föstudagur, mars 16, 2007

Fréttnæmt: Tennur og meðganga

Loks nær maður að pústa í vikulokin. Þetta eru annasamar vikur eins og gefur að skilja, enda Signý komin á fullt og samtímis örstutt í fæðingu hjá Vigdísi. Ljósmóðir hennar reiknar með að fæðingin verði í fyrra fallinu (þ.e.a.s. fyrir settan dag, sem er fimmtándi apríl). Ekki veit ég hvað hún hefur fyrir sér í því en hef þó sterkan grun um að innsæi ljósmóður sé nokkuð marktækt. Vigdísi finnst sjálfri líka eins og það sé stutt í land. Fyrir vikið erum við með hugann við að undirbúa heimilið þessa dagana. Vaggan kom upp á ný fyrir um tveimur vikum og á sama tíma erum við að reyna að taka til og hagræða ýmsu á heimilinu.

Signý fór í skoðun í vikunni, fimmtán mánaða skoðun. Síðan hún leit við síðast hjá hjúkrunarkonunni (tólf mánaða skoðun) hefur ansi mikið gerst. Signý er náttúrulega farin að vafra um eins og sögufræg stjarna þöglu kvikmyndanna, eins og áður sagði, með göngulagið hæfilega útskeift. Hún virkar svo óskaplega sjalfstæð við það eitt að labba sjálf og skoða sig um. Svo er gómurinn allur að springa út, bókstaflega. Einar átta nýjar tennur eru að gægjast fram, bæði augntennur og fremsti jaxl í öllum fjórðungum. Eftir þessu hefur ansi lengi verið beðið. Í águst síðastliðnum var Signý þegar komin með átta tennur - og það þótti mjög mikið. Þetta var á sama tíma og systir Signýjar boðaði komu sína í heiminn, eins og menn muna, og á táknrænan hátt er eins og framskrið tannanna hjá Signýju hafi stöðvast við það. Upp úr áramótum hélt ferlið hins vegar áfram og á fárra vikna tímabili komu næstu átta tennur.

Engin ummæli: