sunnudagur, febrúar 19, 2006

Kvikmyndir: Munich

Ég skrapp í bíó rétt fyrir helgi. Það er í sjálfu sér ekki frásagnar vert nema fyrir það að ég hef ekki farið í bíó í um það bil eitt og hálft ár. Ég held að síðasta myndin sem ég sá var "Mystic River" eða hugsanlega "Farfuglamyndin" sem sló í gegn einhvern tímann í hitteðfyrra. Það þurfti virkilega stórmynd til, Munich, sem er nýjasta afurð Steven Spielbergs. Bróðir Vigdísar, Kristinn, var í slagtogi en hann er mikill aðdáandi Spielbergs. Ég er sjálfur hófsamur aðdáandi leikstjórans og lít svo á að hann sé afar mistækur en engu að síður meistari á sínu sviði. Hann er misjafn í bæði stíl og nálgun. Hann á það til að láta frá sér "alvöru" myndir öðru hvoru á milli glans- eða hasarmynda. Þessi mynd er svo sannarlega ein af þungavigtarmyndunum.

Myndin fjallar um hryðjuverkaárásina á ólympíuleikunum í Munchen 1972 og birtir þá umdeildu atburðarás stig af stigi í huga aðalleikarans og flettar hana þannig saman við leigumorðöldu sem fylgdi í kjölfarið um alla Evrópu. Það gengur allt upp í þessari mynd. Sjónræn áhrif hennar eru svo mögnuð að mér fannst beinlínis undarlegt að stíga úr rakaþungu sumarlofti Evrópu og út í frostkaldan og myrkan Vesturbæinn. Myndin hefur nánast áþreifanegan Evrópskan stíl áttunda áratugarins og minnir um marg á myrk meistaraverk kvikmyndasögunnar frá þeim tíma. Það er nostrað við smáatriðin til að gera upplifunina trúverðuga. Hver einasta sena er listaverk út af fyrir sig. Kvikmyndatakan og listræn stjórnun er eins og best verður á kosið. Það sem er líklega best við myndina er hins vegar það að leikstjórinn gætir vandlega að taka ekki afstöðu, hvorki með né gegn Ísraelum og þeirra málstað. Fyrir vikið er upplifunin miklu raunverulegri og gefur áhorfandanum svigrúm upp á eigin spýtur til þess að hugsa. Þessi mynd er mikið meistaraverk.

Engin ummæli: