föstudagur, janúar 28, 2005
Fréttnæmt: Ferðalag til Kanarí
Í vikunni ákváðum við Vigdís að nýta páskafríið til að ferðast saman til útlanda. Það höfum við ekki gert síðan vorið 2003 (þá fórum við til Færeyja og Hjaltlandseyja með Norrænu). Við vorum ekki alveg samstíga með okkar hugmyndir lengi vel. Ég hafði borgarbrölt í huga, með tilheyrandi kaffihúsum og öðrum menningarafkimum. Eitthvað einfalt. Vigdís lagði hins vegar áherslu á að finna stað þar sem við getum slappað af saman í sumri og sól. Kanarí. Mér var meinilla við hugmyndina um tíma. Ég var þarna í vel heppnuðu fríi fyrir nokkrum árum en fannst ég hafa blóðmjólkað staðinn á innan við einni viku. Við verðum enn lengur en það, tæpar tvær. Eftir að hafa upphugsað fríið sem hreina slökun þá er ég hins vegar orðinn mjög sáttur. Það er hægt að hvíla sig vel á Kanarí. Eitt skilyrði varð þó að fylgja með: Það verður að brjóta upp einhæfa dvöl á Ensku ströndinni með því að fara í smá ævintýraferðir inn á milli, fjallgöngur, strætóferðir, skipulagða túra. Þarna allt í kring eru mjög áhugaverðir staðir og eyjur. Ein þeirra heitir Lanzarote og er eins og heit útgáfa af Íslandi (Sjáið 360 gráðu víðmyndir frá Lanzarote). Uppi á miðhálendi Kanaríeyjunnar (Gran Canaria) er glæsileg fjallasýn og merkileg afdalaþorp. Svo er á Ensku ströndinni besta veitingahús sem ég hef á ævi minni borðað á sem heitir Barbados. Þetta verður fínn kokteill. Nú er bara að finna góða bók, kaupa sér sundskýlu og rifja upp spænskuna.
þriðjudagur, janúar 25, 2005
Netið: Uppfærsla. Umfjöllun um hálkutækni
Nú er snjórinn á undanhaldi og klakabráðin tekur við með pollum og stórvarasamri hálku. Ég hef lengi stært mig af því að vera "sleipur á svellinu" í merkingunni að ég detti sárasjaldan og þá aðeins mjúklega. Þetta er viss kúnst sem ég lærði í fótboltanum í gamla daga, á svellköldum völlum. Það er ekki sama hvernig maður ber sig að. Ég tók mig því til og skrifaði niður nokkur heillaráð fyrir þá sem óttast aðstæður þessa dagana og setti á heimasíðuna mína (hálkubjörg). Margt af því sem ég tel upp á þessari síðu er augljóst en þegar á heildina er litið reynist það vera ansi margbrotið samspil sem á sér stað þegar við höldum jafnvægi. Það þarf allt að ganga upp ef maður á að vera sleipari en svellið.
mánudagur, janúar 24, 2005
Upplifun: Útsýnisturn yfir Breiðholtið
Aftur fór ég með Birki í bíltúr um helgina. Eftir ýmiss konar brölt datt honum sem snöggvast í hug að kíkja upp í Blásali. Ég spurði hann að því hvað þetta væri en hann svaraði því að þetta væri bara "hús". Ég lét hugdettuna eftir honum og fattaði þegar á staðinn var komið hvers vegna hann hafði áhuga á þessu tiltekna húsi. Þetta er hæsta blokkinn fyrir botni Kópavogsins og blasir við Breiðholtinu í öllu sínu veldi. Sjálfkrafa fór maður að gæla við þá tilhugsun hvað það væri nú gaman að rölta þarna inn í útsýnistúr upp á efstu hæð, en það gerir maður samt ekki. Þegar við vorum búnir að skyggnast um í andartak sáum við hins vegar merkimiða við innganginn sem á stóð "Opið hús". Þetta var merkt einhverri fasteignasölu. Tækifærið blasti þarna við og við vorum ekki lengi að grípa það. Íbúðin sem var til sýnis var lítil og hugguleg, eitthvað sem Birki fannst hæfa sjálfum sér ágætlega í framtíðinni, en útsýnið var hreint frábært. Geggjað að skoða Breiðholtið úr þessari átt en að sama skapi er hálf dapurlegt til þess að hugsa að fyrir tíu árum spásseraði maður þarna um í móanum tínandi ber.
þriðjudagur, janúar 18, 2005
Upplifun: Leikhústöfrar
Ég minntist á að síðasta helgi hefði verið viðburðarík. Eitt af því sem stóð upp úr var leiksýningin Edit Piaf. Ég fór á hana með Bryndísi systur og Vigdísi. Þetta er ótrúleg sýning. Þetta er mesta leikhúsupplifun mín í fjöldamörg ár. Ég þarf líklega að leita aftur til Hársins, árið 1994, til að finna eitthvað sambærilegt en þá kom fram fjöldinn allur af nýjum leikurum í mjög innblásinni uppfærslu Baltasars Kormáks. Í þetta skiptið er það Brynhildur Guðjónsdóttir sem tendrar salinn með ótrúlega blæbrigðaríkum leik. Brynhildur syngur með ólíkindum vel, með sannfærandi frönskum framburði, og fyllir salinn með opinni og glæsilegri rödd. Til þess notar hún notar allan kroppinn í tjáninguna og gefur að því er virðist takmarkalaust af sér til enda, allt frá því hún er saklaus og óframfærin smástelpa, yfir í glæsilega stórstjörnu þar til hún syngur sitt lokalag, hrum og veikluleg, undir lokin. Þetta var ótrúlega töfrandi sýning, í bókstaflegri merkingu þess orðs, því í hvert sinn sem Brynhildur lék Edit á sviði, syngjandi fyrir sína áhorfendur, breyttumst við leikhúsgestir í raunverulega áhorfendur á tónleikum Edit Piaf. Leiksýningin og raunveruleikinn runnu saman.
mánudagur, janúar 17, 2005
Upplifun: Svaðilför á svellbunka
Góð og erilssöm helgi er að baki. Ég lærði meðal annars að það er mjög varasamt að fara á ónegldum bíl út fyrir bæjarmörkin í frosti. Ég var á jeppa, gott og vel, en eins og vegirnir voru klakabrynjaðir í Heiðmörkinni um helgina þá tel ég mig heppinn að sleppa heim með óskemmdan bíl og heill á húfi. Ég var semsagt í saklausum bíltúr með yngri frænda mínum og ókum við sem leið lá frá Rauðhólum í átt að Vífilsstöðum. Ferðin sóttist hægt því vegurinn var spegilsléttur á köflum. Þegar við vorum komnir langleiðina á áfangastað lentum við í alvarlegri sjálfheldu í allhárri og ískyggilegri brekku. Ég fann hvernig bíllinn fór að renna til baka stjórnlaust. Hann stöðvaðist sem betur fer á miðri leið, nóg fyrir mig til að stíga út og gaumgæfa hættuna. Við vorum staddir í miðri ísilagðri blindhæð og urðum að beina bílnum siglandi aftur niður vegna hættunnar á að fá á okkur bíl að ofan. Mér leist ekki betur á stöðuna en svo að ég benti frænda mínum á að bíða fyrir utan - ég tæki þessa áhættu einn. Ég skoðaði stöndugustu vegkantana og vonaðist til að geta beint bílnum þangað til að ná festu. Bíllinn lét hins vegar illa að stjórn. Hann virtist um stund ætla að snúast mér í hag en fór svo skyndilega hálfhring til baka. Við það var ekki umflúið að bakka niður (eða renna niður afturábak öllu heldur), sem mér tókst farsællega. Ég fann þá hversu spenntur ég var orðinn höndunum. Myrkur var að skella á og ekki annað í stöðunni en að læðast sömu leið til baka, rúman klukkutímaakstur í fyrsta gír. Á leiðinni sáum við annan jeppa utan vegar með nefið ofan í skurði og tvo eigendur hrista höfuðið heilu og höldnu.
