sunnudagur, maí 28, 2006

Upplifun: Eins konar tímamót

Í dag lokaði ég tveimur táknrænum hurðum. Ég söng í minni síðustu messu hjá Seltjarnarnesskirkjukórnum og vann eins konar lokavakt í Vættaborgum. Svo ég taki þetta fyrir í réttri röð þá hef ég aldrei verið sérstaklega mikið gefinn fyrir messusöng og er feginn þeim kaflaskilum. Pavel kórstjóri og organisti kirkjunnar fann mig fyrir nokkrum mánuðum á förnum vegi og náði að dobbla mig í kórinn með einhverjum klókindum. Mér leiddist þetta samt hálfpartinn. Pavel er reyndar sjálfur afar viðkunnanlegur og skemmtilegur náungi en messusöngur höfðar ekki til mín. Mér finnst hann flatur og hraðsoðinn og svo virka messur einhvern veginn niðurdrepandi á mig. Ég var þarna því ekki af heilum hug. Langaði bara mest til þess að vera heima á sunnudagsmorgnum.

Vaktin í Vættaborgum var líka eins konar endapunktur. Hún er táknræn af því að Soffía, forstöðukona Sambýlisins, er að láta af störfum. Undir hennar stjórn hef ég unnið í mörg ár í Vættaborgum (nema það hefur lítið sem ekkert farið fyrir því undanfarið ár eða svo). Það var mjög skrítið að koma aftur á vakt. Fullt af nýju fólki og ég fann áþreifanlega fyrir "kynslóðaskiptunum" sem ég reikna með að séu í vændum. Þarna voru samt nokkrir starfsmenn sem ég þekkti vel, þar á meðal Soffía sjálf. Það fór vel á því að ég tæki upp lítið og nett myndaalbum og sýndi þeim vel valdar myndir af Signýju, sem vöktu af sjálfsögðu lukku.

laugardagur, maí 27, 2006

Fréttnæmt: Ungbarnasund og grautagjöf

Á fimmtudaginn var fórum við í fyrsta skipti með Signýju í ungbarnasund. Hún tók því mjög vel. Var svolítið smeyk í blábyrjun en tók svo til við að busla af krafti. Hún var eiginlega líflegust barnanna sem voru með henni (enda var hún eldri en þau flest). Í eitt skiptið var börnunum beint hvert að öðru, í lítinn hring, þar sem þau fengu að virða hvert annað fyrir sér. Signý var afar hress og kát og buslaði kröftuglega með höndunum inni í miðjum hringnum. Eitt barnið fékk smá gusu framan í sig og fór að gráta og að sjálfsögðu var Signýju mjög brugðið við það og grét með. Annars gekk þetta ótrúlega vel og henni, sem og okkur Vigdísi, leið ákaflega vel í þessum fyrsta tíma. Aðstaðan er góð (lítil innilaug á Hrafnistu) með heitum pottum og öllu tilheyrandi.

Þau eru mörg framfaraskrefin sem Signý þarf að taka þessa dagana, rétt áður en við Vigdís förum út til Danmerkur. Við keyptum grauta af ýmsum gerðum um helgina. Signý er þegar búin að prófa einn þeirra og tók nýbreytninni vel. Við gáfum henni ekki nema tvær teskeiðar í fyrsta skiptið en miðað við góða matarlyst Signýjar verður auðvelt að bæta við skammtinn.

mánudagur, maí 22, 2006

Tónleikar: Angelite

Ég fór á tónleika í gær með Búlgörskum kvennakór sem heitir Angelite. Þetta var svo mögnuð upplifun að ég var ekki í ökuhæfu ástandi lengi vel á eftir. Óaðfinnanlegur flutningur á afar flóknum og margbrotnum lagasmíðum endaði með einni af perlum söngsveitarinnar, einfaldri lagasmíð sem er full af minningum (lokalag stórkostlegrar plötu sveitarinnar frá árinu 1986 "Le Mystere des voix Bulgares" (sem er reyndar eldri útgáfa af sama kór, undir öðru nafni). Ég er með efnisskrá tónleikanna enn undir höndum og sé að lýsingin þar hittir naglan beint á höfuðið:


Leyndardómsfullur og oft á tíðum yfirskilvitlegur hljómur kórsins byggir á aldagamalli sönghefð frá Balkanskaga, sem má kalla suðupott fjölþjóðamenningar, en Búlgarar hafa öldum saman deilt landi sínu, m.a. með Tyrkjum, sígaunum, Rúmenum, Armeníumönnum, gyðingum og Makedóníumönnum. Útkoman er þessi sérstaki og heillandi hljómur kórsins. Raddir kvennanna breiðast út sem litríkt og geislandi litaspjald þar sem leikið er með ómstríður og yfirtóna með kraftmiklum og oft á tíðum skerand og málmkenndum víbratólausum brjósttónum, með hrópum og köllum, trillum og allskyns flúri.

Balkneskara verður það varla. Það er svolítið skemmtilegt að hugsa til þess að söngvakeppni Evrópu, sem oft er kölluð "Balkanvision" nú til dags, skuli vera nýafstaðin. Það sem meira er, fyrir tveimur árum átti sér stað samskonar samsvörun. Þá sótti ég tónleika á sama stað (Hallgrímskirkju) þar sem rússneskur karlakór söng af guðs náð á sama tíma og Ruslana frá Úkraínu innsiglaði sigur sinn eftirminnilega í áðurnefndri keppni. Hjátrúarfullir gætu haldið að Eurovision keppnin skjóti öngum sínum alla leiði til Íslands þar sem táknmynd hennar gýs upp í virðulegri mynd á holtinu þar sem Hallgrímskirkja stendur. Aðrir sjá í hendi sér einfaldari skýringu á þessari samsvörun. Vesturlönd eru einfaldlega móttækilegri fyrir tónlist A-Evrópu en áður og þessar tvær hátíðir, Listahátíð Reykjavíkur og Eurovision, eru samtímis að svala sömu þörf.

föstudagur, maí 12, 2006

Tónlist: Sufjan Stevens og Grandaddy

Undanfarin misseri hef ég lítið gert af því að gæða mér á lystisemdum tónlistarinnar sem svífa hjá eins og fjarlægar krásir. Maður nennir því eiginlega ekki. Um það bil þegar Signý fæddist, og raunar á sama tíma og ég beið eftir að þær mæðgurnar kæmu heim af spítalanum, þá hreifst ég af tónlist Sufjan Stevens "Come on Feel the Illinoise". Öll önnur tónlist fannst mér hreinlega óviðeigandi á þeirri stundu. Næmni, undraverður margbreytileiki og virðing Sufjans fyrir viðfangsefni sínu virkaði sem prýðilegur bakgrunnur á meðan ég sat heima i myrkrinu og velti vöngum yfir breytingunum framundan.

Nú er langt um liðið, erillinn síbreytilegur en allt annars konar en áður. Inn á milli leyfir maður sér þó að hlusta á tónlist. Mest af því sem maður heyrir útundan sér er grófgert, klunnalegt eða klisjukennt. Heimstónlist af ýmsum toga hefur í staðinn átt hvað helst upp á pallborðið hjá mér, enda undraverður hljómaheimurinn, snilldarleg spilamennskan og takmarkalaus einlægnin og spilagleðin. Á svipuðum forsendum hefur mér þó tekist að falla fyrir lítt þekktri plötu frá hljómsveit sem heitir Grandaddy (Sopthware Slump). Hún nær inn á sömu bylgjulengd og Radiohead á sínum næmustu stigum (t.d. Exit Music), Sigurrós (af Ágætis byrjun), Flaming Lips (The Soft Bulletin), Air (vélrænn drungi Virgin Suicides) og Pink Floyd á heiðríkjutímabilinu sínu þegar sýran gerði himinninn fölbleikan (Atom Heart Mother). Sopthware Slump er undraverð plata sem kemur manni algerlega í opna skjöldu.

Lestur: Draumalandið

Ég keypti Draumalandið í vikunni eftir Andra Snæ og er um það bil að lesa hana upp til agna. Þvílík bók! Hann hefur lagt allt undir, allar sínar hugmyndir og hugsjónir, og sameinað það í einu heildsteyptu meistaraverki sem talar til nútímans eins og vísdómur að handan. Hugsunin er gegnumgangandi kristaltær, einföld og skýr. Með barnslega forvitni og einlæga leit að einföldum og áþreifanlegum sannleika nær Andri að fletta ofan af orðræðunni í samfélaginu, sem oft og tíðum er ekkert öðruvísi en laukur, blekkingarleikur þar sem lag eftir lag afhjúpar innistæðulaust hjóm.

Bókina keypti ég í vikunni en er búinn að vera á leiðinni alllengi út í bókabúð. Síðan barst "þjóðargjöfin" inn um póstlúguna í síðasta mánuði, eða hvað það nú hét - ávísunin sem hægt var að leysa út í bókabúð upp á þúsundkall, svo lengi sem maður keypti sér íslenska bók og splæsti saman við hana að lágmarki tvöþúsund krónur (svipað og viðbótarlífeyrissparnaðurinn). Ég öslaðist inn hálftíma fyrir lokun á síðasta degi - næstum búinn að gleyma eindegi ávisunarinnar. Þá var bókin uppseld, nokkuð fyrirsjáanlega, en það sem kom mér skemmtilega á óvart var að þetta var þriðja upplagið sem þjóðin hafði keypt upp. Fjórða var á leiðinni. Ég var ekki búinn að snúa mér frá afgreiðsluborðinu þegar önnur manneskja vatt sér að sömu afgreiðsludömu og spurði um bókina hans Andra. Nokkru síðar heyrði ég útundan mér að þriðja manneskjan spurðist fyrir um bókina. Sá fjórði bættist við áður en ég yfirgaf bókabúðina. Allir á höttunum eftir úrvalsbókinni með þúsundkróna ávísun í vasanum. Afgreiðsludaman var nú samt sniðug. Fyrst bókin var á leiðinni, og ég vildi eindregið hana, benti hún mér á að kaupa einhverja aðra bók í staðinn og skipta henni síðar út fyrir Draumalandið. Það gerði ég og hef nú leyst bókina úr læðingi, ef svo má að orði komast, svo öflug er lesningin.

mánudagur, maí 08, 2006

Fréttnæmt: Pelagjöf og tennur

Einn vorboða minntist ég ekki á í síðustu færslu sem tengist sérstaklega þessu sumri sem nú fer í hönd. Signý tók við pela í dag. Það er búið að taka sinn tíma að fá hana til að sætta sig við pelann og á ýmsu hefur gengið. Það var ekki fyrr en við keyptum nýjan pela frá NUK (sem líkir meira eftir raunverulegri geirvörtu en aðrir pelar) að Signý lét til leiðast. Líklega hafði það líka eitthvað að segja að fylltum pelann með glænýrri brjóstamjólk þannig að upplifunin var fyrir Signýju eins eðlileg og hugsast gæti (maður veit aldrei hvort frysta mjólkin búi yfir einhverju ókræsilegu aukabragði). Þetta gekk því eins og í sögu. Loksins. Það þýðir einfaldlega að við Vigdís getum andað léttar þegar við förum til Danmerkur í byrjun júní. Vigdís verður þá í þrjá daga fra Signýju (en ég aðeins lengur) og það var satt að segja farið að valda okkur áhyggjum hversu óhagganleg Signý var í matarvenjum sínum. Þetta er líka tímabært með tilliti til þess að sú litla er komin með tvær tennur í neðri góm (þær birtust fyrir um tveimur vikum) og samkvæmt fjölskyldusögu minni eru nokkrar líkur á að tennur í efri góm fylgi fast í kjölfarið.

Upplifun: Þrír vorboðar

Í dag varð ég þess sterklega áskynja að sumarið væri á næsta leyti. Það byrjaði eiginlega með kórnum í gær. Þá kláraðist langt og erfitt æfingaferli með vel heppnuðum tónleikum. Það var því með vissum létti, sem minnti á próflok, sem ég rölti um götur og stræti í dag. Því til undirstrikunar tóku veðurguðirnir undir með himneskri blíðu. Það er búið að vera bjart og hlýtt í nokkra daga í röð og sælan virðist vera að færast í aukana ef eitthvað er. Í dag og í gær nálgaðist hitinn tuttugu stig víðast hvar. Þegar hitinn staldrar við í nokkra daga í senn með þessum hætti finnst manni sumarið óafturkallanlegt. Það er komið til að vera. Við Vigdis tókum einnig af skarið og fórum í fyrsta skipti í sund á árinu. Signý fór með. Hún hefur enn ekki farið í ungbarnasund (það stendur þó til bóta) þannig að við tókum hana með í vagni. Það gekk bara vel. Aðstaðan í Vesturbæjarlauginni er til fyrirmyndar að þessu leyti. Ég kom inn gegnum sérleið bakatil eins og hjólastóll og nýtti mér útiklefana til að svissa yfir í sundgírinn. Unaðslegt að komast loksins í heitu pottana og renna saman við samtölin sem þar krauma afslöppuð og notaleg. Sumarið er því sannarlega komið, ekki bara í sinni og veðri heldur einnig í verklegri rútínu, því þetta ætlum við að endurtaka sem fyrst.

sunnudagur, maí 07, 2006

Tónleikar: Dies Irae eftir Caldara

Aldeilis mögnuðum tónleikum er lokið í Seltjarnarneskirkju þar sem kór kirkjunnar, ásamt hljómsveit áhugamanna, frumflutti Dies Irae eftir Caldara. Það gekk nánast allt upp og stemningin var frábær. Menn hristu hausinn yfir því að þessi tónlist skuli vera eins lítið þekkt og raun ber vitni, svo glæsilega hljómaði þetta allt saman. Síðan kom Viera Manasek (sem stundum hefur stýrt kórnum) eftir hlé og þreytti einsöngvarapróf hjá Ailinu Dubic, með hljómsveitarundirspili. Þetta var stórkostlega sungið hjá henni og hreint ótrúlegt hvað fíngerð manneskja getur gefið frá sér mikinn hljóm - svo að ekki sé minnst á túlkun, tónhæð og önnur blæbrigði.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Þroskasaga: Pelagjöf

Þessa dagana stendur til að venja Signýju við pela svo þær mæðgurnar verði ekki of háðar hvorri annarri í sumar. Það ætlar ekki að ganga þrautalaust. Signý hefur átt gott með að liggja á brjósti og virðist misboðið þegar henni er réttur pelinn. Kannski dreypir hann ekki nógu duglega fyrir hennar sogþörf. Að minnsta kosti bregst hún ókvæða við og lætur þá vel í sér heyra. Það má fylgja sögunni að hingað til hefur hún ekki viljað taka við snuði heldur. Hún virðist bara ekki hrifin af þessum gerviefnum, sem er svo sem ágætis fyrirboði um vandaðan smekk.