þriðjudagur, mars 06, 2007

Þroskaferli: Farin að ganga

Í gær var merkilegur dagur í lífi Signýjar. Hún byrjaði að ganga fyrir alvöru. Hér miðast dagurinn við það að hún er farin að ganga sér til gagns (þ.e. hún gengur núna meira á milli staða en hún skríður).

Aðdragandinn hefur verið býsna langur. Hún er búin að geta staðið nokkuð lengi, allt frá í desember síðastliðnum, og virtist lengi vel bara dunda sér við það að fara upp og setjast aftur niður. Þegar hún fór á milli staða prófaði hún yfirleitt bara að taka eitt skref en varð strax eitthvað óörugg við það og lét sig síga niður á fjóra fætur jafnharðan. Undanfarnar vikur hefur hún hins vegar sífellt daðrað meira við að ganga. Hún er greinilega mjög meðvituð um að það getur verið mjög vont að detta (hefur svosem lent í því eins og aðrir). Hún er því búin að stúdera það hvernig best er að bera fyrir sig hendurnar - þegar maður fellur fram á við. Hún beinlínis slær báðum lófunum sléttum niður, mjög markvisst, eins og maður lærir í júdó. Þetta er eiginlega svolítið flott hjá henni.

Um síðustu helgi fóru gestir og gangandi að taka eftir því að hún var farin að þora að stíga nokkur skref í einu. Oftast gekk hún ofurvarlega á milli tveggja hluta, yfirleitt til hliðar með fætur sundur og saman á víxl, eins og hún væri að þreifa sig eftir einstigi. Svo var það bara í gær að hún virtist allt í einu mjög örugg og fór að ganga fram á við sallaróleg eins og ekkert væri sjálfsagðara. Göngulagið minnti svolítið á Chaplin á köflum en það er svo sem ekki leið samlíking.

Engin ummæli: