mánudagur, maí 08, 2006

Fréttnæmt: Pelagjöf og tennur

Einn vorboða minntist ég ekki á í síðustu færslu sem tengist sérstaklega þessu sumri sem nú fer í hönd. Signý tók við pela í dag. Það er búið að taka sinn tíma að fá hana til að sætta sig við pelann og á ýmsu hefur gengið. Það var ekki fyrr en við keyptum nýjan pela frá NUK (sem líkir meira eftir raunverulegri geirvörtu en aðrir pelar) að Signý lét til leiðast. Líklega hafði það líka eitthvað að segja að fylltum pelann með glænýrri brjóstamjólk þannig að upplifunin var fyrir Signýju eins eðlileg og hugsast gæti (maður veit aldrei hvort frysta mjólkin búi yfir einhverju ókræsilegu aukabragði). Þetta gekk því eins og í sögu. Loksins. Það þýðir einfaldlega að við Vigdís getum andað léttar þegar við förum til Danmerkur í byrjun júní. Vigdís verður þá í þrjá daga fra Signýju (en ég aðeins lengur) og það var satt að segja farið að valda okkur áhyggjum hversu óhagganleg Signý var í matarvenjum sínum. Þetta er líka tímabært með tilliti til þess að sú litla er komin með tvær tennur í neðri góm (þær birtust fyrir um tveimur vikum) og samkvæmt fjölskyldusögu minni eru nokkrar líkur á að tennur í efri góm fylgi fast í kjölfarið.

Engin ummæli: