Ég var að lesa pistil í Mogganum (18. mars 2007) eftir Björk Bjarnadóttur, sem ég kann engin deili á, en hún skrifar þar um umhverfismál út frá reynslu sinni frá Kanada. Umfjöllunin var almenns eðlis að mestu en mér fannst ein hugmyndin (sem ég gerði að titli færslunnar) þó standa upp úr. Tilvitnun hefst:
"Í Manitoba hafa virkjanir verið reistar í stórum stíl. Landi hefur verið drekkt undir merki framfara og atvinnu. Frumbyggjar hafa þurft að flytja, því land þeirra hefur farið undir uppistöðulón og einnig hafa þeir þurft að horfa upp á forna grafreiti sína fara undir vatn uppistöðulónanna. Þeir hafa ekki séð framfarir eða atvinnu, því allur arðurinn hefur farið til stórfyrirtækjanna, sem veifa leyfum frá ríkinu framan í frumbyggjana sem eru einir fátækustu þegnar Kanada, en ættu að vera þeir ríkustu" ... "Ég er hrædd um að ef við Íslendingar tökum ekki í taumana og segjum nei við meiri stóriðju þá verðum við frumbyggjar í eigin landi. Þar sem erlend stórfyrirtæki fá að nýta okkar hreina land, hreina loft og hreina vatn án þess að leyfa okkur að fá eina krónu af öllum arðinum sem þeir kreista úr auðlindum okkar."
Tilvitnun lýkur.
Þetta virkar á mann eins og svartsýn og langsótt framtíðarspá. Strangt til tekið erum við að njóta ávaxtanna sjálf, til skamms tíma að minnsta kosti, en ef við horfum lengra fram í tímann getur dæmið hins vegar snúist við. Að undanförn hefur alþjóðasamfélagið rofið múrinn sem umlukti lengi vel þjóðir heims. Viðskipti eiga sér stað meira eða minna óháð landamærum. Stórfyrirtæki á heimsvísu eru margfalt öflugri en smærri ríki heims. Þetta á aðeins eftir að aukast, ef svo heldur fram sem horfir í heimsmálum. Hið þunga fótspor stórfyrirtækjanna, verksmiðjurnar og virkjanirnar, verður (ef álvæðingin heldur áfram hömlulaust) svo stór hluti okkar hagkerfis að við gætum þurft að neyðast til að beygja okkur undir duttlunga erlendra valdhafa þegar síst skyldi. Fyrir vikið erum við komin undir hælinn á erlendum aðilum (talandi um fótspor.)
Myndlíkingin um að verða með tímanum eins konar "frumbyggjar" í eigin landi gæti reynst skelfilega nærtæk.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli