mánudagur, maí 22, 2006

Tónleikar: Angelite

Ég fór á tónleika í gær með Búlgörskum kvennakór sem heitir Angelite. Þetta var svo mögnuð upplifun að ég var ekki í ökuhæfu ástandi lengi vel á eftir. Óaðfinnanlegur flutningur á afar flóknum og margbrotnum lagasmíðum endaði með einni af perlum söngsveitarinnar, einfaldri lagasmíð sem er full af minningum (lokalag stórkostlegrar plötu sveitarinnar frá árinu 1986 "Le Mystere des voix Bulgares" (sem er reyndar eldri útgáfa af sama kór, undir öðru nafni). Ég er með efnisskrá tónleikanna enn undir höndum og sé að lýsingin þar hittir naglan beint á höfuðið:


Leyndardómsfullur og oft á tíðum yfirskilvitlegur hljómur kórsins byggir á aldagamalli sönghefð frá Balkanskaga, sem má kalla suðupott fjölþjóðamenningar, en Búlgarar hafa öldum saman deilt landi sínu, m.a. með Tyrkjum, sígaunum, Rúmenum, Armeníumönnum, gyðingum og Makedóníumönnum. Útkoman er þessi sérstaki og heillandi hljómur kórsins. Raddir kvennanna breiðast út sem litríkt og geislandi litaspjald þar sem leikið er með ómstríður og yfirtóna með kraftmiklum og oft á tíðum skerand og málmkenndum víbratólausum brjósttónum, með hrópum og köllum, trillum og allskyns flúri.

Balkneskara verður það varla. Það er svolítið skemmtilegt að hugsa til þess að söngvakeppni Evrópu, sem oft er kölluð "Balkanvision" nú til dags, skuli vera nýafstaðin. Það sem meira er, fyrir tveimur árum átti sér stað samskonar samsvörun. Þá sótti ég tónleika á sama stað (Hallgrímskirkju) þar sem rússneskur karlakór söng af guðs náð á sama tíma og Ruslana frá Úkraínu innsiglaði sigur sinn eftirminnilega í áðurnefndri keppni. Hjátrúarfullir gætu haldið að Eurovision keppnin skjóti öngum sínum alla leiði til Íslands þar sem táknmynd hennar gýs upp í virðulegri mynd á holtinu þar sem Hallgrímskirkja stendur. Aðrir sjá í hendi sér einfaldari skýringu á þessari samsvörun. Vesturlönd eru einfaldlega móttækilegri fyrir tónlist A-Evrópu en áður og þessar tvær hátíðir, Listahátíð Reykjavíkur og Eurovision, eru samtímis að svala sömu þörf.

Engin ummæli: