miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Netið: Myndasíða

Eins og fram kom í lok desember þá fengum við Vigdís afar vandaða stafræna myndavél í jólagjöf. Með henni höfum við notið þess í drjúga stund að taka fjölskylduljósmyndir frá öllum hugsanlegum hliðum. Þær hafa hins vegar ekki læðst hingað á bloggið enn þá. Ástæðan er sú að við höfum gert annað vefsetur ábyrgt fyrir myndunum okkar. Flickr-síðan heldur glæsilega utan um fjölskyldualbúmið, bæði okkar og annarra. Þetta er snilldarsíða (eða -setur) sem heldur utan um myndasafnið vélrænt og raðar myndunum í tímaröð í eins konar dagatalsformi. Hér er allt hægt. Það má til dæmis slá inn leitarorð (svokallað "tag") og fá haug af myndum úr hinum og þessum myndasöfnum út frá hugtakinu sem leitað er eftir. En þetta er hins vegar leikur út af fyrir sig. Hér vil ég fyrst og fremst leggja áherslu á síðuna okkar í Granaskjólinu. Við höfum sett á netið tiltölulega fáar af þeim hundruðum mynda sem við höfum tekið. Við vönduðum okkur við valið á hverri mynd og við vonum að vel hafi tekist að blanda saman skemmtilegum, lýsandi og fjölbreyttum myndum sem vega hverja aðra upp, bæði fagurfræðilega og sem frásögn. Eðli málsins samkvæmt uppfærist þessi síða reglulega og því hvet ég lesendur til að kíkja reglulega á nýjustu færslur samhliða blogginu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mjög fínar og skemmtilegar myndir. Sérstaklega hrifin af bangsamyndunum.