laugardagur, maí 27, 2006

Fréttnæmt: Ungbarnasund og grautagjöf

Á fimmtudaginn var fórum við í fyrsta skipti með Signýju í ungbarnasund. Hún tók því mjög vel. Var svolítið smeyk í blábyrjun en tók svo til við að busla af krafti. Hún var eiginlega líflegust barnanna sem voru með henni (enda var hún eldri en þau flest). Í eitt skiptið var börnunum beint hvert að öðru, í lítinn hring, þar sem þau fengu að virða hvert annað fyrir sér. Signý var afar hress og kát og buslaði kröftuglega með höndunum inni í miðjum hringnum. Eitt barnið fékk smá gusu framan í sig og fór að gráta og að sjálfsögðu var Signýju mjög brugðið við það og grét með. Annars gekk þetta ótrúlega vel og henni, sem og okkur Vigdísi, leið ákaflega vel í þessum fyrsta tíma. Aðstaðan er góð (lítil innilaug á Hrafnistu) með heitum pottum og öllu tilheyrandi.

Þau eru mörg framfaraskrefin sem Signý þarf að taka þessa dagana, rétt áður en við Vigdís förum út til Danmerkur. Við keyptum grauta af ýmsum gerðum um helgina. Signý er þegar búin að prófa einn þeirra og tók nýbreytninni vel. Við gáfum henni ekki nema tvær teskeiðar í fyrsta skiptið en miðað við góða matarlyst Signýjar verður auðvelt að bæta við skammtinn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ó hvað það verður gaman að fylgjast með Signýju litlu í sundi. Hún á örugglega eftir að fíla það vel og hafa gott af því :-)

Steini sagði...

Ég hlakka til að setja myndir af sundinu á netið. Hún tekur sig svo vel út í lauginni í glænýjum sundbol, fagurgrænum með vínrauðri rós í brjóstmálinu :-).