Það er heilmargt búið að vera í gangi í Granaskjólinu þrátt fyrir skort á bloggfærslum. Kannski er það einmitt merki þess að við höfum nóg að gera því þá hefur maður lítinn tíma til að skrifa.
Nokkrar praktískar fréttir: Vigdís skipti um vinnustað. Hún lét flytja sig yfir á Landakotið frá gamla Borgarspítalanum þar sem hún hefur unnið frá því áður en við kynntumst. Það hefur með sér í för mikla hagræðingu því núna er vinnustaðurinn í göngufæri að heiman. Fram til þessa hefur verið mikið um skutl fram og til baka. Vigdís þurfti alltaf að mæta fyrir átta en stelpurnar í leikskólann eftir átta þannig að ég hef þurft að keyra gegnum morgunumferðina og til baka aftur í Vesturbæinn áður en ég fór sjálfur í vinnuna. Þetta mun nú breytast. Vonandi felur þetta líka í sér umtalsverðan sparnað því bensínið kostar fúlgur fjár, eins og menn vita.
Önnur praktísk frétt er sú að netsambandið á heimilinu er loksins komið í lag. Ég er eiginlega enn þá að venjast þeirri tilhugsun því það er búið að vera í lamasessi svo lengi. Sérfræðingar Vodafone hafa legið yfir þessari nettengingu okkar og ekki fundið neina lausn hingað til þrátt fyrir löng símtöl og vangaveltur - þar til ég hringdi í þá um daginn og lagði inn fyrirspurn. Var ekkert viss um að þeir myndu líta á hana yfir höfuð. Svo gerðist það bara: Bingó! Einn daginn var netsambandið orðið stöðugt og gott. Þetta var eiginlega of gott til að vera satt. Það er fyrst núna sem ég þori að tala um það hér formlega, hjátrúarfullur eins og maður er, nú þegar maður býr yfir tveggja vikna reynslu af stöðugu netsambandi.
Að lokum er rétt að minnast á það að nú fer hver að verða síðastur að gæða sér á ferskum "barnagulrótum" úr garðinum. Við höfum ekki enn komist til þess að selja þær fyrir framan Melabúðina, þrátt fyrir tilskilin "leyfi" og góðan vilja. Veðrið er bara búið að vera svo rysjótt og fráhrindandi. Í dag vorum við meira að segja með tvær góðar vinkonur Signýjar í heimsókn í því skyni að selja með okkur. Þær voru fullar tilhlökkunar, en allt kom fyrir ekki. Það var ekkert huggulegt við það að selja í þessu veðri. Vinkonurnar hjálpa okkur bara seinna. Á meðan mega aðrir enn næla sér í ferskan bita úr garðinum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Flott er ...allir hafa gott af að stokka upp svona endrum og eins og sérstaklega þegar það einfaldar daglega lífið svona.
Já maður er svo hrikalega háður því að vera í netsambandi...ég myndi ekki þola við!!!!
'Eg sé fyrir mér búðakonuna
Signýju fyrir mér að selja ..
þessi elska.
Begga frænka.
Skrifa ummæli