sunnudagur, janúar 09, 2005
Netið: National Geographic og tsunami
Nú er frekar langt síðan ég skrifaði síðast og í millitíðinni hefur ríkisstjórnin lagt fram 150 milljónir sem fara í neyðarhjálpina í Indlandshafi. Þetta er farið að verða sómasamlegt, - að minnsta kosti í samanburði við þessar fimm sem upphaflega var ráðstafað. Öll heimsbyggðin virðist heltekin af þessari nýjustu ógn náttúrunnar. Hún hefur sannarlega verið við lýði frá ómunatíð en aldrei fyrr hefur hún "hrifið" vesturlandabúa með jafn stórtækum hætti og nú. Öll vorum við græn fyrir jól. Flóðbylgjur voru þá bara fjarlæg dómsdagsspá. Núna erum við skyndilega miklu upplýstari um hættuna og ekki síður um rétt viðbrögð við henni. Heimurinn hefur einfaldlega vaknað til vitundar um fyrirbærið flóðbylgjur. Ég er sjálfur jafn heltekinn og aðrir og var fljótur að slá upp "tsunami" þegar ég uppgötvaði fyrr í dag frábæra heimasíðu National Geographic. Þar er virkilega ítarlegur fróðleikur um sögu flóðbylgna, eðli þeirra og viðbrögð. Smellið bara á "Full site index" og því næst á "Search our Publications". Þar er hægt að komast í kynni við allt það sem National Geographic skrifar um, sem er ansi mikið og margt.
sunnudagur, janúar 02, 2005
Pæling: Eru Íslendingar örlát þjóð?
Maður er eiginlega búinn að vera of lamaður yfir heimsfréttunum til að fást til að tjá sig á netinu um sitt litla líf. Reyndar erum við Vigdís búin að liggja í flensu yfir hátíðirnar svo það er ekki ýkja margt til frásagnar. Reyndar hef ég mína skoðun á framlagi Íslendinga til neyðarhjálparinnar í Bengalflóa. Ýmis fyrirtæki, stofnanir og opinberir aðilar hafa reyndar lagt drjúga hönd á plóginn en þjóðarsöfnunin finnst mér hafa verið fremur bágborin. Rauði krossinn, af sinni alkunnu kurteisi, hefur þakkað rausnarlegt framlagið, sem hljóðar upp á 25 milljónir króna, en skoðum þetta nánar. Þetta þýðir að aðeins um 25 þúsund manns hafi lagt lítinn þúsundkall í púkk. Þetta er innan við hundraðkall á hvert íslenskt mannsbarn. Við vitum að sannur rausnarskapur krefst fórna. Fyrir þjóð sem hefur efni á að eyða fjögurhundruð milljónum í rakettur á sama tíma, að ótöldum seðlunum sem fara í veisluhöld og áfengiskaup í meðlæti, svo að ekki sé minnst á sjálf jólin og þá eyðslu sem á undan er gengin, þá er tæpur hundraðkall á mann ekki mikill fórnarkostnaður. Hreykjum okkur ekki of hátt á ímynduðu örlæti. Við fæddumst með silfurskeið í munni, munum það, langt í burtu frá heimsviðburðunum og höfum það gott, sama hvað á dynur. Hundraðkallinn er ekki nema málamyndagreiðsla. Þetta er friðþæging til að fá að halda áfram dagsdaglegu sukki. Þetta er veruleiki flestra og kannski ekkert óeðlilegt við það, svo lengi sem maður kallar það ekki örlæti.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)