föstudagur, september 30, 2005

Daglegt líf: Innkaupaferð í Kringlunni

Einstöku sinnum gerum við Vigdís okkur markvissa innkaupaferð, eins og í gær þegar við skelltum okkur í Kringluna á löngum fimmtudegi. Við grömsuðum eitthvað í H&M og keyptum helling af fötum á áfar góðu verði. Jack & Jones hefur hins vegar löngum verið uppáhaldsbúðin mín enda hefur þeim í gegum tíðina tekist að koma mér skemmtilega á óvart. Það hélt ég þangað til í gær. Ég var sem sé búinn að kaupa helstu nauðsynjar á sjálfan min hjá J&J þegar ég álpaðist inn í Bison með Vigdísi. Það var eins og fötin þar hafi beinlínis verið að bíða eftir manni. Ég var líka minnugur þess að síðast þegar ég gekk þarna inn keypti ég mjög góð föt. Jafnvel nærbolina sem ég keypti þar hef ég notað meira en aðra. Ég lét því slag standa og neyddist eiginlega til að læðast út í Íslandsbanka til að kanna innistæðuna á debetkortinu mínu. Mér var eiginlega hætt að lítast á blikuna en hugsaði til þess í leiðinni að líklega þarf ég ekki að kaupa mikið af fötum næstu mánuðina.

sunnudagur, september 25, 2005

Pæling: Pictionary tungumál

Við Vigdís skelltum okkur í sumarbústað um helgina og eyddum tímanum með vinum og vandamönnum í gönguferðum og spilamennsku, eins og gerist og gengur í svona sveitadvöl. Pictionary vakti sérstaka lukku og þróaðist hjá okkur smám saman tungumál sem helgað var þessari spilamennsku. Spilið gengur sem sé út á að tveir meðspilarar skiptast á að teikna mynd af einhverju fyrirbæri, hlut eða hugmynd, á meðan hinn giskar á hvað það er sem verið er að draga fram. Þar sem teiknarinn má ekki gefa neina vísbendingu öðruvísi en með teikningu, hvorki með tölum né bókstöfum, og tíminn afar takmarkaður býður leikurinn upp á mikið óðagot og læti. Hér eru markviss vinnubrögð lykillinn að árangri. Við leyfðum sem sé ákveðin grunnsamskipti.

Við ákváðum að leyfa leiðandi spurningar þannig að hægt er að spyrja strax í upphafi hvort um lýsingarorð eða nafnorð er að ræða og svo framvegis. Teiknarinn má sem sagt gefa já og nei til kynna þannig að spyrjandinn gæti þess vegna verið í spurningaleiknum "hvert er fyrirbærið" nema hvað, hann fær til baka teiknaðar vísbendingar. Þegar viðkomandi er að komast á sporið má teiknarinn jafnframt gefa bendinguna "komdu" og á sama hátt bendingu um "stopp" þegar farið er í vitlausa átt. Svo komumst við að því að þegar rétta "merkingin" er komin en svarið reynist samt sem áður annað orð, kannski langsótt samheiti, er nauðsynlegt að geta gefið það til kynna með einhverjum hætti. Í þeirri stöðu gáfum við merkið "samasem" með vísifingri og löngutöng (líkist vaffi). Þá er áherslan lögð á að finna rétt "orð" eða frasa fremur en merkingu. Til að gera spilið enn markvissara leyfðum við kassatáknkerfi þar sem einn kassi táknar svar sem felur í sér eitt orð, tveir kassar tákna tveggja orða svar og svo framvegis. Tveir samliggjandi kassar merkja samsett orð. Sem sagt, með þessu táknkerfi er hægt að spila spilið mjög markvisst og elta uppi nánast ómöguleg orð. Það getur verið ótrúlega skemmtilegt.

föstudagur, september 23, 2005

Fréttnæmt: Steini segir “fokk jú” í Fréttablaðinu

Ég mæli með því að Fréttablaðið verði lesið gaumgæfilega núna um helgina. Mér skilst nefnilega á Vísindavefnum að þar muni birtast lítil mannfræðigrein sem ég skrifaði nýlega um “puttann” svokallaða (sem menn nota í ögrunarskyni um allar jarðir). Uppruni hans og tengsl við önnur sambærilega tákn er rakinn í greininni.

Góða helgi :-)

mánudagur, september 19, 2005

Daglegt líf: Tvö kornabörn

Við Vigdís höfum ekki afrekað mikið síðustu daga annað en það að sinna heimilinu og heilsa upp á vini og vandamenn. Upp úr standa þó tvær heimsóknir þar sem kornabörn léku aðalhlutverkin. Hjá Bjarti og Jóhönnu dormaði veraldarvanur drengur (að því er virtist) sem gjóaði til okkar öðru auganu. Vigdís fékk að halda honum um stund og við það brast hann í myndarlegan hlátur, öllum til undrunar. Þetta á víst ekki að vera hægt á þessum aldri. Nokkrum dögum síðar (reyndar bara í gær) fórum við til Sigga bróður og þurftum þar að tipla á tánum vegna þess að drengurinn á þeim bæ var nýlega sofnaður. Hann er fyrirburi og á enn nokkuð í land með að braggast almennilega en virðist þó vera að ná sér eftir erfiða törn undanfarna daga. Ónæmiskerfið er sérlega viðkvæmt hjá fyrirburum en það styrkist jafnt og þétt eftir því sem á líður. Vonandi var heimsókn okkar bara liður í því þroskaferli.

laugardagur, september 10, 2005

Tónlist: The Pixies í sveitabúningi.

Ég varð fyrir undarlegri tónlistarupplifun í gær. Fór á Kaffi Hljómalind, eitthvað að grúska, og heyrði að þeir voru að spila Pixies, Surfer Rosa, eina af mínum uppáhalds plötum. Ég er vanur að hlusta á þetta á tyllidögum, hækka vel í og fara í einhvers konar ham sem ég kann ekki að lýsa hér. Tónlistin er kraftmikil og ögrandi. Það hvarflaði að mér rétt sem snöggvast að fara á annað kaffihús því ég kunni ekki alveg við þetta í "Easy Listening" gírnum. En ég sat áfram og fann smáma saman að þetta var nú bara notalegt. Maður þekkir tónlistina það vel að hún einfaldlega virkar, svona eða hinsegin. Kannski er þetta eins og með Bítlana, hugsaði ég með mér, sem eitt sinn voru ögrandi og djarfir en eru í dag notaðir á látlausan hátt sem veggfóður. Pixies eru komnir á þann sama stall. Sameiningartákn ákveðins hóps sem man eftir "byltingunni". Ég velti þessu eitthvað fyrir mér áfram en hélt svo áfram að lesa og naut þess bara að vera hluti af þessu samfélagi, með Pixies seytlandi í bakgrunni, fyrst Surfer Rosa og svo fyrsta platan, Come on Pilgrim. Þá fór ég að heyra tónlistina á annan hátt en ég var vanur. Þeir minntu mig allt í einu á ameríska þjóðlagadiskinn sem ég tók að láni um daginn (sjá síðustu færslu). Bjagaður og ákaflega frumstæður gítarleikur minnti mig á afdala banjóleikara sem syngur meira af mætti en getu og notar til þess alla sálina. Ég heyrði einfaldlega í fyrsta skipti hvernig tónlist Pixies skírskotar til amerískrar þjóðlagahefðar eins og hún leggur sig, sprettur upp úr jörðinni, svo að segja. Ég hef alltaf séð þetta fyrir mér sem eins konar hart rokkað flamengópönk en það hafði eiginlega farið fram hjá mér hvað tónlistin er náttúruleg, afslöppuð, eðlileg og laus við öll höft. Kiddi kanína, sem eitt sinn rak plötubúð á þessum sama stað, orðaði þetta alltaf mjög hnyttið þegar hann kallaði Pixies og aðrar sambærilegar sveitir indjánarokk. Nákvæmlega það.

"Cariboooou........."

fimmtudagur, september 08, 2005

Pæling: Tónlistararfur neðansjávar

Ég kom í dag við á Borgarbókasafninu í Tryggvagötu á leiðinni heim úr vinnu. Á safninu er mjög myndarlegt safn af þjóðlaga- og heimstónlist til útláns (popp- og rokkgeirinn er ekki eins sómasamlegur). Ég tók mér eitthvað bitastætt, meðal annars disk sem heitir "The Mississippi - River of Song" með undirtitilinn "A Musical Journey Down the Mississippi). Diskurinn, sem er tvöfaldur, er gefinn út af Smithsonian Folkways. Þetta er óhemju veglegur diskur og flottur en þegar ég fór að gaumgæfa hann nánar áttaði ég mig á því að hann spannar að mestu tónlist frá því svæði sem akkúrat núna er á kafi í baneitruðu flóðvatni. Ég velti því óhjákvæmilega fyrir mér í framhjáhlaupi hversu margir tónlistarmannanna sem syngja og spila á diskinum hafi farist eða misst allt sitt í flóðinu. Sumir segja að þarna hafi horfið í heilu lagi vagga djassins, þess eina tónlistararfs sem kalla mætti séramerískan, burt séð frá öllum öðrum mannlegum harmleik.

mánudagur, september 05, 2005

Fréttnæmt: Fæðingar víða og nærri

Ekki veit ég hvað ég hef haft fyrir stafni undanfarna daga annað en það að venja mig við að vakna á morgnana og fara gegnum hefðbundinn vinnudag. Það hefur gengið nokkuð vel, satt að segja, en hugurinn hefur hins vegar verið við tvær fæðingar að undanförnu. Fyrst eignaðist Siggi bróðir sinn fyrsta son rétt fyrir mánaðarmótin (hann á nokkrar dætur fyrir) og hann var að vonum alsæll með árangurinn. Bjartur Logi og Jóhanna eignuðust líka stálpaðan dreng (eins og sjá má á heimasíðu þeirra). Það er allt að gerast. Við Vigdís áttum að vonum mjög auðvelt með að lifa okkur inn í atburðarásina undanfarna daga en lúrum þó enn á okkar. Tíminn verður víst nógu fljótur að líða.