Ég las um helgina átakanlega frásögn manns sem sendur var í Breiðuvík á sínum tíma, samhliða frásögn móður hans (sem nú er orðin vel "fullorðin"). Allir vita í dag hvernig Breiðavík var, hvernig forstöðumaður staðarins fékk útrás fyrir pyntingarhvöt á strákunum sem þar voru vistaðir, hvernig reglulegar nauðganir áttu sér stað (og voru sumir þar meira í uppáhaldi en aðrir), hvernig kona forstöðumannsins stundaði sálrænar pyntingar á strákunum með ýmsum hætti og hvernig þeir voru í sjálfheldu á einum afskekktasta kima landsins og gátu ekki einu sinni sent óritskoðað bréf eða kvartað símleiðis (því andað var ofan í hálsmálið á þeim á meðan símtalinu stóð).
Í þessu viðtali kom hins vegar margt gruggugt í ljós varðandi fólkið fyrir sunnan, þá aðila sem stóðu fyrir því að drengirnir voru sendir vestur á Breiðuvík. Barnaverndaryfirvöld í Hafnarfirði ruddust inn á heimili fólks án leitarheimildar, án vitundar lögreglu yfir höfuð, og jafnvel í fjarveru íbúa (innbrot sem sagt), og tóku í þessu tilviki umræddan pilt og sendu hann án samþykkis móður með flugi vestur (þangað var hann farinn áður en móðirin gat klagað í lögregluyfirvöld). Eina sem hægt var að finna að heimilisrekstri þessarar fjölskyldu var það að móðirin var einstæð og þurfti að ala upp nokkur börn (þurfti því að vinna talsvert og bjó við takmörkuð efni). Einn sonanna hafði þar að auki verið staðinn að því að hnupla í félagsskap eldri drengja. Þeir sem eldri voru (og ábyrgir) í þeim hópi sluppu við að vera sendir vestur vegna þess að þeir höfðu sterkara bakland heima við. Í Hafnarfirði á þessum tíma var mikil stéttaskipting og mjög áberandi hvernig litið var niður á einstæð foreldri og fátæklinga (eins og eflaust var gert víðar á Íslandi á þeim tíma). Það er hér sem ég vil staldra við tvær eftirminnilegar klausur og set þær fram sem beinar tilvitnanir:
Móðir: "Barnaverndarnefnd tók af mér barnið mitt og gaf engar skýringar. Ég hef alltaf verið reglumanneskja, aldrei drukkið né reykt og eyddi öllum mínum frítíma heima hjá börnunum mínum. Ég gerði þessu fólki ekki neitt, ég skil ekki enni í dag af hverju það ofsótti mig og heimili mitt. Eldri drengirnir, sem báru væntanlega meiri ábyrgð en K., voru ekki teknir af sínum foreldrum - þeir hafa væntanlega mátt sín meira en ég. Þetta var mikið óréttlæti." (Mbl, 11. mars 2007, bls.20)
Ég get ekki betur séð en að grunngildin séu þarna í heiðri höfð á þessu heimili, samkvæmt skilningi okkar í dag. Sonurinn minnist á þetta sama og kemur með mjög skuggalegan samanburð:
Sonur: "Og mér finnst undarlegt til þess að hugsa að meðan barnaverndarnefndin var önnum kafin við að skipta sér af heimili okkar, þar sem hvorki var drykkjuskapur, ofbeldi né kynferðisleg misbeiting, þá gerði þessi sama nefnd ekkert til að hjálpa Thelmu Ásdísardóttur og systrum hennar, sem fjöldi fólks vissi að voru misnotaðar og höfðu reynt að gera aðvart þar um." (sama blað, bls. 22)
Þarna var meginsyndin sem sagt sú að vera lágt settur í þjóðfélagsstiganum. Aðrar syndir sem tengjast almennum ólifnaði voru léttvægar í samanburði. Hafa lifsgildin breyst svona mikið? Eða var drykkjuskapur það víða að erfitt var (eða ómögulegt) að amast við honum. Fátæktin var þægilegra bitbein því hún afmarkaðist við ákveðinn hóp (og gat því ekki snúist í höndunum á kúgaranum). Þarna var kannski ekki um að ræða raunverulegt siðferðismat heldur hreina og klára valdníðslu þar sem hvert tækifæri var notað til að traðka á þeim sem almennt voru hunsaðir í samfélaginu og gátu ekki varið sig. Sá grunur ágerist við það að heyra umræddan son segja frá því að Guðmunda í Breiðuvík (kona forstöðumannsins) hafi einhvern tímann (á seinni tímum) fengið sæti í "einhverri nefnd" á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Hvort það var barnaverndarnefnd fylgdi nú ekki sögunni, en það væri eftir öllu.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli