mánudagur, febrúar 13, 2006

Daglegt líf: Ýmsar uppákomur

Eitt og annað hefur á daga okkar Vigdísar drifið síðustu vikuna. Til að byrja með átti Vigdís afmæli fyrir viku síðan. Við héldum ekki neitt sérstaklega upp á það en engu að síður var talsverður gestagangur og huggulegheit heima. Við pöntuðum pitsu og horfðum svo tvö ein á spólu þegar allir voru farnir: Flightplan með Jodie Foster (Óvenjulegur sálfræðiþriller sem gerist nær eingöngu um borð í flugvél og heldur manni í "lausu lofti" nánast alveg til enda).

Í vikunni fékk ég síðan óvenjulegt símtal frá Gunnari Erni, fyrrum kórfélaga úr Voxinu og Háskólakórnum. Kórstjóri Voxins og Háskólakórsins frá árum áður, hann Egill Gunnarsson, varð fertugur í vikunni og hugmyndin var að smala saman gömlum karlakórsfélögum og birtast óvænt í afmælinu hans. Það var auðvitað rakið og stórskemmtilegt fyrir okkur alla, ekki síst hann sjálfan. Gaman að sjá hann eftir allan þennan tíma. Hann hefur búið á Ítalíu undanfarin fimm ár í tónsmíðanámi og svei mér ef hann er ekki farinn að líta út eins og þarlendur "maesto" með frjálslegt axlasítt hár.

Erilsöm vika endaði loks um helgina með því að ég hjálpaði Beggu systur að flytja milli húsa í Breiðholtinu, örfárra kílómetra leið, úr kjallara og upp á þriðju hæð (með geggjuðu útsýni). Hún á gríðarlega mikið af dóti og flutningarnir hefðu tekið óralangan tíma ef við heðfum ekki notið góðs af lyftara sem snaraði kössum, húsgögnum og öllu hugsanlegu upp á svalir. Þvílíkur léttir. Græjan gerði það að verkum að maður var bara þægilega lúinn þegar heim kom, en ekki ónýtur.

Engin ummæli: