Nú eru tæpar tvær vikur í páskafrí og eftir það vinn ég aðeins í þrjá daga áður en feðraorlofið gengur í garð. Veri það velkomið. Ég mun teygja fríið fram í sumarbyrjun og fara þá í hefðbundið sumarfrí. Næsta haust verða eftir nokkrar vikur af orlofinu mínu. Ég hef ekki enn ákveðið hvenær best sé að taka það út (hef 18 mánaða svigrúm eftir fæðinguna).
Annars eyði ég ekki miklu púðri í að hlakka til frísins því það er nóg að gera í vinnunni - flest af því mjög skemmtilegt. Til dæmis er ég að vinna þróunarverkefni í samvinnu við smíðakennarann. Við erum að þróa og smíða ýmiss konar spil og þrautir fyrir krakka. Grunnhugmyndin er sú að talsverður fjöldi nemenda hjá okkur (og í skólakerfinu yfirleitt) á erfitt með að vinna í hefðbundnu námsefni og þarf að nálgast efnið á áþreifanlegri hátt. Sem dæmi má nefna Tangram-þrautir sem falla inn í þar til gert skapalón, Sudoku-þrautir sem byggja á spjöldum sem þarf að raða saman og svo landakort sem sagað er út í við og sett fram sem púsluþraut.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli