mánudagur, febrúar 20, 2006

Upplifun: Bíókvalir

Bíóferðin um daginn var ekki eintóm gleði. Ég er búinn að vera með lítilsháttar hálsbólgu undanfarna daga og svolítið slappur. Til að bæta gráu ofan á svart hef ég líka verið með bólu á tungunni aftanverðri, svona til hliðar, þannig að hún straukst við jaxlana hægra megin. Ferlega óþægilegt. Ég hef eftir fremsta megni reynt að hlífa tungunni. Útkoman var sú að ég var hálf smámæltur um tíma, jafnvel "blæstur" (eins og Bubbi kóngur). En ég þraukaði, hálf pirraður.

Þegar ég fór í bíó, sem sagt, stóð ég andspænis frekar erfiðri ákvörðun: Átti ég að halda upp á fyrstu bíóferðina í óralangan tíma með pompi og pragt (poppi og pragt) eða sleppa poppinu. Sagan segir náttúrulega að ég tók freistandi ákvörðunina og maulaði popp af áfergju með góðum árangri í myrkrinu þrátt fyrir rammskakkt bitið, allt þar til gómurinn læstist andstyggilega í kinnina hinum megin. Sársaukatilfinningin var yfirgengileg í eitt andartak.

Nú sit ég uppi með ör þar sem enginn sér (sem rímar við gamalt ör í hinni kinninni).

Engin ummæli: