð í biðröð með henni ásamt öðrum börnum og foreldrum. Við vissum ekki nákvæmlega hvað var í vændum. Ég hafði sjálfur tekið mér frí í fyrstu kennslustund í vinnunni minni því ég átti allt eins von á því að eiga einhver samskipti við kennara svona fyrsta daginn. Krakkarnir söfnuðust saman í röð og biðu í ofvæni. Við foreldrarnir skiptumst á eftirvæntingarsvipbrigðum en létum sem minnst á óöryggi. Signý hélt sig í kunnuglegum félagsskap úr leikskólanum sínum (þrír sem fylgja henni þaðan) og börnin báru saman skólatöskur í snyrtilegri röð. Svo opnuðust dyrnar og glaðlegar en rólegar raddir kennaranna sögðu: "Jæja, gaman að sjá ykkur. Þá er fyrsti dagurinn loksins byrjaður. Allir komnir í röð. Nú má litla fólkið koma inn fyrir en stóra fólkið - foreldrar og aðstandendur - verða að bíða". Svo fylgdumst við með litlu krílunum okkar rölta inn eins og ekkert væri. Signý leit ekki einu sinni um öxl þegar röðin fór af stað. Svo hurfu þau inn í þetta lokaða rými. Nokkrir vel valdir kennarar voru fengnir til að rölta um og taka myndir af þessari stóru stund í lífi barnanna. Einn var með kvikmyndavél við innganginn og gómaði barnaskarann á leið sinni inn fyrir í fyrsta skipti. Annar kennari, skólastjórinn reyndar, rölti um sposkur á svip og tók myndir af áhyggjufullum foreldrum. Síðan sagði hann að endingu í stíðnislegum tón rétt áður en hann lét sig hverfa inn aftur: "Þetta verður allt í lagi!"

Það var svolítið undarlegt spennufall sem fylgdi því að horfast í auga við tómhenta foreldra á lóðinni sem vissu ekki hvort þeir ættu að fara eða vera. Ég viðurkenndi að hingað til hafi Signý verið kvíðin (fyrir kynningu og skólasetningu nokkrum dögum fyrr) og ég hafi þá verið til taks en núna þegar ég vissi að hún ætti eftir að vera í skólanum á eigin spýtur þá var ég kvíðin en ekki hún. Ein talaði um að börnin væru vön því sem væri í vændum því það væri alltaf svo mikið prógramm í leikskólanum. Þau væru sjóaðri en maður héldi. Svo rölti maður burt og sá foreldrahópinn dreifast vandræðalega á eftir sér. Einhvern veginn held ég að þau hafi átt von á meiri aðlögun - fyrir sig kannski.

Þegar ég sótti Signýju seinna um daginn var Signý brött og dundaði sér við að mála mynd. Hún vildi ekki standa á fætur fyrir en verkinu væri lokið. Hún lét ekkert bera á þreytu en viðurkenndi þó eftir á að þetta hefði verið "erfitt" og að hún væri "þreytt". Svo var þetta auðveldara og auðveldara með hverjum deginum. Á föstudaginn var sótti ég Signýju áður en ég fór til Hugrúnar. Hún Signý var mjög kát með það að heilsa upp á yngri vini sína úr leikskólanum. Hún virtist helst vilja vera á báðum stöðum. Hugrúnu finnst hins vegar erfitt að sjá á eftir systur sinni. Nú er hún "ein" í leikskólanum og finnst það pínu erfitt hlutskipti. En það á eftir að venjast hratt.

þriðjudagur, ágúst 23, 2011

Þroskaferli: Fyrsti skóladagurinn

Á morgun er stór dagur í lífi Signýjar. Hún byrjar í grunnskóla. Við erum búin að kynnast skólanum í áföngum, mætti í viðtal og setið skólasetningu. Á morgun er hins vegar fyrsti alvöru dagurinn. Þá verður mætt samkvæmt stundaskrá og hún verður ein heilan dag í skólanum. Mér finnst þetta eiginlega nokkuð brött byrjun en kennararnir sem taka á móti henni eru ákaflega traustvekjandi og svo er hún með nokkra vini í bekknum sér til halds og trausts. Ég er hálf kvíðinn, satt að segja, en líka spenntur fyrir því að vita hvernig gengur þegar ég sæki hana á morgun.

þriðjudagur, ágúst 09, 2011

Pæling: Hvenær verður jökull að Snæfelli?

Um daginn var heiðskírt og gullfallegt veður. Ég tók eftir áberandi glitskýi rétt til hliðar við Snæfellsjökul. Þetta var mjög áberandi bæði vegna þess hve "sjálflýsandi" skýið var og að það var nánast eina skýið ofan sjóndeildarhrings, svona skemmtilega staðsett við hliðina á jöklinum sem blasir við okkur borgarbúum. Mikill fjöldi ferðamanna raðaði sér upp eftir strandlengjunni á leið minni eftir Sæbrautinni gagnteknir af undrinu - flestir uppteknir af því að góma fyrirbærið á mynd. Því miður var ég ekki með vél á mér en átti von á finna eitthvað af þessum myndum á netinu. Ég hef enga fundið enn. Myndir af glitskýjum er hins vegar gaman að gúggla.

Ég tók eftir því í leiðinni hvað jökullinn á Snæfellsnesi hefur hopað undanfarin ár. Það sést bara í klöppina langleiðina upp á topp! Hvað verður um Snæfellsjökul eftir nokkra áratugi? Hann verður væntanlega ekki svipur hjá sjón miðað við það sem nú er. Og hvað verður hann þá kallaður þegar snjóa leysir á sumrin? Þá verður hann ekki lengur jökull, samkvæmt skilgreiningunni. Verður þá bara talað um fellið sem slíkt? Lógískt væri að tala um Snæfell en ekki Snæfellsjökul. En nú er annað Snæfell fyrir austan. Til að forðast misskilning yrði að tilgreina um hvort fellið væri að ræða. Snæfell við Lónsöræfi og Snæfell á Snæfellsnesi. Þá ber nesið loksnis nafn með rentu.

Þá veltir maður fyrir sér hvað Snæfellsjökull er gamall, sem slíkur. Fellið virðist nefnilega vera upprunalegra heit (enda er nesið nefnt eftir því en ekki jöklinum). Einhvern tímann á hlýskeiði - rétt eftir landnám - var mun hlýrra en nú er og kannski ólíklegt að jökullinn hafi verið til staðar, nema í mýflugumynd, sem Snæfell.

Upplifun: Eldsvoði í nágrenninu

Við vorum að spóka okkur í garðinum, stelpurnar í uppblásnu sundlauginni í steikjandi hita, ég að lesa bók í rólegheitunum og Vigdís að búa til humarsúpu (í eldhúsinu reyndar) þegar sírenuvæl heyrðist eftir nærliggjandi götu. Signý fór strax að herma eftir hljóðunum og var hálfkvartandi yfir þeim, skildi ekkert hvernig á þeim stæði. Fleiri hljóð fylgdu á eftir og staðnæmdust í nokkurra húsa fjarlægð. Okkur var hreint ekki sama því hljóðið líktist slökkviliðinu. Okkur Vigdísi datt í hug að hringja í Ásdísi systur hennar af því hún býr uppi á fjórðu hæð nokkru vestar og hefði getað sagt okkur hvað væri á seyði. Ekki náðist í hana. Mér datt í hug að skjótast inn og kíkja á netið þegar við fundum reykjarlykt og heyrðum brothljóð í rúðu. Þetta var svolítið skuggalegt að heyra. Hljóðin og lyktin bárust vel yfir í garðinn okkar en við sáum ekkert. Við krökkluðumst inn á þessum tímapunkti og lokuðum öllum gluggum enda aldrei að vita nema stækan reyk leggi yfir svæðið. En sem betur fer þróaðist það ekki á þann veg. Netið greindi frá bruna í risíbúð á Nesveginum (samhliða Granaskjólinu) og það gekk víst vel að slökkva eldinn.

Neysla: Cocoa Puffs á raðgreiðslum

Ég kíkti í bakarí í hverfinu um daginn og var verulega sjokkeraður á verðlagningunni á aukavarningnum sem þeir selja. Þar er jú mjólk og svona ýmislegt oná brauð . En mig rak í rogastans þegar ég sá Kókópöffs á 1200 krónur! Kornflexið og Seríósið 1100! Mig minnti að þessir morgunverðarpakkar væru á bilinu 600-750 krónur og fór fljótlega á eftir að kanna það sérstaklega í Hagkaup - og það stóð heima. Það er nú ekki langt síðan maður hristi hausinn yfir því þegar þetta fór yfir fjögurhundruðkallinn, en þetta er nú einum of. Eins gott að hugsa sig tvisvar um þegar maður fer út í búð þessa dagana.

laugardagur, ágúst 06, 2011

Daglegt líf: Haustmyndir og Garðskagastopp

Fyrir utan vel heppnaða ferð með Jóni Má og fjölskyldu um Suðurnesin norðanverð þá höfum við í Granaskjólinu haldið okkur mikið til innandyra undanfarið. Suðurnesjaferðin var reyndar mjög eftirminnileg þrátt fyrir mikla rigningu. Þar stendur upp úr frábært stopp í Garðinum á lóð Garðskagavita. Þar eru tveir mjög ólíkir vitar, hannyrðasafn, byggðasafn og frábært kaffihús með útsýni yfir hafið. Þar brögðuðum við á bestu bláberjaskyrtertu í manna minnum.

Þetta hefur verið vætutíð að undanförnu eftir mjög þurrt sumar og Þá kom sér nú vel að vera með myndbandabunkann sem ég minntist á síðast. Margar þeirra vorum við að sjá í annað eða þriðja skiptið. Sem sagt, myndir í uppáhaldi, margar hverjar. Ég stikla aðeins yfir þær og stjörnumerki þær allra bestu :-)

About a Boy
A History of Violence
Festen*
Fame
Tilsammans
Thelma & Louise
Paris, Texas*
Big Lebovsky
Fargo*

Síðustu tvær eru úr smiðju Coen bræðra og sú þriðja bíður áhorfunar í bunkanum: Oh Brother Where Art Thou?