sunnudagur, maí 28, 2006

Upplifun: Eins konar tímamót

Í dag lokaði ég tveimur táknrænum hurðum. Ég söng í minni síðustu messu hjá Seltjarnarnesskirkjukórnum og vann eins konar lokavakt í Vættaborgum. Svo ég taki þetta fyrir í réttri röð þá hef ég aldrei verið sérstaklega mikið gefinn fyrir messusöng og er feginn þeim kaflaskilum. Pavel kórstjóri og organisti kirkjunnar fann mig fyrir nokkrum mánuðum á förnum vegi og náði að dobbla mig í kórinn með einhverjum klókindum. Mér leiddist þetta samt hálfpartinn. Pavel er reyndar sjálfur afar viðkunnanlegur og skemmtilegur náungi en messusöngur höfðar ekki til mín. Mér finnst hann flatur og hraðsoðinn og svo virka messur einhvern veginn niðurdrepandi á mig. Ég var þarna því ekki af heilum hug. Langaði bara mest til þess að vera heima á sunnudagsmorgnum.

Vaktin í Vættaborgum var líka eins konar endapunktur. Hún er táknræn af því að Soffía, forstöðukona Sambýlisins, er að láta af störfum. Undir hennar stjórn hef ég unnið í mörg ár í Vættaborgum (nema það hefur lítið sem ekkert farið fyrir því undanfarið ár eða svo). Það var mjög skrítið að koma aftur á vakt. Fullt af nýju fólki og ég fann áþreifanlega fyrir "kynslóðaskiptunum" sem ég reikna með að séu í vændum. Þarna voru samt nokkrir starfsmenn sem ég þekkti vel, þar á meðal Soffía sjálf. Það fór vel á því að ég tæki upp lítið og nett myndaalbum og sýndi þeim vel valdar myndir af Signýju, sem vöktu af sjálfsögðu lukku.

Engin ummæli: