mánudagur, febrúar 20, 2006

Pæling: Löng hugleiðing um Söngvakeppni

Eurovision söngvakeppnin er fyrirbæri sem ekki ætti að taka mjög alvarlega. Engu að síður er ekki hjá því komist að hnjóta um mörg samfélagsmein sem kristallast í þeim farsa sem nú er að baki. Ég vil setja spurningarmerki við kosninguna sem slíka, við imynd Silvíu (sem nú er í umboði opinberra aðila) og leyfi mér að efast um að þetta tiltekna lag, sem er að mörgu leyti skemmtilegt framlag, komi til með að höfða til Evrópusamfélagsins.

Svo maður byrji á byrjuninni þá er rétt að taka fram að Eurovision keppnin var óneitanlega glæsileg í alla staði. Fullt af góðum lögum, sum þeirra snilldarlega flutt, og öll umgjörðin við hæfi. Sigurlagið er smitandi og að mörgu leyti mjög vel samið. Leiksýningin í kringum það var ákaflega vel heppnuð, eins og öll ímynd Silvíu. Ég er samt mjög efins og að sumu leyti ósáttur. Mér finnst þessi sirkús hafa þrátt fyrir allt verið særandi fyrir réttlætiskennd mína (fremur en fegurðarskyn, ólíkt venjulegum Eurovisionkeppnum). Ég set spurningamerki við þrjú atriði.

1) Fyrirkomulag kosningarinnar:
Í kosningunni var ekki gætt jafnræðis milli laga né milli kynslóða kjósenda. Mögulegt er að sjá í gegnum fingur sér með það að laginu hafi verið lekið á netið í ljósi þess að önnur lög úr fyrri umferðum keppninnar voru hvort eð er komin í spilun. Útspil Páls með að hleypa fleiri lögum inn í úrslitakvöldið var klókt. Hins vegar finnst mér óafsakanlegt að hvert símanúmer skyldi hafa fengið fimm atkvæða rétt! Það gefur yngri kynslóðum forskot þar sem kosningatækið er þeirra helsta samskiptatæki. Þessa skoðun þarf ég að útskýra:

Það er lítið mál fyrir hvern sem er að senda inn eitt atkvæði. Það kunna allir að hringja. Það er hins vegar aðeins á færi þeirra sem kunna vel á símana sína og nota þá mikið til samskipta að endurvelja í sífellu og ná þannig að fullnýta fimmfaldan atkvæðisrétt sinn í þágu eins lags. SMS-kosning, sem einnig stóð til boða, gefur ungu kynslóðinni einnig forskot því það er vitað mál að eldri kynslóðirnar kunni lítið til verka á því sviði. Til hvers að hafa fimm atkvæði á númer? Nú, auðvitað til að græða sem mest á þessu. Það getur maður skilið. Hátíðin, eins myndarleg og hún var, er augljóslega mjög dýr. Það þjónar kosningunni ekki á neinn hátt að gefa hverju númeri kost á að velja sama lag fimm sinnum. Það endurspeglar vilja þjóðarinnar ekki betur að gefa þeim sem ákafastir eru kost á að hringja oftar. Þetta atriði veldur því að bilið milli kynslóða kjósenda greikkar enn meira því þeir sem eru komnir á sjálfræðisaldur eru meðvitaðri um bókhald sitt og ættu miklu fremur en unglingar og börn að átta sig á þeirri féþúfu sem kosningin gerir úr kjósendum. En það er ekki bara fjárhagslegt kæruleysi yngri kynslóða sem veldur því að það eyðir fleiri símtölum í kosningu af þessu tagi. Þessi kosning er beinlínis mikilvægari þeim en fullorðnum því þarna gefst þeim fátítt tækifæri til að láta rödd sína heyrast í samfélaginu. Það tækifæri er ekki nærri eins spennandi og ögrandi fyrir fullorðna áhorfendur sem lifað hafa tímana tvenna og líta á þetta sem lítilvæga kosningu samanborið við aðrar. Yngri kynslóðirnar fá hins vegar byr undir báða vængi. Það er með öðrum orðum fyrst og fremst verið að höfða til unglinga með símakosningunni og valda þar með miklu ójafnvægi á milli kynslóða. Við sáum að Regína hlaut yfirburðakosningu meðal hinna valkostanna en átti samt ekki möguleika. Þetta er rannsóknarefni sem vert er að taka upp fyrir næstu keppni og skoða hvernig standa ætti að kosningunni svo að hún endurspegli raunverulegan vilja þjóðarinnar í heild sinni.

2) Vafasöm ímynd öðlast viðurkenningu:
Ímynd Silvíu er leiksýning, eins og flestir vita. Það er hins vegar afar vafasamt að setja "glyðruhlutverkið", eins og það birtist okkur í keppninni, á stall fyrir framan alþjóð. Það er ekki það sama að birtast í eigin þætti, á eigin ábyrgð, hjá lítilli einkarekinni sjónvarpsstöð og að vera sendiherra Íslands erlendis í umboði Ríkisútvarpsins. Þegar hún birtist haugfull í viðtali við fréttastofu stöðvar tvö, nýbúin að rústa hótelherbergi, þá spyr maður sjálfan sig hvað hún sé að meina með þessu. Aftur minnir maður sig á að þetta er leiksýning enda allir uppábúnir fígúruklæðum sínum. Þetta er farsi. En það gerir málið enn alvarlegra. Hvar er siðgæðisvörður Ríkisútvarpsins núna sem meinar fólki að blóta í sjónvarpinu, auglýsa tóbak eða hampa áfengisneyslu? Hvaðan fékk Silvia einkarétt á að brjóta allar reglur með því að auglýsa kynímynd sína og líferni? Hvaða skilaboðum er verið að koma á framfæri? Eða er þetta bara grín? Hverju er þá verið að gera grín að? Það er ekki nóg að halda þessu fram því það er oft mjög stutt á milli ádeilu og dýrkun. Sem dæmi um það líta þeir, sem verða bitbein ádeilu grínista á borð við Spaugstofuna, venjulega á það sem einhvers konar upphafningu. Þarna er mjög skammt á milli. Er Silvía að gera grín að unglingakúltúrnum eða er þessi menningarheimur að vaða uppi í trássi við allar reglur og siðavenjur? Hér væri áhugavert að kanna viðhorf mismunandi kynslóða til sirkussins í kringum Silvíu. Hvað ætli krökkunum finnist um ýkta og afkáralega mynd hennar? Er hún að pota í þau og gera grín að þeim eða er hún talsmaður þeirra? Miðað við afgerandi kosningu virðist svarið liggja í augum uppi. Með sendiherrahlutverki Silvíu hefur ímynd hennar nú hlotið rækilega viðurkenningu opinberra aðila og í leiðinni blessun gagnvart þeim fjölmörgu sem ekki sjá í gegnum "leiksýninguna" og líta á Silvíu sem fyrirmynd. Skilaboðin geta verið mjög misvísandi fyrir móttækileg ungmenni sem eru um það bil að kynnast sjálfum sér sem kynverum. Við sem eldri erum getum hlegið, en það er svo sannarlega án ábyrgðar.

3) Sigurlíkur lagsins:
Ef maður hugsar út í líkindi þess að lagið nái árangri, án þess að það skipti í sjálfu sér nokkru máli, þá þarf að hafa í huga að aðdráttarafl Silvíu er ábyggilega mjög staðbundið. Erum við kannski búin að gleyma hvað hún fór í taugarnar á fólki í blábyrjun meðan maður var að átta sig á henni? Nú þegar maður áttar sig á "gervinu" má hafa gaman af þessu eða að minnst kosti umbera hana. Hún er snillingur á sínu sviði og óheftur og skapandi tjáningarmáti hennar getur verið mjög frískandi. En getur það skilað sér yfir í stóru keppnina? Það verður spennandi að sjá. Hins vegar er reynsla undanfarinna ára af því að senda staðbundnar unglinga- og barnastjörnur í keppnina ekki góð. Þetta fólk hefur þurft að vinna fyrir aðdáuninni hér heima með mikilli ballspilun eða sjónvarpsþáttagerð. Þegar á hólminn er komið hefur árangurinn, án víðtækrar viðkynningar, verið eftir því takmarkaður, jafnvel ömurlegur, svo ekki sér sterkar að orði kveðið. Til að eiga sjens þarf Silvía í raun að fara í myndarlega herferð og kynna sig Evrópu með sama hætti og Ruslana hér um árið. Viljum við það? Hún hefur að minnsta kosti einvalalið sér til stuðnings. Það verður vægast sagt áhugavert að sjá útkomuna.

Engin ummæli: