sunnudagur, mars 18, 2007

Fréttnæmt: Fæðingarafmæli og skírnarafmæli

Jæja, þá er maður snögglega orðinn eldri en í gær. Reyndar er dagurinn í dag fyrsta stórafmæli mitt síðan við Vigdís kynntumst (en ég var einmitt nýorðinn þrítugur þegar það var). Við héldum upp á daginn með því að baka pönnukökur. Í tilefni af eigin afmæli ákvað ég að bjóða upp á óhefðbundna fyllingu ásamt þessari venjulegu með rjómanum og sultunni. Hún var fengin úr maíblaði Gestgjafans frá því í fyrra og hljóðaði svona: vanilluskyr og mascarpone-ostur með hlynsýrópi, pekan-hnetum og bláberjum. Ég hef lengi gælt við það að bjóða upp á svona pönsur en aldrei getað réttlætt slíka tilraunastarfsemi á kostnað saklausra gesta, ekki fyrr en nú (enda minn dagur, þannig séð). Þrátt fyrir vel heppnaða tilraun (hún þótti mjög bragðgóð blandan) þá hafði gamla góða rjómafyllingin samt vinninginn á endanum.

Ég fékk ósköp fínar gjafir. Ýmsar peysu, síðerma bol og sumarlega skyrtu; lítið og nett heimilistæki sem moppar fyrir mig gólfið (Robomop); útskorna sápu; ísskálasett (sem nýtast einnig sem morgunverðarskálar) og íslensku orðabókina frá Eddu. Orðabókina fékk ég frá Vigdísi og hana ákváðum við að fjárfesta í vegna þess að við erum svo miklir skrabblarar. Aldrei höfum við haft orðabók við höndina. Þetta mun því vera eins konar fyrirheit um spilamennsku framundan.

Afmælið var annars með rólegu sniði. Snjórinn brakaði í kuldanum úti og sterk vorsólin hitaði stofuna okkar. Signý sprangaði um á milli gestanna eins og hún væri sjálft afmælisbarnið. Að vissu leyti átti hún afmæli líka, því nú er ár liðið frá því hún var skírð. Rétt fyrir svefninn tókum við Vigdís okkur því til, rétt eftir að Signý var sofnuð, og horfðum á upptökur frá skírninni hennar. Mikið var hún lítil þá. Varla fær um að fókusera á neitt í umhverfinu, flöktandi augnaráð og alveg hjálparvana. Það fór eiginlega alveg um okkur að horfa á hana svona litla aftur. Á meðan létum við skírnarkertið hennar loga.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið!

Unknown sagði...

Ég á lika íslensku orðabókina og þó ég spili ekki Scrabble blaða ég oft í henni. Alltaf lærir maður eitthvað sniðugt orð :-)

Til hamingju með daginn!

Steini sagði...

Skrítið að ég skuli eignast íslenska orðabók fyrst núna því ég á stórt safn af orðabókum á öllum öðrum hugsanlegum málum. Reyndar er ástæðan sú að mér leist aldrei á hana fyrr en með þessari nýju útgáfu. Flott bók (eða "bækur", enda tvöföld).

Takk fyrir kveðjurnar